DV
7. nóv, 2014

Ríki í ríkinu

Ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks hefur 60% sæta á þingi í krafti 51% atkvæða kjósenda í kosningunum 2013. Þær kosningar hefðu að réttu lagi átt að vera hinar síðustu, sem haldnar eru eftir gildandi kosningalögum, þar eð 2/3 hlutar kjósenda höfnuðu þessum lögum með því að lýsa stuðningi við jafnt vægi atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá 2012. Næstu alþingiskosningar munu orka tvímælis, að ekki sé meira sagt, þar eð þær verða haldnar skv. lögum, sem kjósendur hafa hafnað. Gróft misvægi atkvæða felur í sér mismunun og mannréttindabrot, sem kjósendum gafst í fyrsta sinn færi á að andæfa milliliðalaust í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012. Stjórnmálaflokkarnir virðast þó ætla að reyna að fara sínu fram og hafa þjóðaratkvæðagreiðsluna að engu. Þeir hegða sér eins og ríki í ríkinu eins og Ólafur Jóhannesson, síðar forsætisráðherra, lýsti í tímaritinu Helgafell þegar árið 1945. Þeir færa sig upp á skaftið, séu þeir ekki stöðvaðir.

Alþingi leikur sér að eldi með því að lítilsvirða lýðræðið. Nýkjörið Alþingi nýtur trausts 13% kjósenda skv. nýrri könnun MMR. Þar er við stjórnmálaflokkana að sakast. Aðeins bankakerfið býr við minna traust. Bankarnir jusu lánsfé og styrkjum í nafngreinda stjórnmálamenn og flokka fyrir hrun svo sem fram kemur í skýrslu RNA um hrunið (sjá 2. bindi, bls. 200-201, og 8. bindi, bls. 164-170). Ekkert hefur enn spurzt um uppgjör þeirra viðskipta. Engum þarf að koma á óvart, að 2/3 hlutar Íslendinga telja spillingu útbreidda í stjórnmálum og stjórnsýslu landsins skv. nýlegri rannsókn Gallups.

Eitt fyrsta verk ríkisstjórnarinnar í fyrra var að aflétta áður ákveðnum veiðigjöldum af útgerðinni eins og til að auglýsa, að nóg væri til af opinberu fé. Seðlabankastjóri hafði áður stefnt bankanum fyrir rétt vegna launadeilu eins og til að auglýsa, að engin þörf væri fyrir aðhald í launamálum. Á hvorugum staðnum virtist vera til að dreifa djúpum skilningi á viðkvæmri stöðu efnahagsmálanna í hrundu landi.

Ríkisstjórnin bjóst síðan til að draga umsókn um aðild að ESB til baka í eitt skipti fyrir öll í stað þess að láta sér duga að leggja hana til hliðar til að binda ekki hendur kjósenda fram í tímann. Ríkisstjórnin hrökk frá þessari ráðagerð vegna mótmæla almennings á Austurvelli og undirskrifta 22% atkvæðisbærra manna undir áskorun til Alþingis um að falla frá málinu. Skoðanakönnun Fréttablaðsins sýndi, að 82% kjósenda vildu þjóðaratkvæðagreiðslu um málið eins og stjórnarflokkarnir höfðu lofað.

Nú bíður framlagningar á Alþingi frumvarp til nýrra fiskveiðistjórnarlaga þvert á ákvæðið um auðlindir í þjóðareigu, sem 83% kjósenda lýstu sig fylgjandi í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012. Þegar ríkisstjórnin leggur frumvarpið fram, verður fólkið í landinu að rísa upp og stöðva gerninginn. Þess myndi að sönnu ekki gerast þörf, væri nýja stjórnarskráin gengin í gildi, svo sem rétt og eðlilegt hefði verið, þar eð þá hefði undirskrift 10% atkvæðisbærra manna dugað til að vísa málinu í þjóðaratkvæði. En úr því að Alþingi hefur stungið nýju stjórnarskránni niður í neðstu skúffu hjá LÍÚ, neyðist fólkið til að fara mótmælaleiðina. Þúsundir manna sóttu mótmælafundinn á Austurvelli á mánudaginn var til að lýsa andúð sinni á ríkisstjórninni og ýmsum verkum hennar.

„Góðar fréttir af efnahagsmálum þessa dagana … Við erum á réttri leið,“ segir fjármálaráðherra. „Allir dauðöfunda okkur“, segir seðlabankastjóri. Það er eins og þeim komi það ekki við, að læknar eru í verkfalli. Læknaverkföll tíðkast hvergi á byggðu bóli nema í Nígeríu og nokkrum slíkum löndum. Tónlistarkennarar eru í verkfalli. Prófessorar stefna á verkfall. Margt bendir til víðtækra verkfalla snemma á næsta ári, þegar samningar ASÍ við Samtök atvinnulífsins losna. Margar helztu stofnanir landsins berjast í bökkum: Landspítalinn, Ríksútvarpið, Háskóli Íslands, sveitarfélögin, tónlistarskólarnir o.s.frv. Eyðilegging og upplausn blasa við hvert sem litið er.

Og bankarnir standa á brauðfótum eins og sést á því, að Landsbankinn virðist munu þurfa myndarlega meðgjöf frá ríkinu til að geta staðið í skilum, ákveði ríkisstjórnin að koma í veg fyrir samning bankans við kröfuhafa í þrotabú gamla Landsbankans. Auk þess bíður ágreiningurinn um lögmæti verðtryggingar eins og hún var framkvæmd lausnar fyrir dómstólum. Eignastaða bankanna er því óljós enn sem komið er. Landsbankinn lætur það samt ekki aftra sér frá að ætla að reisa sér nýjar höfuðstöðvar við hliðina á Hörpu í hjarta Reykjavíkur.