Skotar kjósa um sjálfstæði
Bretland er lýðræðisríki, elzta lýðræðisríki heimsins, segja Bretar sjálfir. Þeir virða ævinlega niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslna, einnig ef þær eru haldnar t.d. í Skotlandi eða Wales. Því má ganga út frá því sem gefnum hlut, að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Skotlandi 18. september n.k. verður virt. Skotar velja þá milli tveggja kosta. Annar er að lýsa yfir stofnun sjálfstæðs ríkis eins og Íslendingar gerðu endanlega 1944. Hinn er að halda óbreyttri skipan frá 1707, þar sem Skotland er hluti Bretlands með takmarkaða sjálfstjórn.
Skotar gengu inn í Bretland 1707 einkum til að öðlast aðgang að stórum markaði fyrir skozkar vörur og til að stilla til friðar, enda höfðu Skotar og Englendingar marga hildi háð á fyrri tíð. Nú segja skozkir þjóðernissinnar og aðrir, sem aðhyllast sjálfstætt Skotland: Við höfum nú með aðild okkar að ESB aðgang að risavöxnum markaði. Við þurfum því ekki lengur á því að halda að tilheyra Bretlandi, a.m.k. ekki af viðskiptaástæðum, allra sízt ef Bretar gera alvöru úr því að segja sig úr ESB, því að þá komumst við ekki hjá því að taka okkur sjálfstæði til að geta haldið áfram að vera í ESB.
Skozkir sjálfstæðissinnar segja: Skotland var og er öðruvísi en England. Við höfum aðrar hugmyndir, önnur viðmið. Við líkjumst Norðurlandaþjóðum frekar en Bandaríkjamönnum. Það er engin tilviljun, segja þeir, að Íhaldsflokkurinn hefur nær ekkert fylgi í Skotlandi sem stendur, hann hefur aðeins einn þingmann í brezka þinginu á móti sex frá Skozka þjóðernisflokknum og 41 fyrir Verkamannaflokkinn. Englendingar ættu að fagna því að losna við Skotland úr stórríkinu, bæta þeir við, því að þá getur íhaldið stjórnað Englandi óáreitt, verði þeim að góðu, og við fáum frið. Við getum þá komið okkur upp norrænu velferðarríki í Skotlandi.
Skotar gætu þá sagt eins og Íslendingar: Við, sem byggjum Skotland, viljum skapa réttlátt samfélag, þar sem allir sitja við sama borð, svo vitnað sé til upphafsorða nýju stjórnarskárinnar, sem Alþingi heldur í gíslingu. Skotar eru að hugsa um að setja sér skrifaða stjórnarskrá í tengslum við sjálfstæðisyfirlýsingu til að marka sérstöðu sína. Bretland á sér enga skrifaða stjórnarskrá.
Þeir, sem kjósa óbreytt ástand, vara Skota við sjálfstæðisbröltinu með ýmsum rökum. Sum rökin eru beinlínis bjálfaleg eins og t.d. þau, að Skotland með fimm milljónir íbúa sé of lítið land til að geta staðið á eigin fótum. Það þættu Dönum, Finnum og Norðmönnum a.m.k. vera tíðindi. Aðrir segja (þetta var aðalröksemd Alistairs Darling, fv. fjármálaráðherra Bretlands, í líflegum sjónvarpskappræðum um daginn við Alex Salmond, forsætisráðherra Skotlands og helzta talsmann sjálfstæðissinna): Sjálfstætt Skotland, segir Darling, þarf að koma sér upp eigin gjaldmiðli – eins og það sé frágangssök.
Alex Salmond á auðvelt svar við þessu. Í fyrsta lagi eru næstum 200 lönd í heiminum, segir hann, og þau hafa ýmsan hátt á gjaldmiðlum sínum. Skotar ættu t.a.m. hægt með að gera skozka pundið að sjálfstæðum gjaldmiðli, hvort sem gengi skozka pundsins væri haldið föstu eða leyft að fljóta. Í annan stað geta Skotar haldið brezka pundinu hvort sem Englendingum líkar það vel eða illa; Alistair Darling er hættur að bera á móti því. Í þriðja lagi væri Skotum í lófa lagið að taka upp evruna. Darling heldur því fram, að Skotar geti ekki með góðu móti haldið áfram að nota brezka pundið, taki þeir sér sjálfstæði, því að sameiginleg mynt hljóti að kalla á eitt ríki. Þessi röksemd jafngildir yfirlýsingu um, að evruþjóðirnar vaði allar sem ein í villu og svíma, þar eð þær nota sömu mynt án þess að tilheyra einu allsherjarríki.
Skozkir sjálfstæðissinnar vilja sjálfsstjórn og engar refjar, þar eð þeir telja Skotland bera skarðan hlut frá borði sem hluti Bretlands. Fyrir þeim vakir alls engin einangrunarþrá eða innilokunarhyggja, öðru nær. Þeir líta á aðild að ESB sem forsendu sjálfstæðs Skotlands.