DV
19. apr, 2013

Saga frá Færeyjum

Það var 14. september 1946, röskum tveim árum eftir lýðveldisstofnunina á Þingvöllum, að haldin var þjóðaratkvæðagreiðsla í Færeyjum um sjálfstæði eyjanna. Í reyndinni snerist þjóðaratkvæðagreiðslan um stofnun lýðveldis í Færeyjum að íslenzkri fyrirmynd. Úrslitin urðu þau, að 50,74% kjósenda greiddu atkvæði með sjálfstæði Færeyja, en 49,26% greiddu atkvæði gegn sjálfstæði.

Færeyska lögþingið virti úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Færeyjar lýstu yfir sjálfstæði fjórum dögum síðar, 18. september 1946. Það var stór dagur í sögu landsins.

Ekki voru þó allir sáttir. Sambandsmenn, sem urðu undir í þjóðaratkvæðagreiðslunni, héldu því fram, að ekki þyrfti að virða úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Þeir báru m.a. því við, að auðir og ógildir seðlar voru 4% af heildinni. Þeir sögðu: 48,7% sögðu já, 47,2% sögðu nei, og 4,1% sátu hjá. Þeir eignuðu sér auðu seðlana.

Margir Færeyingar telja, að sambandsmenn hafi sent fulltrúa til Kaupmannahafnar til að biðja Kristján tíunda Danakonung að grípa í taumana og taka ráðin af þjóðinni. Sem sagt: landráð.

Það, sem gerðist næst, var þetta. Danska stjórnin ógilti sjálfstæðisyfirlýsinguna 20. september. Kóngurinn leysti upp lögþingið í Þórshöfn 24. september. Kosið var að nýju til lögþingsins 8. nóvember, og fengu þá þeir flokkar, sem aðhylltust sjálfstæði 5.396 atkvæði, en flokkar gegn sjálfstæði, þar á meðal Sambandsflokkurinn, fengu 7.488 atkvæði.

Danir veittu Færeyjum heimastjórn 30. marz 1948. Fullt sjálfstæði, sem Færeyingar kusu sér 14. september 1946, er ekki enn í sjónmáli 67 árum síðar. Svikin drógu dilk á eftir sér.

Fyrir röskum 20 árum hrundi færeyskt efnahagslíf af svipuðum ástæðum og hér heima 2008. Ein höfuðástæða hrunsins í báðum löndum var spilling, sem birtist m.a. í kæfandi faðmlagi stjórnmála og viðskipta svo sem lýst er í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis (RNA) 2010. Líkt og á Íslandi varð hrunið Færeyingum hvatning til að huga að nýrri og betri stjórnskipan. Í Færeyjum var farin sú leið, sem lengst af var reynd á Íslandi, að fela stjórnmálamönnum og sérfræðingum á þeirra vegum að semja nýja stjórnarskrá. Verkinu miðaði hægt af ýmsum ástæðum, en ný stjórnarskrá sá dagsins ljós 2009. Í henni er m.a. prýðilegt auðlindaákvæði, sem er efnislega samhljóða auðlindaákvæðinu í stjórnarskrárfrumvarpi Stjórnlagaráðs – ákvæðinu, sem 83% kjósenda lýstu stuðningi við í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október.

Færeyska lögþingið hefur nú þrefað um nýju stjórnarskrána í nokkur ár. Lögþingsmönnum hefur reynzt ófært að koma málinu áleiðis og leggja stjórnarskrárfrumvarp sitt í dóm þjóðarinnar. Þeir lofuðu þjóðaratkvæðagreiðslu um frumvarpið, en þeir hafa ekki enn efnt heitið. Ásamt útvegsmönnum standa í vegi nýrrar stjórnarskrár í Færeyjum þau stjórnmálaöfl, sem báru höfuðábyrgð á efnahagshruninu 1989-94. Þessi öfl sjá sér hag í að standa gegn nýrri stjórnarskrá m.a. vegna þess, að í samþykkt hennar fælist viðurkenning á ábyrgð þeirra á hruninu. Í Færeyjum gekkst enginn við ábyrgð á hruninu 1989-94 ekki frekar en hér heima 2008. Við bætist andstaða dönsku ríkisstjórnarinnar gegn frumvarpinu, en danska stjórnin telur það ekki samrýmast óbreyttri stöðu Færeyja innan danska konungdæmisins. Þeirri mótbáru ætti samt að vera auðvelt að mæta með einni nýrri málsgrein í frumvarpinu.

Reynsla Færeyja bregður kunnuglegri birtu á stjórnmálaástandið hér heima. Hrunverjar firra sig ábyrgð á verkum sínum, þótt sekt þeirra blasi við öllu sjáandi fólki og sé skjalfest í skýrslu RNA. Þeir standa í vegi fyrir umbótum, hvort heldur nýrri stjórnarskrá, nýrri lagasetningu eða betri framkvæmd gildandi laga. Andstaða hrunverja gegn umbótum stafar af því, að umbæturnar fælu í sér viðurkenningu á brestunum, sem þeir bera ábyrgð á og urðu báðum löndum að falli. Þess vegna þumbast gömlu flokkarnir við. Þess vegna þarf að víkja þeim til hliðar. Þess vegna m.a. býður Lýðræðisvaktin fram krafta sína. Við bjóðum betur.