Sjö vikur til kosninga
Formenn þriggja stjórnmálaflokka, Pírata, Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, lýstu því yfir fyrr í sumar „að þeir útiloki samstarf við Sjálfstæðisflokkinn eftir næstu kosningar.“ Þessi yfirlýsing er nýmæli og vitnar um hversu sjálfstæðismenn hafa gengið fram af andstæðingum sínum á Alþingi og einnig mörgum samherjum sem búast nú til að fara fram gegn Sjálfstæðisflokknum undir merkjum Viðreisnar. Yfirlýsingin vitnar einnig um vilja þriggja stærstu stjórnarandstöðuflokkanna á þingi til að koma sér saman um mál fyrir kosningar.
Eðlilegt næsta skref væri yfirlýsing þessara flokka um samstarf eftir kosningar nái þeir saman meiri hluta á Alþingi svo sem margt bendir nú til að geti tekizt. Píratar hafa þá sérstöðu meðal stjórnmálaflokkanna að þeir hafa sett staðfestingu nýrrar stjórnarskrár í samræmi við niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar 2012 langefst á sína stefnuskrá. Þess er því að vænta að Pírötum veitist svigrúm til að afgreiða stjórnarskrármálið eftir kosningar í samvinnu við Sf og Vg sem komu málinu af stað í ríkisstjórn 2009 þótt þeim entist ekki þrek til að ljúka því fyrir lok kjörtímabilsins 2013.
Hafi tveir flokkar einhvern tímann átt að þiggja útrétta hönd eins og þá sem Píratar bjóða nú fram ættu Sf og Vg að grípa hana fegins hendi án frekari tafar.
Píratar hafa komið sér saman um þaulreynda áætlun um framgang málsins á þingi, áætlun sem er í aðalatriðum samhljóða verklagi Sjálfstæðisflokksins þegar hann beitti sér fyrir nauðsynlegum breytingum á stjórnarskránni 1942 og 1959 til að jafna atkvæðisréttinn í samræmi við breytta búsetu í landinu.
Stjórnarskráin frá 1944 kveður á um að fyrst skuli Alþingi samþykkja stjórnarskrárbreytingu og segir síðan: „Nái tillagan samþykki skal rjúfa Alþingi þá þegar og stofna til almennra kosninga að nýju. Samþykki Alþingi ályktunina óbreytta, skal hún staðfest af forseta lýðveldisins, og er hún þá gild stjórnskipunarlög.“
Í samræmi við þetta ákvæði hafði Sjálfstæðisflokkurinn forustu um eitt stutt kjörtímabil og tvennar kosningar til að staðfesta stjórnarskrárbreytingarnar bæði 1942 og 1959 og hafði til þess fulltingi vinstri flokkanna tveggja á Alþingi. Framsóknarmenn börðust gegn breytingunum en urðu undir.
Nú búast Píratar til að hafa sama háttinn á, helzt í samstarfi við Sf og Vg.
Það er engin tilviljun að sagan skuli endurtaka sig með þessum hætti. Lýðveldisstjórnarskráin mælir beinlínis fyrir um að þessi háttur – eitt stutt kjörtímabil, tvennar kosningar – skuli hafður á breytingum á stjórnarskránni nema um smávægilegar breytingar á orðalagi sé að ræða. Tafir á staðfestingu nýrrar stjórnarskrár sem Alþingi hefur samþykkt eða kjósendur hafa samþykkt í þjóðaratkvæði bjóða hættunni heim. Þess vegna segir stjórnarskráin „Nái tillagan samþykki skal rjúfa Alþingi þá þegar …“
Nýkjörnir þingmenn sem ætlast til að fá að sitja heilt kjörtímabil að loknum kosningum og fresta þannig staðfestingu nýrrar stjórnarskrár og setja hana í uppnám eru að reyna að misnota aðstöðu sína. Þeir vanvirða lýðræðið þar eð þeir standa þá í vegi fyrir staðfestingu nýrrar fullbúinnar stjórnarskrár sem fyrst Stjórnlagaráð 2011 og síðan stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis 2013 hafði lagt fyrir þingið og einnig vegna þess að þeir eru kjörnir skv. kosningalögum sem kjósendur höfnuðu í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012.
Þingmenn sem streitast gegn stuttu kjörtímabili og tvennum kosningum með stuttu millibili eru í reyndinni að biðja um að farið verði á svig við gildandi stjórnarskrá við samþykkt nýrrar, t.d. með því að Alþingi leiði í lög ákvæði nýju stjórnarskrárinnar þess efnis að samþykkt Alþingis í eitt skipti og staðfesting kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslu dugi til að ný stjórnarskrá öðlist gildi og láti þau lög duga til að staðfesta nýju stjórnarskrána. Sumar þjóðir hafa farið slíkar leiðir við endurskoðun stjórnarskráa.
Ekkert getur talizt brýnna í lýðræðisríki en að virða niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu sem Alþingi hefur boðað til um nýja stjórnarskrá. Allt annað þarf að víkja við slíkar kringumstæður og þá um leið áhugi einstakra þingmanna á að vinna að öðrum málum í heilt kjörtímabil. Þetta skildu og virtu sjálfstæðismenn á Alþingi 1942 og 1959. Til þess fá þeir nú aftur tækifæri eftir kosningar.
Haldi Sjálfstæðisflokkurinn áfram að hunza þjóðaratkvæðagreiðsluna 2012 þurfa Píratar, Sf og Vg að veita sjálfstæðismönnum sömu meðferð á Alþingi og sjálfstæðismenn ásamt vinstri flokkunum veittu Framsókn 1942 og 1959. Það gekk þá, m.a.s. mjög vel. Gerum það aftur. Ef ekki, förum þá hina leiðina og látum staðfestingu Alþingis í eitt skipti og þjóðaratkvæðagreiðslu duga til að koma nýju stjórnarskránni í höfn.