DV
14. nóv, 2014

Skammgóður vermir

Ein algengasta hagstjórnarvilla í heimi er að fella gengi gjaldmiðils og bjóða verðbólgunni síðan til borðs til að éta upp ávinninginn. Þegar þannig er farið að, ýfir gengisfellingin bara upp verðbólguna án þess að skila nokkrum varanlegum árangri í auknum útflutningi, minni innflutningi, hagstæðari viðskiptum við útlönd og léttari skuldabyrði. Ísland var þessu marki brennt áratugum saman, og sama máli gegnir um mörg þróunarlönd. Vandinn undir niðri var ábyrgðarleysi og agaleysi. Þess vegna m.a. er Ísland nú skuldum vafið. Þegar nauðsyn bar til að fella gengið þrátt fyrir þenslu, hefði þurft að rýma fyrir auknum útflutningi í kjölfarið með því að halda aftur af neyzlu eða fjárfestingu. Það brást iðulega. Þar lá villan.

Sama sjónarmið á við um svo nefnda leiðréttingu á höfuðstóli húsnæðislána, sem ríkisstjórnin tilkynnti lántakendum á dögunum með lúðrablæstri. Leiðréttinguna hefði þurft að fjármagna með þeim hætti, að verðbólgan sé ekki næsta vís til að éta upp ávinninginn innan tíðar. Það hefði m.ö.o. þurft að hækka skatta eða lækka útgjöld ríkisins til mótvægis við þá innspýtingu kaupmáttar, sem fellur lántakendum í skaut til skamms tíma litið. Eins og í gengisfellingardæminu að framan hefði þurft að rýma fyrir auknum kaupmætti heimila með því að rifa seglin til að girða fyrir aukna verðbólgu af völdum leiðréttingarinnar.

Þessu er ekki að heilsa nú, þar eð ríkisstjórnin segist ætla að sækja um helming fjármögnunar „leiðréttingarinnar“ með skatti á þrotabú gömlu bankanna. Slík skattheimta er því marki brennd, að skattinn stendur til að sækja í hendur erlendra kröfuhafa, sem hafa engin umsvif og því engin segl að draga saman á Íslandi. Eins og Gunnar Tómasson hagfræðingur hefur lýst, þá stendur til að virkja dautt fé. Við bætist, að til stendur að dæla óvirkum lífeyrissparnaði inn í hagkerfið í skjóli skattfríðinda. Þar er því enn verið að virkja dautt fé. Mótvægið vantar. Slík innspýting fjár inn í efnahagslífið án mótvægis í landi, sem logar í verkföllum með verðbólgu og gengisfall kraumandi undir yfirborði gjaldeyrishafta, er ávísun á aukna verðbólgu með gamla laginu hér heima þrátt fyrir litla eða enga verðbólgu í nálægum löndum. Þar eð verðtryggingin stendur enn óbreytt, mun aukin verðbólga af völdum „leiðréttingarinnar“ þenja höfuðstól húsnæðislánanna, svo að þau munu smám saman sækja í fyrra horf.

Gild rök hafa verið færð að því, að raunveruleg leiðrétting höfuðstóls húsnæðislána eigi rétt á sér eftir allt, sem á undan er gengið. En það er ekki sama, hvernig að slíkri leiðréttingu er staðið. Hið rétta í stöðunni hefði verið láta leiðréttinguna hverfast um það sjónarmið, að miklar skuldir eru ekki aðeins á ábyrgð lántakandans, heldur einnig lánveitandans. Því hefði þurft gagngera og framvirka endurskoðun á skuldaskilum lántakenda við bankana og Íbúðalánasjóð. Þá hefði þurft að nota tækifærið til að sníða bönkunum stakk eftir vexti og girða fyrir getu þeirra til að halda áfram að hegða sér eins og ríki í ríkinu. Þetta var ekki gert. Ríkisstjórnin hefur engin áform kynnt enn um framtíðarskipan bankamálanna. Vonsviknir viðskiptavinir bankanna eygja því enga von enn um aukna innlenda samkeppni eða erlenda samkeppni, sem þykir þó sjálfsögð í öllum nálægum löndum. Óbreytt fákeppni á fjármálamarkaði mun kalla áfram á mikinn vaxtamun, þ.e. háa útlánsvexti og lága innlánsvexti. Betra skipulag bankamálanna með erlendri samkeppni er til þess fallið m.a. að tryggja hagkvæmni og réttlæti á húsnæðislánamarkaði, svo að vextir og gjaldtaka lánastofnana geti orðið með svipuðum hætti og í nálægum löndum.

Við bætist enn óleystur vandi af völdum verðtryggingar, sem í framkvæmd hefur reynzt hafa tvo megingalla. Þegar verðlag hækkaði hraðar en kaupgjald, t.d. 2008-2010, uxu skuldir heimilanna hraðar en laun og mörg heimili lentu í greiðsluerfiðleikum. Þúsundir fjölskyldna misstu heimili sín. Vegna viðmiðunar fjárskuldbindinga við verðlag án tillits til kaupgjalds hafa lántakendur þurft að bera mesta áhættu vegna lánasamninga, og lánveitendur hafa borið litla áhættu. Þessa slagsíðu er hægt að leiðrétta með viðmiðun við nýja vísitölu til að girða fyrir áhrif misgengis kaupgjalds og verðlags á hag heimilanna með því að miða höfuðstól húsnæðislána sjálfkrafa við verðlag þau ár sem það hækkar hægar en kaupgjald og við kaupgjald þau ár sem það hækkar hægar en verðlag. Ekkert bólar þó enn á endurskoðun verðtryggingar. Dómstólar innan lands og utan eiga eftir að fella lokaúrskurð um verðtryggingu neytendalána og hvort framkvæmd hennar standist lög. Upptaka evrunnar myndi slá tvær flugur í einu höggi með því að opna greiðfæra leið út úr fákeppnisvandanum og verðtryggingu.