DV
4. jún, 2012

Rök andstæðinganna

Frumvarp Stjórnlagaráðs til nýrrar stjórnarskrár hefur nú legið frammi í tíu mánuði. Sumir eru andvígir frumvarpinu. Það er eðlilegt. Góðar stjórnarskrár mæta ævinlega andstöðu vegna þess, að þær kveða á um réttindi og skyldur. Réttur eins leggur skyldu á herðar annarra. Sumum er óljúft að axla ábyrgð. Hinir eru fleiri, sem skilja og virða, að réttindum fylgja skyldur.

Frumvarp Stjórnlagaráðs kveður á um greiðan aðgang almennings að upplýsingum. Ýmsar upplýsingar, sem stjórnvöld hafa í fórum sínum og hafa hingað til kosið að halda leyndum fyrir almenningi, verða aðgengilegar skv. nýrri stjórnarskrá. Þeir, sem þrífast bezt í skjóli leyndar, leggjast gegn upplýsingafrelsi, þótt þeir beri öðru við. Upplýsingaákvæðinu í frumvarpi Stjórnlagaráðs er ætlað að hafa hagnýtt gildi. Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins synjaði Stjórnlagaráði um upplýsingar um hæstu lífeyrisgreiðslur úr sjóðnum. Vitað er, að stjórnmálamenn hafa skammtað sjálfum sér eftirlaun umfram aðra hópa skv. sérstökum reglum. Reglurnar liggja fyrir, en ekki greiðslurnar, sem af þeim leiðir. Ný upplýsingalög munu knýja á um, að ekki verði lengur hægt að leyna uppsöfnuðum eftirlaunaréttindum opinberra starfsmanna. Slíkar upplýsingar þurfa að liggja frammi. Ný upplýsingalög í samræmi við nýja stjórnarskrá munu einnig draga úr misnotkun bankaleyndar. Þannig verður Seðlabankanum varla lengur stætt á að neita að afhenda upptökur af símtölum bankastjórnarinnar og ráðherra dagana fyrir hrun. Gegnsæi er beitt vopn gegn spillingu.

Umhverfisákvæðið í frumvarpi Stjórnlagaráðs skilgreinir rétt manna til óspilltrar náttúru í samhengi við mannréttindi. Réttur eins til óspilltrar náttúru leggur þá skyldu á aðra, að þeir gangi vel um náttúruna. Frumvarpið kveður einnig á um, að fyrri spjöll skuli bætt eftir föngum. Í því felst viðurkenning á þeim skemmdum, sem t.d. lausaganga búfjár og hrossa hefur valdið á löngum tíma. Þeim, sem vilja halda áfram að spilla náttúrunni óáreittir, er skiljanlega í nöp við nútímaleg ákvæði um umhverfisvernd í stjórnarskrá, þótt þeir beri öðru við.

Ákvæði frumvarpsins um auðlindir í þjóðareigu tekur mið af tillögum allra þingflokka um málið sl. 30 ár, bæði efni þeirra og orðfæri. Þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, sem fetta nú fingur út í ákvæðið í frumvarpi Stjórnlagaráðs um auðlindir í þjóðareigu, eru í reyndinni að hlaupast undan eigin merkjum. Þeir tala eins og þeir hafi ætlazt til, að þeirra eigin tillögur um málið væru að engu hafðar. Stjórnlagaráð tók þá á orðinu. Auðlindagrein frumvarpsins er grein allra flokka og einnig fólksins í landinu eins og þjóðfundurinn 2010 lýsti vilja þjóðarinnar í málinu.

Ákvæðin um skipun dómara undir eftirliti forseta Íslands og Alþingis og um skipun í önnur mikilvæg embætti á grundvelli hæfnissjónarmiða undir eftirliti sérstakrar nefndar, sem forseti Íslands skipar formann í, geta varla lagzt vel í alla. Dæmi eru um, að hæfir umsækjendur um embætti á vegum ríkisins hafi verið hvattir til að draga umsóknir sínar til baka eða hætta við að sækja til að skyggja ekki á flokksmann, sem þurfti að komast í skjól. Dæmum sem þessum verður vonandi komið haganlega fyrir í því spillingarsögusafni, sem Þjóðminjasafnið hefur lagt drög að eftir hrun. Spilltar embættaveitingar eru snar þáttur þjóðarsögunnar. En auðvitað geta menn ekki lagzt gegn frumvarpi Stjórnlagaráðs með þeim rökum, að þeir vilji halda uppteknum hætti við skipan í embætti.

Andstæðingar frumvarps Stjórnlagaráðs tilfæra önnur óskyld rök eins og þau, að Hæstiréttur hafi ógilt kosninguna til Stjórnlagaþings. Hitt er þó sönnu nær, að ógilding Hæstaréttar átti sér enga stoð í lögum eins og Guðbjörn Jónsson lýsti vel í opnu bréfi til Hæstaréttar og einnig til forseta lagadeildar Háskóla Íslands. Þeir hamra einnig á því, að kjörsókn í kosningunni til Stjórnlagaþings hafi ekki verið nema 37% eins og það skipti máli. Ekki datt Trampe greifa í hug að gera lítið úr þjóðfundinum 1851 vegna þess, að kjörsóknin væri um 30%. Kjörsókn skiptir aldrei máli fyrir úrslit kosninga, nema ákvæði séu í lögum þess efnis, að kjörsókn þurfi að ná ákveðnu marki til að kosningin sé gild.