Ráðgátan Ísland
Alþýðuflokkurinn fagnar 100 ára afmæli sínu á þessu ári. Af því tilefni var blásið til glæsilegs opins fundar í Iðnó í byrjun marz þar sem saga flokksins var reifuð og skýrð frá ýmsum hliðum með lúðraþyt og söng.
Ólafur Þ. Harðarson prófessor hélt prýðilegt yfirlitserindi um þróun stjórnmálanna. Hann tefldi fram ráðgátu sem kenna má við þversagnarþrenningu en með því er átt við þrjár staðhæfingar sem fá ekki staðizt allar í einu því ef tvær þeirra eru réttar þá hlýtur hin þriðja að vera röng. Þrenningin er þessi eins og Ólafur lýsti henni á fundinum:
1. Hagfræðingum ber yfirleitt saman um að hagstjórn á Íslandi hafi frá öndverðu verið afleit.
2. Stjórnmálafræðingum ber yfirleitt saman um að stjórnmál á Íslandi hafi frá öndverðu verið spillt.
3. Íslenzkt samfélag er meðal beztu samfélaga sem heimurinn þekkir.
Þversögnin hér er þessi: Sé árangurinn svo góður sem þriðja staðhæfingin ber með sér þá fær það varla staðizt að bæði hagstjórnin og stjórnmálin hafi brugðizt. Fyrsta og önnur staðhæfing Ólafs eru að minni hyggju báðar tvær réttar lýsingar á skoðunum flestra hagfræðinga og stjórnmálafræðinga ef frá eru taldar fáeinar málpípur stjórnvalda og sérhagsmunahópa. Ólíklegt virðist að flestir hagfræðingar meti hagstjórnina rangt og einnig að stjórnmálafræðingar flaski á stjórnmálunum. Því hljóta böndin að berast að þriðju staðhæfingunni. Fær hún staðizt?
Skoðum Norðurlöndin til að sjá samhengið. Hvað verður sagt um Danmörku, Noreg og Svíþjóð? Þar er að finna þrjú af beztu samfélögum í heimi. Um það eru engin skynsamleg áhöld lengur. Hagfræðingum, stjórnmálafræðingum og öðrum ber yfirleitt saman um að hagstjórn þar hafi verið í góðu lagi á heildina litið og stjórnmálalífið sé tiltölulega óspillt. Tiltækar mælingar renna stoðum undir allt þrennt: góða hagstjórn, heilbrigð stjórnmál og gott samfélag.
Einfaldur mælikvarði á gæði hagstjórnarinnar er verðbólga. Danir, Norðmenn og Svíar hafa ólíkt Íslendingum aldrei misst stjórn á henni. Verðbólga er að vísu lítil á Íslandi sem stendur þrátt fyrir áhyggjur stjórnvalda og vinnuveitenda af nýgerðum kjarasamningum, en stöðugleikinn nú stafar að miklu leyti af hagfelldum ytri skilyrðum, m.a. lágu olíuverði. Gallup mælir spillingu um allan heim, nánar tiltekið hversu útbreidda almenningur telur spillingu vera í stjórnmálum og stjórnsýslu, og hún mælist minnst í Danmörku og Svíþjóð, ívið meiri í Noregi og margfalt meiri á Íslandi sem er næsti bær við Kongó (!) skv. niðurstöðum Gallups. Sameinuðu þjóðirnar mæla velferð almennings með því að vega saman tekjur, menntun og heilbrigði. Á þennan kvarða eru Noregur, Danmörk og Svíþjóð í 1., 4. og 14. sæti í hópi 188 landa. Ísland skipar 16. sæti listans (nýjustu tölur eru frá 2014).
Ísland hafnar aðeins tveim sætum aftar en Svíþjóð vegna þess hvernig menntun er vegin inn í vísitöluna og hvernig tekjur eru metnar. Íslenzk börn eru talin geta vænzt þess að sitja 19 ár á skólabekk á móti 16 árum í Svíþjóð, en í reyndinni hafa Íslendingar setið 10-11 ár í skóla á móti 12 árum í Svíþjóð skv. samantekt SÞ (hér er átt við meðalskólagöngu fullorðins fólks). Væri einungis tekið mið af meðalskólagöngu, myndi Ísland falla niður í 40. sæti listans, niður fyrir Argentínu. Ísland myndi dragast enn lengra aftur úr öðrum Norðurlöndum væru tekjur mældar sem tekjur á hverja vinnustund frekar en sem tekjur á mann. Þetta stafar af því að tekjur á vinnustund taka mið af fyrirhöfninni á bak við tekjuöflunina, en tekjur á mann gera það ekki. Fyrirhöfnin er meiri hér heima en í nálægum löndum vegna ýmislegrar landlægrar óhagkvæmni, t.d. vegna fákeppni í bankarekstri og fyrirgreiðslu ríkisins við landbúnað og sjávarútveg áratug fram af áratug – og vegna spillingar.
Mælikvarði Sameinuðu þjóðanna (e. Human Development Index) er skárri kvarði en þjóðartekjur á mann einar og sér þar eð menntun og heilbrigði eru tekin með í reikninginn. Ísland myndi lenda miklu neðar á listanum væru menntun og heilbrigði ekki talin með. Samt er þessi kvarði SÞ ekki einhlít vísbending um velferð þjóða eins og leiðréttingin á einkunn Íslands að framan vitnar um. Þar að auki er ekki tekið neitt tillit til náttúruauðlinda, félagsauðs (þ.m.t. heilbrigð stjórnmál og stjórnsýsla) eða umhverfismála. Ekki er vitað að svo stöddu hvort tillit til þeirra þátta myndi færa Ísland upp eða niður eftir listanum.
Hitt virðist ljóst að hagtölur og félagsvísar vitna um að Ísland stendur allangt að baki beztu samfélaga heimsins þegar öllu er til haga haldið eftir því sem hægt er. Við bætist að rússnesk einkavæðing ríkiseigna hvað eftir annað væri óhugsandi annars staðar um Norðurlönd. Fjármálahrun eins og það sem reið yfir Ísland 2008 væri einnig óhugsandi annars staðar á Norðurlöndum. Aðför þjóðþingsins að lýðræðinu (m.a.s. með fulltingi Hæstaréttar á frumstigi stjórnarskrármálsins) væri einnig óhugsandi í okkar heimshluta. Afleit hagstjórn og spillt stjórnmál eru aldrei ókeypis.
Það þyngir róðurinn gegn afleitri hagstjórn og spillingu hér heima að Bandaríkin og fáein Evrópulönd sýna nú einnig ýmis merki þess að límingarnar þar séu teknar að losna af ýmsum ástæðum. Það er efni í aðra grein.