DV
28. sep, 2012

Römm er sú taug

Ef allt væri með felldu, stæði Styrmir Gunnarsson fv. ritstjóri Morgunblaðsins framarlega í flokki þeirra, sem mæla fyrir samþykkt nýrrar stjórnarskrár í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október. Það stafar af því, að þrjú lykilákvæði í frumvarpi Stjórnlagaráðs til nýrrar stjórnarskrár – ákvæðin um auðlindir í þjóðareigu, jafnt vægi atkvæða og beint lýðræði – eru í nánu samræmi við vel grundaðar skoðanir Styrmis eins og hann hefur lýst þeim á löngum blaðamannsferli.

  • Frumvarp Stjórnlagaráðs kveður á um auðlindir í þjóðareigu og fullt gjald fyrir afnot af auðlindunum. Þetta var um langt árabil eitt helzta baráttumál Styrmis Gunnarssonar á Morgunblaðsárum hans.
  • Frumvarp Stjórnlagaráðs kveður einnig á um jafnt vægi atkvæða í fullu samræmi við margar forustugreinar Morgunblaðsins um kjördæmamál, t.d. 27. október 1993.
  • Frumvarp Stjórnlagaráðs kveður á um beint lýðræði, þ.e. rétt þjóðarinnar til að skjóta málum til þjóðaratkvæðis, en Styrmir Gunnarsson mælir nú eindregið fyrir því sjónarmiði í opinberri umræðu.
  • Ætla verður einnig, að blaðamaðurinn og ritstjórinn hljóti að fagna ákvæðum frumvarpsins um upplýsingafrelsi, frelsi fjölmiðla og vernd blaðamanna, heimildarmanna og uppljóstrara.

Með því að greiða frumvarpi Stjórnlagaráðs atkvæði sitt 20. október myndi Styrmir Gunnarsson slá fleiri keilur í einu kasti en honum hefur nokkurn tímann áður gefizt kostur á í kjörklefanum. Atkvæði hans greitt Sjálfstæðisflokknum í Alþingiskosningum hefur aldrei nokkurn tímann getað gefið honum von um að ná öllum þrem helztu baráttumálum sínum í gegn á einu bretti og frelsi fjölmiðla í kaupbæti.

En nú bregður svo við, að Styrmir Gunnarsson er genginn úr skaftinu. Hann talar í útvarpsviðtali um „svokallað Stjórnlagaráð“. Hann virðir ekki nafngiftina, sem Alþingi gaf Stjórnlagaráði skv. þingsályktun. Hann kallar þjóðaratkvæðagreiðsluna 20. október „skoðanakönnun“. Hann virðir ekki samþykkt Alþingis á „Þingsályktun um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga“. Ætla mætti, að fv. ritstjóra dagblaðs þætti ástæða til að virða samþykktir og lög frá Alþingi.

Styrmir Gunnarsson sýnir því aðalatriði málsins engan áhuga heldur eða skilning, að grunnurinn að frumvarpi Stjórnlagaráðs var lagður á þjóðfundinum 2010, þar sem komu saman 950 manns af landinu öllu, frá 18 ára til 91 árs að aldri, valin af handahófi úr þjóðskrá, og var kynjaskipting nánast jöfn. Úrtakið var valið þannig, að tryggt væri, að niðurstöður þjóðfundarins spegluðu vilja þjóðarinnar. Skoðanir Styrmis Gunnarssonar á auðlindum í þjóðareigu, jöfnu vægi atkvæða og beinu lýðræði njóta víðtæks stuðnings meðal þjóðarinnar eins og þjóðfundurinn og einróma samþykkt Stjórnlagaráðs vitnuðu um. Ætla má, að Styrmir Gunnarsson hafi með ötulum málflutningi á síðum Morgunblaðsins árum saman átt ríkan þátt í, að þjóðin komst að sömu niðurstöðu og hann í þessum þrem lykilmálum.

Hvers vegna snýr Styrmir Gunnarsson nú baki við þrem helztu baráttumálum sínum? – nú þegar samþykkt þeirra í stjórnarskrá lýðveldisins er í sjónmáli. Hvers vegna vanvirðir hann samþykktir Alþingis? – og gerir lítið úr þeim, sem var falið af þingi og þjóð að þoka málinu áfram í Stjórnlagaráði. Hann hefur ekki lagt fram nein efnisleg rök gegn frumvarpinu, heldur fjargviðrast hann út af ferlinu eins og það skipti engu máli, að meiri hluti Alþingis ákvað feril málsins. Nú fær það annan hljóm, sem Morgunblaðið sagði um kommúnista á kaldastríðsárunum – að þeir myndu selja ömmu sína fyrir flokkinn. Hvað sem því líður geri ég fastlega ráð fyrir, að góðir sjálfstæðismenn muni þúsundum saman greiða frumvarpi Stjórnlagaráðs atkvæði sitt 20. október, enda gefst þeim þá eins og öðrum færi á að slá fleiri keilur í einu kasti en nokkurn tímann áður í sögu landsins. Slíkt tækifæri ættu menn ekki að láta ganga sér úr greipum.