Fréttablaðið
7. júl, 2011

Rökin fyrir fækkun þingmanna

Ég tel, að hægt sé að fækka alþingismönnum. Fjöldi þeirra nú er 63 og er bundinn í stjórnarskrá. Þannig standa rösklega fimm þúsund manns að baki hverjum alþingismanni að meðaltali. Til samanburðar standa 27 þúsund manns að baki hverjum þingmanni í Finnlandi og Svíþjóð, 29 þúsund í Noregi og 31 þúsund í Danmörku. Eistar hafa 13 þúsund manns að baki hverjum þingmanni. Í eyríkinu Barbados í Karíbahafi, þar sem búa 300 þúsund manns í samlyndu og sólríku lýðræðisríki, eru 30 þingmenn, einn á hverja tíu þúsund íbúa.

Árið 1934 var alþingismönnum fjölgað í 49. Íslendingar voru þá 133 þúsund að tölu, svo að 2.300 manns stóðu þá að baki hverjum þingmanni. Þingmönnum var fjölgað í 52 árið 1942, 60 árið 1959 og 63 árið 1984. Fjölgunin studdist yfirleitt ekki við almenn rök, heldur virtist henni ætlað að svala eftirsókn stjórnmálaflokkanna eftir auknum fjölda þingsæta handa sínu fólki, meðal annars til að jafna vægi atkvæða milli þingflokka. Ólafur Jóhannesson, síðar forsætisráðherra, varaði í grein sinni í Helgafelli 1945 við þeirri skipan, að þingmenn ákveði sjálfir fjölda þingmanna, þar eð þingmenn hefðu augljósan hag af fjölgun í eigin röðum eins og kom á daginn.

Í ritgerðum sínum um stjórnarskrána í Helgafelli 1945 lögðu Gylfi Þ. Gíslason, síðar menntmálaráðherra, og Ólafur Jóhannesson til, að þingmönnum yrði fækkað í 33 (Gylfi) eða 40 (Ólafur) til að draga úr veldi stjórnmálaflokkanna og meðfylgjandi hættu á spillingu. Ólafur sagði: „ … vald stjórnmálaflokkanna og ýmissa hagsmunasamtaka er orðið meira en góðu hófi gegnir. Í rauninni er þar orðið um að ræða mörg ríki í ríkinu, og þau svo voldug, að þau beygja ríkisvaldið og knésetja þjóðarheildina.“

Sumir telja ekki ráðlegt að fækka þingmönnum og beita þeim rökum, að ný stjórnarskrá þurfi að styrkja stöðu Alþingis gegn framkvæmdarvaldinu og til þess þurfi óbreyttan starfskraft innan þings.

Aðrir telja eigi að síður tök á að fækka þingmönnum, og það geri ég eins og lýsti strax fyrir kosningar til Stjórnlagaþings. Rök mín fyrir fækkun eru þessi.

  • Stjórnlagaráð leggur til í samræmi við niðurstöðu þjóðfundar 2010, að ráðherrar sitji ekki á Alþingi. Séu ráðherrar tíu talsins eins og nú, er fjöldi starfandi þingmanna í reyndinni 53, ekki 63. Óbreyttur fjöldi starfandi þingmanna er því 53, ekki 63. Þess vegna mætti fækka þingmönnum úr 63 í 53 án þess að fækka vinnandi höndum við þingstörf.
  • Við bætist, að persónukjöri við hlið listakjörs til Alþingis er ætlað að draga úr getu flokkanna til að tryggja flokksmönnum „örugg“ sæti og bæta með því móti mannvalið á þingi. Þannig geta færri hendur unnið meira og betra starf á Alþingi. Fækkun þingmanna gæti lyft Alþingi og ásýnd þess með því að leiða af sér strangari kröfur kjósenda til fulltrúa sinna á Alþingi.
  • Fækkun þingmanna sparar fé. Lítið land þarf að finna rétt jafnvægi milli umfangsins á yfirbyggingu stjórnsýslunnar og eigin bolmagns.
  • Þá er þess að geta að endingu, að þjóðaratkvæðagreiðslum er ætlað aukið vægi samkvæmt tillögum Stjórnlagaráðs, og fækkar þá verkefnum Alþingis sem því nemur.

Þessi rök fyrir fækkun þingmanna vega þyngra í mínum huga en rökin fyrir óbreyttum fjölda, sem Alþingi ákvað á eigin forsendum. Hófleg fækkun þingmanna, úr 63 í til dæmis 53, samrýmist sterkari stöðu Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu í samræmi við kall þjóðfundarins eftir skýrari valdmörkum og öflugra mótvægi ólíkra valdþátta að því tilskildu, að persónukjör og ráðgerðar skipulagsumbætur efli Alþingi svo sem að er stefnt.