30. des, 2021

Rússland haltrar

Hér eru tvær myndir sem segja meira en mörg orð. Rússneskt efnahagslíf hefur staðið nokkurn veginn í stað frá 2007, svo mjög að Rúmenía og Tyrkland eru nú komin fram úr Rússlandi á þennan kvarða (efri myndin). Búlgaría er eina ESB-ríkið þar sem kaupmáttur tekna á mann er minni en í Rússlandi. Eystrasaltsríkin þrjú, öll í ESB eins og Búlgaría og Rúmenía, hafa einnig skotið Rússlandi aftur fyrir sig (neðri myndin). Rússar hafa vanrækt að skjóta fjölbreyttum og styrkum stoðum undir efnahagslífið. Líttu í kringum þig hér heima: Sérðu rússneska bíla á götunum? Sérðu rússneskar tölvur á skrifstofum eða í heimahúsum? Rússneska síma? Sérðu fólk í rússneskum fötum? Er nokkur rússnesk afurð heima hjá þér nema kannski vodkaflaskan í frystinum og bensínið í bílnum? En Rússland hefur samt upp á margt annað að bjóða. Sankti Pétursborg og Moskva eru fínar heim að sækja. Og bókmenntirnar, myndlistin og músíkin, maður lifandi. En Rússar geta varla verið ánægðir með að dragast svona aftur úr grönnum sínum í efnahagslegu tilliti.