DV
25. nóv, 2011

Sjálfstæðisflokkurinn og stjórnarskráin

Stjórnmálaályktun Sjálfstæðisflokksins 2011 hefur þetta að segja um frumvarp Stjórnlagaráðs til nýrrar stjórnarskrár:

„Ákvörðun meirihluta Alþingis um að hundsa niðurstöðu Hæstaréttar vegna ógildingar kosninga til stjórnlagaþings var alvarleg aðför að sjálfstæði dómstóla. Landsfundur Sjálfstæðisflokksins leggur áherslu á að einungis verði gerðar þær breytingar á stjórnarskránni sem víðtæk sátt næst um en hafnar alfarið ábyrgðarlausum tilraunum ríkisstjórnarinnar til að kollvarpa núgildandi stjórnarskrá.“

Takið eftir þessu: Sjálfstæðisflokkurinn gerir engar efnislegar athugasemdir við frumvarp Stjórnlagaráðs. Flokkurinn hefur ekkert að segja um auðlindir í þjóðareigu, jafnt vægi atkvæða alls staðar á landinu, aukið vægi þjóðaratkvæðagreiðslna eða greiðan aðgang að upplýsingum, svo að nefnd séu fjögur af helztu atriðum frumvarpsins. Flokkurinn reynir að skýla sér á bak við ákvörðun sinna manna í Hæstarétti um ógildingu kosningarinnar til Stjórnlagaþings, þótt fyrir liggi, að meintir annmarkar á framkvæmd kosningarinnar höfðu engin áhrif á úrslitin.

Sjálfstæðisflokkurinn virðist ætlast til, að honum verði með innan við þriðjung þingmanna fengið neitunarvald við afgreiðslu frumvarps Stjórnlagaráðs á Alþingi og „hafnar alfarið ábyrgðarlausum tilraunum ríkisstjórnarinnar til að kollvarpa núgildandi stjórnarskrá.“

Stöldrum við. Enginn sjálfstæðismaður hefur enn axlað ábyrgð á hruni bankanna eða beðizt afsökunar. Einn helzti virðingarmaður flokksins hefur fengið tveggja ára óskilorðsbundinn fangelsisdóm vegna innherjaviðskipta í fyrsta málinu af mörgum af því tagi. Innherjaviðskipti voru ein margra orsaka hrunsins. Ábyrgðarleysi Sjálfstæðisflokksins er algert, forherðingin fullkomin.

Sjálfstæðisflokkurinn ber höfuðábyrgð á hruninu eins og fram kemur í skýrslu RNA í níu bindum. Af þeim sjö stjórnmálamönnum og embættismönnum, sem RNA telur hafa sýnt af sér vítaverða vanrækslu í starfi í skilningi laga, voru fjórir sjálfstæðismenn, tveir ráðherrar og tveir embættismenn. Undan þessari einföldu staðreynd verður ekki vikizt.

Sjálfstæðisflokkurinn telur sig þess umkominn að saka ríkisstjórnina um ábyrgðarleysi og leggjast gegn endurskoðun stjórnarskrárinnar þvert á loforð forustumanna flokksins strax 1944. Þá um haustið tók nýsköpunarstjórnin við völdum undir forsæti Ólafs Thors, formanns Sjálfstæðisflokksins, og lofaði róttækum breytingum á stjórnarskránni „eigi síðar en síðari hluta næsta vetrar“. Ekkert gerðist.

Kommúnistar báðust margir afsökunar í Austur-Evrópu eftir hrunið þar fyrir 20 árum, og þeir voru hafðir með í ráðum við gerð nýrra stjórnarskráa þar. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki enn gengizt við ábyrgð eða beðizt afsökunar, og hann hefur alla tíð reynzt vera áhugalaus um endurskoðun stjórnarskrárinnar, að dr. Gunnari Thoroddsen forsætisráðherra frátöldum og fáeinum félögum hans. Sjálfstæðisflokkurinn á því ekkert tilkall til þess nú, að tillit sé tekið til sjónarmiða hans umfram sjónarmið annarra. Sjálfstæðismenn höfðu sama færi og aðrir á aðkomu að endurskoðun stjórnarskrárinnar, sem Alþingi ákvað að láta fara fram. Þúsund manna þjóðfundur skv. slembiúrtaki úr þjóðskrá, þingskipuð stjórnlaganefnd og þjóðkjörið og þingskipað Stjórnlagaráð skiluðu af sér frumvarpi, sem bíður nú afgreiðslu Alþingis.

Ætla verður, að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hlaupist ekki undan eigin merkjum af tillitssemi við Sjálfstæðisflokkinn. Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna frá 2009 stendur: „Með sérstöku ákvæði í stjórnarskrá verði undirstrikað að fiskistofnarnir umhverfis landið séu sameign þjóðarinnar. … Bregðast þarf frekar við áliti Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna, m.a. með því að gæta atvinnufrelsis og að tryggja að jafnræðis verði gætt við úthlutun afnotaréttarins og aðgengi að hinni sameiginlegu auðlind. Stjórnarskrá lýðveldisins þarf að breyta svo að hún verði grundvöllur umhverfisverndar til framtíðar.“ Allt þetta er tryggt í frumvarpi Stjórnlagaráðs og margt annað. Því verður ekki trúað að óreyndu, að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur svíkist aftan að kjósendum og veiti Sjálfstæðisflokknum færi á að koma í veg fyrir, að þjóðin fái að greiða atkvæði um frumvarp Stjórnlagaráðs til samþykktar eða synjunar. Sjálfstæðisflokkurinn á ekki Ísland.