DV
21. feb, 2014

Skotland og sjálfstæði

Skotar búa sig nú undir langþráða þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstætt Skotland eftir sjö mánuði, 18. september 2014. Skozkum aðskilnaðarsinnum hefur vaxið fiskur um hrygg. Þeir túlka söguna svo, að héðan í frá yrði hag Skotlands trúlega betur borgið utan brezka konungdæmisins. Skozki þjóðarflokkurinn hefur nú meiri hluta á þjóðþinginu í Edinborg og berst fyrir sjálfstæði landsins. Formaður flokksins og forsætisráðherra Skotlands, Alex Salmond, er snjall stjórnmálamaður og flytur sjálfstæðismálið vel.

Þegar Skotland sameinaðist Englandi og Wales við stofnun Stóra Bretlands 1707 undir einum kóngi, vakti það helzt fyrir Skotum að öðlast aðgang að stórum markaði fyrir varning sinn á Englandi og í nýlendunum og stuðla að friði. Rökin fyrir sameiningu snerust jöfnum höndum um viðskipti og frið og kallast á við rökin fyrir stofnun ESB löngu síðar, þar eð þau snerust einnig fyrst og fremst um viðskipti og frið. Viðskiptarökin og friðarrökin tengjast, því að ófriður spillir viðskiptum og lífskjörum. Sameining Skotlands og Englands reyndist vel. Löndin tvö höfðu marga hildi háð á fyrri tíð, en frá 1707 hefur ríkt friður á Bretlandseyjum, ef Írland er undan skilið.

Upphaflegu rökin fyrir sameiningu Skotlands og Englands eiga ekki lengur við óbreytt, þar eð Skotland er sem hluti Bretlands aðili að ESB. Skotar eiga að vísu meiri viðskipti við Englendinga en við löndin á meginlandi Evrópu, þar eð þjóðir kjósa jafnan að eiga helzt skipti við granna sína. En það breytir því ekki, að Skotland á sem hluti Bretlands óskoraðan aðgang að stórmarkaði ESB. Því hefur sú hugsun hvarflað að mörgum Skotum, að þeir þurfi ekki lengur á Englandi að halda svo sem áður var, þar eð þeim sé nú borgið innan ESB. Ákveði Skotar að lýsa yfir sjálfstæði, munu þeir óska strax eftir áframhaldandi aðild að ESB í samræmi við eftirsókn þeirra eftir aðgangi að stórum markaði allar götur frá 1707 auk þess sem meiri hluti Skota er hlynntur aðild að ESB.

Þessi sviðsmynd er nú fyrirferðarmeiri en áður í hugum skozkra kjósenda, þar eð brezka ríkisstjórnin undir forustu Íhaldsflokksins sýnir ýmis merki þess, að hún vilji losa um tengsl Bretlands við ESB, og að því marki er aðeins ein leið fær: úrsögn. Fari svo, að brezka ríkisstjórnin láti af því verða að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um málið og niðurstaða hennar verði úrsögn Bretlands úr ESB, mun Skotum þykja einboðið að lýsa yfir sjálfstæði og halda þannig áfram veru sinni í ESB á eigin forsendum.

En hér þykknar þráðurinn. Skotar eiga á hættu, að Spánverjar muni beita neitunarvaldi gegn aðild sjálfstæðs Skotlands að ESB til að senda aðskilnaðarsinnum í Katalóníu skýr skilaboð um, að Katalónía muni ekki heldur komast inn í ESB sem sjálfstæð þjóð á eigin spýtur. Brezka ríkisstjórnin hefur einnig í hótunum um að beita neitunarvaldi gegn aðild Skotlands, en það getur Bretland þó því aðeins gert, að það verði áfram í ESB. Hótanir brezku stjórnarinnar, þ.e. Englendinga, í garð Skota eru til þess fallnar að hleypa illu blóði í kjósendur og geta stuðlað að því, að meiri hluti skozkra kjósenda fallist á sjálfstæði í þjóðaratkvæðagreiðslunni 18. september. Fari svo, virðist ólíklegt, að ESB, sem hefur breitt út faðminn til allra átta og nú síðast veitt Króatíu inngöngu, eigi annarra kosta völ en að taka einnig við Skotlandi. ESB yrði því að finna leið til að sætta Spánverja og e.t.v. einnig Englendinga við þær málalyktir.

Hvers vegna er mörgum Skotum svo umhugað um stofnun sjálfstæðs ríkis í Skotlandi?

Ein ástæðan er sú, að Skotar eru smáþjóð og hugsa að ýmsu leyti öðruvísi en Englendingar. Margir Skotar kjósa helzt að sækja sér fyrirmyndir til Norðurlanda, en margir Englendingar líta á hinn bóginn helzt til Bandaríkjanna. Það er engin tilviljun, að Íhaldsflokkurinn er stærsti stjórnmálaflokkur Englands og hefur hverfandi fylgi í Skotlandi.

Margir Skotar segja því við enska íhaldsmenn: Þið ættuð að fagna sjálfstæðu Skotlandi, því að þá fáið þið að stjórna Englandi óáreittir, og við fáum að vera í friði fyrir ykkur. Við getum átt góð samskipti áfram, þótt hreppamörk breytist í landamæri.

Einu geta Skotar treyst hvað sem verður. Niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar um sjálfstæði Skotlands 18. september n.k. verður virt. Brezka þingið mun ekki fremja valdarán með því að hafa úrslit atkvæðagreiðslunnar að engu.