Rökræður um frumvarp Stjórnlagaráðs
Nú loksins eru hafnar almennar umræður um frumvarp Stjórnlagaráðs til nýrrar stjórnarskrár. Forseti Íslands reið á vaðið í þingsetningarræðu sinni, og fáeinir alþingismenn og aðrir hafa einnig lagt orð í belg. Hér ætla ég að fjalla um nokkur atriði eins og þau horfa við mér.
Benedikt Jóhannesson stærðfræðingur finnur í Iceland Review að samstöðu Stjórnlagaráðs, sem samþykkti frumvarpið með 25 atkvæðum gegn engu. Ég spyr: Hefði sundrung gefizt betur? Samstaðan í Stjórnlagaráði speglaði ríka samstöðu meðal frambjóðendanna 522 og rímaði vel við skoðanir almennings skv. skoðanakönnunum fyrir kosningarnar til Stjórnlagaþings. Svo rík samstaða er óvenjuleg, rétt er það, en hún er eðlileg afleiðing hrunsins. Fólkið í landinu kýs gagngerar stjórnarbætur í kjölfar hrunsins.
Líkt og Gunnar Helgi Kristinsson prófessor telur Benedikt frumvarpið óskýrt vegna þess, að sumir telji hlutverk forseta Íslands eflast samkvæmt frumvarpinu og aðrir telji það veikjast. Ég er á öðru máli. Frumvarpið tilgreinir með skýrum hætti, hvaða hlutverki forsetanum er ætlað að gegna í nýrri stjórnskipan. Segja má, að réttur almennings til að skjóta málum til þjóðaratkvæðis veiki málskotsréttinn, sem forsetinn hefur nú einn. Á móti kemur, að forsetanum er ætlað að skipa formann nefndar, sem metur hæfi umsækjenda um embætti á vegum ríkisins. Hvort hlutverk forsetans styrkist eða veikist við þetta, fer eftir því mati, sem menn leggja á þessi tvö ólíku hlutverk. Eðlilegt er, að menn líti þetta ólíkum augum. Ekkert er undarlegt eða óeðlilegt við það, að lagatexti eins og frumvarp Stjórnlagaráðs bjóði upp á ólíkar túlkanir. Einmitt þess vegna þurfum við dómstóla til að skera úr ágreiningi, og þess vegna þarf fleiri en eitt dómstig. Stjórnarskrá Bandaríkjanna er ekki hafin yfir tvímæli og vafa í öllum greinum, t.d. varðandi verkaskiptingu alríkisins og einstakra ríkja. Það er eðlilegt. Þar vestra hefur Hæstiréttur þurft að skera úr ýmsum atriðum, t.d. hvort einstökum ríkjum sé heimilt að banna fóstureyðingar.
Álfheiður Ingadóttir alþingismaður velti fyrir sér á Alþingi, hvort nauðsynlegt væri að kveða á um skipan dómara í nýrri stjórnarskrá, úr því að Alþingi hefur nýlega samþykkt dómstólalög, þar sem kveðið er á um, að hæfnisnefndir fjalli um umsækjendur og ráðherra geti ekki gengið gegn þeim, sem hæfnisnefndirnar telja hæfasta. Stjórnlagaráði var lagabreytingin ljós, en ráðið ákvað samt að setja ákvæði um skipun dómara og annarra embættismanna inn í frumvarpið. Þetta var gert til að tryggja, að Alþingi hverfi ekki aftur til fyrri hátta við skipun dómara. Stjórnarskránni er ætlað að verja fólkið í landinu gegn Alþingi og öðrum stjórnvöldum. Þess vegna er eðlilegt að flytja sum ákvæði úr lögum í stjórnarskrá.
Birgir Ármannsson alþingismaður lýsti þeirri skoðun á Alþingi, að betra hefði verið að gera smávægilegar breytingar á gildandi stjórnarskrá frekar en að ráðast í heildarendurskoðun. Stjórnlagaráð ræddi þessa hugmynd í þaula og hafnaði henni, enda hefur heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar staðið fyrir dyrum allar götur frá 1945, án þess að Alþingi tækist að ljúka því verki. Þess vegna var kosið til Stjórnlagaþings frekar en að Alþingi gerði eina atlögu enn að endurskoðun stjórnarskrárinnar. Alþingi ákvað að fela öðrum verkið: stjórnlaganefnd, þjóðfundi og Stjórnlagaráði eins og Njörður P. Njarðvík fyrrum prófessor og stjórnlaganefndarmaður hefur lýst.
Kristófer Már Kristinsson fyrrum alþingismaður hefur lýst þeirri skoðun á fésbókinni, að vart sé hægt að ætlast til, að kosið verði um frumvarp Stjórnlagaráðs óbreytt. Ég er á öðru máli. Í fyrsta lagi hefur innanríkisráðherra lýst því, að á Alþingi var gert samkomulag um að leggja frumvarp Stjórnlagaráðs óbreytt í dóm þjóðarinnar. Í annan stað sýnir nýleg skoðanakönnun MMR, að 75% kjósenda vilja fá að kjósa um frumvarpið. Í þriðja lagi væri ólýðræðislegt af hálfu Alþingis að neita þjóðinni um að greiða atkvæði um frumvarpið. Eðlilegra væri, að þjóðin fengi að greiða atkvæði um frumvarpið óbreytt eins og hún lýsir eftir og e.t.v. einnig um viðauka við frumvarpið, sem Alþingi kæmi sér saman um að leggja til. Þessi háttur var hafður á, þegar stjórnarskrá Bandaríkjanna var samþykkt 1787-89.