DV
24. okt, 2014

Sarajevó, lýðræði og mannréttindi

Fyrir hundrað árum og fjórum mánuðum reyndu sjö ungir Serbar í Sarajevó að myrða Franz Ferdinand stórhertoga og ríkisarfa austurrísk-ungverska keisaradæmisins. Tilræðið virtist ætla að fara út um þúfur. Tveir úr fylgdarliði hertogans slösuðust. Hann bað þá bílstjóra sinn að aka sér á spítalann, svo að hann gæti vitjað hinna slösuðu fylgdarmanna sinna. Bílstjórinn villtist af leið og ók með hertogann og Soffíu konu hans beint í flasið á einum samsærismannanna, Gavrilo Princip, sem neytti lags og skaut þau bæði til ólífis. Princip var þá 19 ára. Skotárásin var notuð sem átylla til að hefja stríðið mikla, sem síðar fékk nafnið fyrri heimsstyrjöldin 1914-1918.

Byssuskotin í Sarajevó voru þó ekki orsök stríðsins, heldur bara neistinn, sem kveikti bálið. Sagnfræðingar líta nú margir svo á, að stórveldastríð hafi legið í loftinu frá því skömmu eftir aldamótin 1900, m.a. vegna þjóðrembu og vegna óuppgerðra saka eftir stríð Frakka og Þjóðverja 1869-1870, þar sem Þjóðverjar höfðu betur. Segja má, að stríð Frakka og Þjóðverja 1869-1870 hafi kallað á fyrri heimsstyrjöldina, sem kallaði á síðari heimsstyrjöldina, og hún kallaði á stofnun ESB og nær óslitinn frið í Evrópu æ síðan.

Nær óslitinn frið, segi ég, því að Balkanskaginn er púðurtunna enn sem endranær. Þegar Júgóslavía liðaðist í sundur eftir hrun kommúnismans 1989-1991, brauzt þar út blóðug borgarastyrjöld. Hún leiddi af sér mestu voðaverk eftirstríðsáranna í Evrópu. Serbar slátruðu tugþúsundum múslima í Bosníu. Serbneskir þjóðernissinnar stefna enn á landvinninga og ógna nágrönnum sínum. Þeir héldu á dögunum hersýningu, sem var eins og atriði úr 80 ára gamalli kvikmynd, með gæsagangi og öllu saman. Ég sá þetta í sjónvarpinu í Sarajevó. Vladímir Pútín Rússlandsforseti var á staðnum og virtist ánægður. Vandinn er ekki bundinn við Balkanskaga. Ungverska ríkisstjórnin storkar nú mannréttindum og hugsar upphátt um fyrirhugaða landvinninga. Fyrirmyndin er Rússland.

Þjóðremban er ekki bundin við Austur-Evrópu. Í Finnlandi er stjórnmálaflokkur, sem heitir Sannir Finnar og á fulltrúa á þinginu þar. Í Stokkhólmi sitja Svíþjóðardemókratar á þingi með 13% kjósenda að baki sér. Þeir eiga rætur að rekja til nýnasista og nærast á andróðri gegn innflytjendum. Þjóðremba hefur einnig rutt sér til rúms í stjórnmálum hér heima svo sem ráða má t.d. af ýmsum ræðum forseta Íslands og forsætisráðherra. „Með kæruleysi, tækifærismennsku og lýðskrumi hafa íslenskir stjórnmálamenn fært okkur að forgarði fasismans,“ sagði Stefán Rafn Sigurbjörnsson, formaður Ungra jafnaðarmanna, í ræðu sinni á landsþingi þeirra um daginn.

Og nú er svo komið, að sjálfstæðismenn daðra við Rússa. Leynisímtalið dýra milli þv. forsætisráðherra og seðlabankastjóra Sjálfstæðisflokksins 6. október 2008 átti sér stað daginn áður en seðlabankastjórinn tilkynnti um risalán Rússa til Íslands til að forða ríkisstjórninni frá því að þurfa að þiggja lán og ráð frá AGS og Norðurlöndum, en Rússalánið rann út í sandinn. Dagsetningarnar skipta máli. Líklegt er, að Rússalánið hafi borið á góma í símtalinu, sem hefur ekki enn verið gert opinbert.

Evrópa hefur við þessi erfiðu skilyrði ekki náð að fylla skarðið, sem hnignun Bandaríkjanna – bankakreppa, síaukin misskipting, dvínandi virðing umheimsins – skilur eftir sig. Sumir kalla þetta sjálfskaparvíti og segja, að Evrópulöndin geti sjálfum sér um kennt. Það er skiljanlegt sjónarmið, en ekki raunsætt. Ekkert aðildarland ESB hugleiðir eins og sakir standa úrsögn úr sambandinu nema Bretland af ótta við þjóðremblana í Brezka sjálfstæðisflokknum (UKIP).

Jafnvel sumt unga fólkið í gömlu flokkunum hér heima laðast að þjóðrembu. Gamla þjóðremban – sú hugsjón, að íslenzkt lambakjöt sé bezt í heimi o.s.frv. – er sauðmeinlaus, þótt hún kosti sitt, m.a. í hærra vöruverði. Nýja þjóðremban, sem birtist í svo eindreginni andúð á ESB, að þjóðremblarnir laðast sumir að Rússlandi sem mótvægi við Evrópu, hún er á hinn bóginn hættuleg. Hvers vegna? Ísland er Evrópuland, þar sem lýðræði og mannréttindi eiga að hafa óyggjandi forgang. Þjóðremblar kenna útlendingum helzt um hrunið, þar eð þeir neita margir að horfast í augu við eigin ábyrgð og leita huggunar í þjóðrembunni, skálkaskjóli allra skálkaskjóla.

Lýðræði og mannréttindi eiga nú undir högg að sækja einnig hér heima. Mannréttindanefnd SÞ birti bindandi álit 2007 með skýrum fyrirmælum til Alþingis um að nema mannréttindabrotaþáttinn burt úr fiskveiðistjórninni og um skaðabætur handa fórnarlömbum brotanna, tveim sjómönnum, sem höfðu höfðað málið og haft sigur. Ríkisstjórnin fékk mannréttindanefndina til að leysa sig úr snörunni með því að lofa nýrri stjórnarskrá með skýru ákvæði um auðlindir í þjóðareigu. Og nú er Alþingi búið að stinga stjórnarskránni niður í skúffu hjá LÍÚ. Þegar mannréttindanefnd SÞ kemst að því, mun hún vafalaust taka málið upp aftur.