DV
4. nóv, 2011

Ríki í ríkinu

Harðdrægir bankamenn eru ekki nýtt vandamál. Abraham Lincoln, forseti Bandaríkjanna 1861-65, sagðist eiga tvo erkióvini, hermenn suðurríkjanna og bankamenn í New York, og sagði síðan: „Bankamennirnir eru versti óvinur minn.” Bankarnir höfðu reynt að fá Lincoln til að fjármagna borgarastríðið með lánum við okurvöxtum, en hann sá við þeim og kaus heldur að prenta peninga, eins og stjórn hans var í lófa lagið. Theodore Roosevelt forseti landsins 1901-1909 lenti einnig í útistöðum við auðjöfra, einkum olíu- og járnbrautafursta, og bauð þeim byrginn líkt og Lincoln forveri hans og flokksbróðir hafði sýnt bankamönnunum í tvo heimana; þeir voru báðir repúblikanar. Roosevelt tók t.d. Standard Oil og skipti olíurisanum upp í 30 fyrirtæki, sem þurftu að keppa hvert við annað. Trust Buster var hann kallaður og náði endurkjöri með yfirburðum 1904.

Nú þyrftu Bandaríkjamenn á slíkum kjarki ríkisstjórnarinnar og þingsins að halda í viðureign hennar við bankana, sem halda áfram að hegða sér eins og ríki í ríkinu. Simon Johnson, prófessor á MIT og fyrrum aðalhagfræðingur AGS, og félagi hans James Kwak hafa skrifað fróðlega bók um vandann, 13 Bankers. Þar lýsa þeir því vel, hvernig ríkið bjargaði bönkunum eftir fall Lehman Brothers 2007 án þess að gera viðeigandi gagnráðstafanir til að breyta skuldum í hlutafé og skipta út óhæfum eigendum. Sukkið í bönkunum heldur því áfram. Johnson og Kwak eiga von á öðrum skelli með sama áframhaldi, nema almannavaldið grípi í taumana. Fyrir 30 árum voru meðallaun í fjármálafyrirækjum að jafnaði tvöföld á við önnur fyrirtæki eins og Catherine Rampell blaðamaður á New York Times lýsti þar fyrir nokkru. Nú er munurinn næstum sexfaldur. Hvaða vit er í því? – og það í atvinnuvegi, sem hefur sett allt efnahagslíf Bandaríkjanna og Evrópu á annan endann.

Til greina kemur að lögleiða skatt á fjármálagerninga, einkum millifærslur til mjög skamms tíma. Bandaríkjastjórn hikar af tillitssemi við bankamenn, en ESB ræðir málið nú í fullri alvöru. James Tobin, hagfræðiprófessor í Yale-háskóla í Bandaríkjunum og Nóbelsverðlaunahafi, lagði fyrstur manna til slíkan skatt fyrir 39 árum í frægum fyrirlestri í Princeton. Bretar hreyfa andmælum og segjast munu missa fjármálaviðskipti til Hong Kong og Singapúr. Betra væri, segja þeir, að allar helztu fjármálamiðstöðvar heimsins kæmu sér saman um skatt á tiltekna fjármálagerninga til að draga úr braski og sveiflum. Í annan stað þarf að loka ýmsum klæðskerasaumuðum og glórulausum glufum í skattalögum. Ein glufan gerir bankajöfrum kleift að telja vinnulaun sín fram til skatts sem fjármagnstekjur, svo þær lendi í lægra skattþrepi. Í þriðja lagi þarf að vernda bankana fyrir sjálfum sér m.a. með því að skipta þeim upp í smærri einingar. Ef banki er of stór til að falla, er hann of stór. Til þessa þarf ekki þröngar spennitreyjur, heldur myndu hraðahindranir og aðrar slíkar ráðstafanir e.t.v. duga til að halda bönkunum í skefjum. Í þessu skyni mætti leggja hömlur á getu þeirra til að gera út á innlánstryggingar ríkisins og stofna sparifjáreigendum þannig í voða. Í fjórða lagi mætti knýja bankana til að geyma gildan varaforða, svo að þeir geti hreinsað upp eftir sig sjálfir, þegar þeir spenna bogann of hátt. Með þessu tryggði atvinnugreinin sjálfa sig fyrir ógöngum, sem hún gæti ratað í. Hugsunin hér er svipuð hugsuninni á bak við tóbaksskatta og önnur mengunargjöld. Í fimmta lagi þarf að taka fyrir fjárstreymi frá bönkum til stjórnmálamanna og flokka. Í sjötta lagi þarf að sækja brotlega bankamenn til saka. Citigroup seldi bréf og veðjaði samt á, að þau myndu falla í verði. Taki menn áhættu, þurfa þeir helzt að bera hættuna sjálfir. Engum á að líðast að stofna öðrum í hættu, enda er það ólöglegt.

Paul Volcker, seðlabankastjóri 1979-87 og helzti ráðgjafi Obamas Bandaríkjaforseta í bankamálum eftir 2007, vildi beita bankana hörðu. Volcker dugðu þrjár blaðsíður til að lýsa því, sem gera þyrfti til að setja bönkunum stólinn fyrir dyrnar. Bankamönnum tókst að búa til úr textanum 300 blaðsíðna skjal, sem þynnir tillögur Volckers svo út, að þær eru ekki svipur hjá sjón. Þær eru þó betri en ekkert. Volcker fékk ekki stuðning þingsins til að skipa bankamönnunum að sitja og standa eins og hann vildi, úr því að ríkið leysti bankana úr snörunni, sem þeir voru í þann veginn að hengja sig í og fjölda saklausra vegfarenda. Bankarnir og önnur fjármálafyrirtæki greiddu stjórnmálamönnum 180 milljónir dollara 2010, eða 60 sent á hvern landsmann. Þann fjáraustur þarf að stöðva, og ekki bara þar vestra.