DV
14. maí, 2012

Samstaða lýðræðisflokkanna

Í febrúar 2012 samþykkti Alþingi ályktun um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um frumvarp Stjórnlagaráðs, og skyldi hún fara fram samhliða forsetakjöri 30. júní. Ráðgert var að leggja fyrir kjósendur sex spurningar. (1) Vilt þú, að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá? (2) Vilt þú, að í nýrri stjórnarskrá verði náttúruauðlindir, sem ekki eru í einkaeigu, lýstar þjóðareign? (3) Vilt þú, að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi? (4) Vilt þú, að í nýrri stjórnarskrá verði persónukjör í kosningum til Alþingis heimilað í meira mæli en nú er? (5) Vilt þú, að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um, að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt? (6) Vilt þú, að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um, að tiltekið hlutfall kosningarbærra manna geti krafizt þess, að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu?

Vegna málþófs sjálfstæðismanna á Alþingi náðist ekki að halda hina fyrirhuguðu atkvæðagreiðslu samhliða forsetakjöri, sem Alþingi hafði þó ákveðið. Rétturinn til að svara spurningunum að framan á þeim tíma, sem Alþingi hafði samþykkt, var hafður af kjósendum. Nú liggur fyrir Alþingi ný tillaga um ráðgefandi þjóðaratkvæði eigi síðar en 20. október nk. Meiri hluti þings mun styðja tillöguna, en samt eru afdrif hennar í þinginu óviss. Hvers vegna nær þingviljinn ekki fram að ganga? Hverjir bregða fæti fyrir framgang lýðræðisins? Það eru þeir, sem Rannsóknarnefnd Alþingis taldi bera mesta ábyrgð á hruninu 2008. Þeir berjast gegn nýrri stjórnarskrá.

Þjóðirnar í Mið- og Austur-Evrópu settu sér um 25 nýjar stjórnarskrár eftir hrun kommúnismans 1989-1991. Flestar stjórnarskrár eru settar eftir hrun eða við sambærilegar aðstæður. Kommúnistar báru augljósa ábyrgð á kerfishruninu þar austur frá. Margir þeirra gengust við ábyrgð sinni, en þó ekki allir, t.d. ekki fyrrum valdhafar í Austur-Þýzkalandi og Rússlandi. Ný, lýðræðislega kjörin stjórnvöld vildu hafa kommúnista með í endurreisninni eftir hrun eða útilokuðu þá a.m.k. ekki. Víðast hvar tóku kommúnistar í útrétta sáttahönd. Þeir tóku þátt í að semja nýjar stjórnarskrár. Þeir reyndu ekki að grafa undan ferlinu við hvert fótmál.

Sjálfstæðisflokkurinn, sem einkavæddi bankana á rússneska vísu og lagði þannig grunninn að falli þeirra fáeinum árum síðar, kýs að hafa annan hátt á. Sjálfstæðismenn á Alþingi hafa frá upphafi staðið gegn nýrri stjórnarskrá þvert á margítrekuð fyrirheit forustumanna flokksins frá fyrri tíð. Sjálfstæðismenn hafa jafnframt kvartað undan, að ekki hafi verið leitað eftir samstöðu með þeim í málinu. Þeir segja, að ríkja verði víðtæk sátt um allar breytingar á stjórnarskrá. Það er þó ekki rétt. Bandaríska stjórnarskráin var t.d. samþykkt gegn harðri andstöðu 1787–1788. Fleiri dæmi mætti nefna um stjórnarskrár, sem voru umdeildar og hlutu samþykki gegn harðri andstöðu, en reyndust þó vel.

Nýjar stjórnarskrár mæla fyrir um réttindi manna og skyldur og mæta því ævinlega andstöðu. Réttur eins leggur skyldur á herðar annarra. Frumvarps Stjórnlagaráðs mælir fyrir um jafnt vægi atkvæða og felur í sér minna hlutfallslegt atkvæðavægi þeirra, sem hafa meiri atkvæðisrétt en íbúar höfuðborgarsvæðisins í alþingiskosningum. Ákvæðinu um auðlindir í þjóðareigu er ætlað að rýra forréttindi þeirra, sem ganga um fiskinn í sjónum sem einkaeign og hirða nær allan arðinn af auðlindinni. Ákvæðið um greiðan aðgang að upplýsingum felur í sér skertan hag þeirra, sem skammta sjálfum sér forréttindi – t.d. margföld eftirlaun – undir spilltum leyndarhjúp. Umhverfisverndarákvæði frumvarpsins mæla fyrir um skertan rétt þeirra, sem vilja halda áfram að spilla náttúrunni.

Þetta vita sjálfstæðismenn á Alþingi. Þeir vita einnig, að nýleg skoðanakönnun MMR sýnir, að tveir þriðju hlutar kjósenda styðja frumvarp Stjórnlagaráðs. Sjálfstæðismenn reyna því að drepa frumvarpinu á dreif frekar en að hætta á sigur frumvarpsins í þjóðaratkvæði. Sjálfstæðisflokkurinn ögrar og ógnar lýðræðinu með þessu framferði, þótt fjórðungur stuðningsmanna flokksins styðji frumvarpið skv. könnun MMR. Lýðræðisflokkarnir þurfa að standa sameinaðir gegn Sjálfstæðisflokknum.