Fréttablaðið
2. des, 2010

Skáldskapur með skýringum

Tíminn er eins og vatnið, og vatnið er kalt og djúpt eins og vitund mín sjálfs. Og tíminn er eins og mynd, sem er máluð af vatninu og mér til hálfs. Og tíminn og vatnið renna veglaust til þurrðar inn í vitund mín sjálfs.

Þessi upphafserindi Tímans og vatnsins, höfuðkvæðis Steins Steinarr, eru göldrótt og allt kvæðið. Galdurinn er sá, að textinn er bæði bundinn og óbundinn. Það er enginn vandi að yrkja kvæði. En það er galdur að yrkja kvæði eftir réttum bragreglum og leyfa því samt að hljóma eins og hversdagslegt spjall um daginn og veginn. Þá list kunni Steinn Steinarr. Tónskáldin Atli Heimir Sveinsson og Jón Ásgeirsson hafa báðir samið tónverk við Tímann og vatnið, öll erindin 21. Bæði verkin eru til á samnefndum diskum.

Og svo er annar galdur í kvæðinu, sem Guðmundur Ólafsson hagfræðingur lýsti svo listilega í vor leið í Kiljunni, menningarþætti Egils Helgasonar blaðamanns í ríkissjónvarpinu. Guðmundur lýsti þar Tímanum og vatninu sem ástríðufullu ástarkvæði. Sá skilningur er nýr fyrir mörgum, jafnvel þótt þeir hafi kunnað kvæðið utan bókar í hálfa öld eða lengur. Skáldskapur kallar stundum á skýringar, sem geta opnað lesandanum nýjar gættir og glugga. Þetta vita margir um músík: þeir hlýða á lærða fyrirlestra um tónlist og tónfræði, þar sem til dæmis strengjakvartettar Beethovens eru brotnir til mergjar takt fyrir takt og nótu fyrir nótu með nákvæmum skýringum í sögulegu og ævisögulegu samhengi. Fátt veit ég sjálfur skemmtilegra, en það er annað mál.

Hitt er sjaldgæfara, að kveðskapur sé fluttur með skýringum línu fyrir línu eins og Guðmundur Ólafsson gerði í Kiljunni (sjá notendur.hi.is/lobbi/). Bókmenntafræðingar líta sumir svo á, að öllum skýringum við skáldskap sé ofaukið, kvæði skáldanna skýri sig sjálf. En það er ekki örlát skoðun eins og skýringar Guðmundar við Tímann og vatnið vitna um. Guðmundur gæti með líku lagi, býst ég við, opnað kvæði Einars Benediktssonar fyrir Íslendingum eða að minnsta kosti þeim hluta þjóðarinnar, sem finnast kvæði Einars torskilin. Torræð kvæði er hægt að skilja á ýmsa vegu. Góðir kennarar og kvæðamenn eins og Guðmundur Ólafsson geta lýst upp leiðina. Ísland á mörg góð skáld, dauð og lifandi.

Þórarinn Eldjárn er á okkar dögum næsti bær við Stein Steinarr eins og Kvæðasafn hans, sem kom út 2008 mikið að vöxtum, vitnar um. Í skáldskap Þórarins rennur bundið mál og óbundið víða út í eitt. Saumurinn sést hvergi. Þannig hljómar til dæmis kvæði Þórarins Vont og gott:

„Það er svo vont að liggja á köldum klaka kalinn í gegn og skjálfa allur og braka. Hugsa bara þetta: – Svaka svaka svakalega er vont að liggja á klaka. Það er svo gott að liggja í mjúkum mosa mæna upp í himininn og brosa. Hugsa bara þetta: – Rosa rosa rosalega er gott að liggja í mosa.“

Takið eftir, hvernig textinn flýtur. Þetta er óbundið mál, létt og leikandi, en samt rígbundið, enda hefur Tryggvi M. Baldvinsson tónskáld samið svellandi tangó við kvæðið. Þetta skemmtilega lag Tryggva og tíu önnur lög hans við kvæði Þórarins Eldjárn auk laga við ljóð níu annarra skálda er að finna á diskinum Gömul ljósmynd, sönglög eftir Tryggva M. Baldvinsson (12 tónar, 2006). Mæli einnig með honum. Auk Tryggva hafa tónskáldin Jóhann G. Jóhannsson, Jóhann Helgason og nú síðast Haukur Tómasson allir gefið út sérlega diska með lögum við ljóð Þórarins.

Sum kvæði Þórarins eru bundin að hætti gömlu skáldanna og sóma sér vel í þeim flokki án þess að hljóma eins og símtöl í hæsta gæðaflokki. Önnur eru óbundin eins og til dæmis Sameining:

„Tilkynnt hefur verið að Litlisannleikur hf. og Hálfsannleikur ehf. hafi nú sameinast undir nafninu Stórisannleikur ohf. Einfarinn sf. boðar jafnframt til hópferðar í innlönd. Hvað sem því líður er það staðföst ákvörðun okkar hjá Perluþjónustunni að láta ekki deigan síga og sækja nú æ fastar á djúpið. Við verðum áfram með besta svínafóðrið.“

Tökum að endingu eitt kvæði enn eftir Þórarin Eldjárn, Eðlisfræði:

„Afstæðiskenningu Einsteins trúi ég ekki læt mér hana í léttu rúmi liggja enda fráleitt að við hinir vantrúuðu þurfum að axla sönnunarbyrðina. Af skammtakenningunni þoldi ég ekki einu sinni minnsta skammtinn tregðulögmálið sá til þess. Með árunum aðhyllist ég hinsvegar æ meir gangteoríu Jóns Á. Bjarnasonar og nýt þess að mega sanna hana sem oftast við mismunandi aðstæður.“