Fréttablaðið
29. mar, 2007

Skýrar víglínur um Evrópu

Í tengslum við Iðnþing 2007 fengu Samtök iðnaðarins Capacent Gallup einu sinni enn til að kanna hugi Íslendinga til inngöngu í Evrópusambandið (ESB). Niðurstaðan reyndist svipuð og jafnan áður síðan mælingar hófust 1990. Meiri hluti þjóðarinnar er enn sem fyrr hlynntur því, að Íslendingar hefji aðildarviðræður við Sambandið, eða 58 prósent. Mun fleiri Íslendingar eru hlynntir aðild að ESB en eru henni andvígir, eða 43 prósent gegn 34. Með þessari kynningu á afstöðu þjóðarinnar til Evrópumálsins og með því að tefla eins og einatt áður fram viðeigandi og skynsamlegum rökum í málinu innsigla Samtök iðnaðarins sérstöðu sína meðal samtaka atvinnulífsins og launþega. Samtök iðnaðarins hafa hag félagsmanna sinna sýnilega að leiðarljósi líkt og systursamtök þeirra í nálægum löndum. Samtök atvinnulífsins og Alþýðusambandið standast ekki enn þetta einfalda próf og eru því að þessu leyti eftirbátar systursamtaka sinna í grannlöndunum. Atvinnulífssamtök og alþýðusambönd allra annarra Evrópulanda hafa tekið skýra afstöðu með og barizt fyrir aðild landa sinna að ESB, án undantekningar.

Viðhorfskönnunin á vegum Samtaka iðnaðarins er markverð meðal annars fyrir birtuna, sem hún bregður á stjórnmálaflokkana og væntanlega kjósendur þeirra. Skoðum tölurnar, og byrjum á Vinstrihreyfingunni – grænu framboði, því að þær tölur kunna að koma helzt á óvart. Í Evrópumálinu slá hjörtu kjósenda Vinstri grænna í takt við hjörtu þjóðarinnar í heild, því að 58 prósent þjóðarinnar eru hlynnt því að taka upp viðræður við ESB um aðild eins og áður sagði gegn 27 prósentum, sem eru andvíg viðræðum. Meðal Vinstri grænna eru hlutföllin svipuð og meðal allra Íslendinga, eða 61 prósent hlynnt viðræðum á móti 29. Andstæðingar ESB eru því minnihlutahópur í flokki Vinstri grænna. Svipuð mynd blasir við, þegar spurt er um aðild að ESB frekar en aðildarviðræður. Hér er spurt, hvort menn séu tilbúnir að taka afstöðu til aðildar án þess að bíða eftir úrslitum aðildarviðræðna, svo að nokkru færri taka þá afdráttarlausa afstöðu. Meðal væntanlegra kjósenda Vinstri grænna eru 40 prósent hlynnt aðild að ESB á móti 36 prósentum, sem eru andvíg aðild. Með þjóðinni í heild eru tölurnar 43 prósent með aðild gegn 34 eins og áður kom fram. Vinstrihreyfingin – grænt framboð virðist með þessu vera að segja sig úr lögum við skylda flokka yzt á vinstri væng stjórnmálanna í nálægum löndum, enda mælist fylgi Vinstri grænna nú í skoðanakönnunum á bilinu 20 til 25 prósent.

Meiri hluti kjósenda Frjálslynda flokksins er einnig sama sinnis og þjóðin í Evrópumálinu. Meðal frjálslyndra kjósenda eru 43 prósent hlynnt aðildarviðræðum við ESB á móti 29 prósentum, sem eru andvíg viðræðum. Afstaða frjálslyndra til aðildar að loknum viðræðum er ámóta skýr: 43 prósent þeirra eru hlynnt aðild að ESB á móti 32 prósentum, sem eru andvíg aðild. Þetta eru svipaðar tölur og fyrir þjóðina í heild. Það virðist því ljóst, að andstaða Frjálslynda flokksins og Vinstri grænna við aðild að ESB stríðir gegn vilja meiri hluta væntanlegra kjósenda beggja flokka. Um Samfylkinguna þarf ekki að hafa mörg orð, afstaða hennar hefur nokkuð lengi legið fyrir og yfirgnæfandi hluti væntanlegra kjósenda hennar er hlynntur aðildarviðræðum (86 prósent gegn 6) og aðild (67 prósent gegn 12). Um Framsóknarflokkinn þarf ekki heldur að orðlengja. Meiri hluti væntanlegra kjósenda hans er andvígur bæði aðildarviðræðum (49 prósent gegn 43) og aðild (51 prósent gegn 24). Það er umhugsunarefni handa þeim, sem héldu, að Framsóknarflokkurinn væri að breytast úr bændaflokki í frjálslyndan Evrópuflokk.

Hvað um Sjálfstæðisflokkinn? – eina breiðvirka borgaraflokk álfunnar, sem berst gegn aðild að ESB. Að vísu eru 46 prósent væntanlegra kjósenda Sjálfstæðisflokksins hlynnt aðildarviðræðum við ESB gegn 40 prósentum, sem eru andvíg viðræðum. En meiri hluti sjálfstæðismanna er þó andvígur aðild, eða 49 prósent gegn 32 prósentum, sem eru hlynnt aðild. Sjálfstæðisflokkurinn er utanveltu. Andstaðan gegn ESB-aðild er mun meiri í Sjálfstæðisflokknum en meðal Vinstri grænna. Það er eðlilegt, að okrarar óttist ESB: þeir vilja helzt fá að okra áfram í friði fyrir samevrópsku eftirliti. Eiga aðrir atvinnurekendur og frjálslyndir kjósendur samleið með Sjálfstæðisflokknum við þessar kringumstæður?