DV
14. sep, 2012

Ríkur samhljómur

Mörgum helztu stefnumálum Sjálfstæðisflokksins er haganlega fyrir komið í frumvarpi Stjórnlagaráðs til nýrrar stjórnarskrár. Sama á við um aðra flokka: stefnu þeirra sér einnig stað í frumvarpi Stjórnlagaráðs eins og eðlilegt getur talizt í lýðræðisríki, þar sem þjóðkjörnum og þingskipuðum fulltrúum var falið að semja frumvarp til nýrrar stjórnarskrár.

Allir stjórnmálaflokkarnir eiga t.d. ríkan þátt í ákvæði frumvarpsins um auðlindir í þjóðareigu. Davíð Oddsson forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins lagði fram á Alþingi stjórnarfrumvarp 1995, þar sem gert var ráð fyrir nýju ákvæði um náttúruauðlindir í stjórnarskrá. Ákvæðið hljóðaði svo: „Nytjastofnar á hafsvæði því sem fullveldisréttur Íslands nær til eru sameign íslensku þjóðarinnar.“ Þarna er skýrt kveðið á um auðlindir í þjóðareigu með orðunum „sameign íslensku þjóðarinnar“.

Orðalagið „sameign íslensku þjóðarinnar“ er náskylt orðalagi frumvarps, sem dr. Gunnar Thoroddsen, forsætisráðherra og formaður stjórnarskrárnefndar 1978-83, lagði fram á Alþingi 1983 og gerði ráð fyrir nýju ákvæði um náttúruauðlindir í stjórnarskrá. Ákvæðið hljóðaði svo: „Náttúruauðlindir landsins skulu vera ævarandi eign Íslendinga. Auðlindir hafs og hafsbotns innan íslenskrar lögsögu eru þjóðareign. Eignarrétti að öðrum náttúruauðæfum skal skipað með lögum.“ Takið eftir, að Gunnar Thoroddsen notaði orðið „þjóðareign“.

Orðalagið „ævarandi eign Íslendinga“ var sótt í lögin um þjóðgarðinn á Þingvöllum frá 1928, en þar segir: „Hið friðlýsta land skal vera undir vernd Alþingis og ævinleg eign íslensku þjóðarinnar. Það má aldrei selja eða veðsetja.“ Þingvallalögin frá 1928 lýsa inntaki þjóðareignarhugtaksins: Þjóðareign er eign, sem „má aldrei selja eða veðsetja“. Börnin okkar mega aldrei vakna upp við það, að auðlindirnar, sem okkur bar að varðveita handa þeim, séu komnar í annarra hendur.

Þessi skilningur er lagður í hugtakið þjóðareign í frumvarpi Stjórnlagaráðs. Þar segir: „Auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Enginn getur fengið auðlindirnar, eða réttindi tengd þeim, til eignar eða varanlegra afnota og aldrei má selja þær eða veðsetja.“ Frumvarp ríkisstjórnar Geirs H. Haarde forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins og Jóns Sigurðssonar iðnaðar- og viðskiptaráðherra og formanns Framsóknarflokksins á Alþingi 2007 lagði til orðalagið: „Náttúruauðlindir Íslands skulu vera þjóðareign …“

Stjórnlagaráð tók Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn á orðinu, og það var auðvelt, þar eð aðrir stjórnmálaflokkar höfðu einnig lagt fram frumvörp á Alþingi um auðlindir í þjóðareigu. Mestu skipti þó, að þjóðfundur og stjórnlaganefnd skipuð af Alþingi lýstu eftir ákvæði í stjórnarskrá um auðlindir í þjóðareigu. Af þeim 23 kjörnu fulltrúum í Stjórnlagaráði, sem svöruðu spurningum DV fyrir stjórnlagaþingskosninguna 2010, sögðust 22 vera hlynntir þjóðareign á auðlindum. Samhljómurinn gat varla ríkari verið.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur með líku lagi beitt sér á fyrri tíð fyrir jöfnun atkvæðisréttar og haft forustu um breytingar á kjördæmaskipaninni. Um þetta segir á vefsetri flokksins (xd.is):

„Barátta gegn óréttlátri kjördæmaskipan
Fyrstu 10 árin var Sjálfstæðisflokkurinn lengst af í stjórnarandstöðu, ef undanskilið er tímabilið frá miðju ári 1932 til miðs árs 1934, þegar flokkurinn tók þátt í ríkisstjórn í fyrsta sinn. Aðalviðfangsefni hennar var að koma á umbótum á kjördæmaskipan landsins, er var orðin mjög úrelt og óréttlát. Flokkurinn hefur ítrekað síðan barist fyrir umbótum og auknu réttlæti í þeim efnum.“ Stjórnmálaályktun 31. landsfundar flokksins 1993 gaf Morgunblaðinu tilefni til að birta forustugrein undir yfirskriftinni „Jafnt vægi atkvæða“. Sjálfstæðisflokkurinn á því ríkan þátt í kosningaákvæði frumvarps Stjórnlagaráðs, en þar segir í anda sjálfstæðisstefnunnar frá 1993: „Atkvæði kjósenda alls staðar á landinu vega jafnt.“

Tvö af mikilvægustu ákvæðum frumvarps Stjórnlagaráðs, ákvæðin um auðlindir í þjóðareigu og jafnt vægi atkvæða, virða hugsjónir sjálfstæðismanna eins og þær hafa birzt í stefnu flokksins og frumvörpum flokksmanna fyrr og síðar. Í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október gefst kjósendum færi á að leiða auðlindir í þjóðareigu og jafnt vægi atkvæða til öndvegis í stjórnarskrá lýðveldisins. Látum færið okkur ekki úr greipum ganga. Kjósum.