Persónur og saga
Hvaða stefnu ætli Ísland hefði tekið, ef aðalleiðtogi Íslendinga á síðari helmingi 19. aldar hefði ekki heitið Jón Sigurðsson? – heldur segjum t.d. Grímur Thomsen. Birtist í Fréttablaðinu 21. apríl 2005.
Hvaða stefnu ætli Ísland hefði tekið, ef aðalleiðtogi Íslendinga á síðari helmingi 19. aldar hefði ekki heitið Jón Sigurðsson? – heldur segjum t.d. Grímur Thomsen. Að sönnu kom leiðsaga Gríms ekki til greina, til þess hafði hann hvorki metnað né stuðning, þótt hann væri áhrifamikill stjórnmálamaður og virtur bókmenntafræðingur og skáld. Jón Sigurðsson kom í rauninni einn til álita sem helzti foringi þjóðarinnar þessi umbrotaár. En hugsum þessa hugsun samt til enda: hvað ætli hefði gerzt, hefði Grímur Thomsen ráðið ferðinni? Spurningin er öðrum þræði þessi: skipta einstaklingar máli fyrir framvindu sögunnar? Eða lýtur sagan eigin lögmálum, án þess að einstakir menn fái rönd við reist?
Við þekkjum framvinduna í þessu dæmi: Ísland tók fyrsta stóra skrefið inn í nútímann fyrir 150 árum, þegar landið hristi af sér ævagamlar viðjar með því að taka upp óskorað verzlunarfrelsi út á við fyrir frumkvæði Jóns forseta fyrst og fremst. Frjálslyndi og lærdómur Jóns og látlausar fortölur hans og nudd í bréfum og greinum áttu ríkan þátt í þessum umskiptum. Jón lagði með líku lagi grunninn að síðbúinni endurheimt sjálfstæðis þjóðarinnar með tilkomu heimastjórnarinnar 1904, þótt hann félli frá aldarfjórðungi fyrr.
Hvernig ætli Grímur Thomsen hefði tekið á verzlunarmálinu og sjálfstæðismálinu, hefði hann farið fyrir Íslendingum? Því verður ekki svarað með nokkurri vissu, en við getum samt reynt að gizka í eyðurnar. Grímur Thomsen var Jóni Sigurðssyni innan handar um ýmislegt framan af ferli sínum, m.a. annars við útgáfu Nýrra félagsrita í Kaupmannahöfn, en hann snerist síðan gegn Jóni í mörgum málum. Grímur var embættismaður í dönsku utanríkisþjónustunni fram undir fimmtugt og þótti gerast hallur undir Dani, og hann tók ekki undir málflutning Jóns forseta í frelsisbaráttunni. Grímur Thomsen var íhaldsmaður og úrtölumaður. Hann virtist vera þeirrar skoðunar, að óbreytt ástand hentaði Íslendingum bara vel. Þegar símalagning hingað heim kom til tals, sagðist hann aldrei hafa orðið þess var, að Íslendingar hefðu beðið tjón af því að þurfa að bíða nokkrar vikur eftir fréttum utan úr heimi. Hann flæktist fyrir Jóni forseta á ýmsa lund, jafnvel út yfir gröf og dauða. Grímur átti mestan þátt í því, að Íslendingar reistu ekki styttu af Jóni Sigurðssyni strax að honum látnum, þegar Brynjólfur Bergslien, einn helzti myndhöggvari Noregs, stóð Íslendingum til boða. Líkneskið reis löngu síðar, og þá var Einar Jónsson fenginn til að vinna verkið, sem stendur á Austurvelli.
Hefðu atvikin hagað því svo, að Grímur Thomsen hefði farið fyrir Íslendingum, hefðu þá viðskiptafrelsi og síðan sjálfstæði skilað sér til Íslands með því móti, sem raun varð á? Það er ómögulegt að vita. Íhaldssemi Gríms og úrtölur hefðu hæglega getað tafið bæði málin. Jón Sigurðsson hafði annað upplag en Grímur, aðra lífsskoðun, annan stíl. Jón segir á einum stað: ,,Til að bægja annmörkunum þarf að halda þeim alltaf skarpt fram og sýna hvað skaðlegir þeir sé í alla átt. Með því næst um síðir það, sem maður vill, en þögnin heldur öllu í status quo – og status quo vitum við er afturför.” Þannig var Jón: óþreytandi. En Grími hefur sennilega fundizt þetta vera heldur hvimleiður málflutningur.
Tökum annað dæmi, frá Indlandi. Hér er engrar andsögu þörf, því að rás atburðanna ber vitni. Indland og Pakistan urðu sjálfstæð ríki, þegar Bretar hurfu frá Indlandi 1947. Leiðtogi múslíma, Múhameð Alí Jinnah, krafðist þess, að þeir fengju að stofna eigið ríki. Bretar létu undan og einnig Gandí, leiðtogi þjóðfrelsishreyfingar Indverja. Þannig varð Pakistan til, og síðan einnig Bangladess 1971 að loknu blóðugu stríði. Indland hefur verið lýðræðisríki allar götur frá 1947 og tekið ýmsum framförum, en Pakistan hefur mátt lúta harðskeyttri herstjórn árum saman og vegnað verr en Indlandi. Hefðu indverskir múslímar átt framsýnni, mildari og sveigjanlegri leiðtoga en Jinnah, einhvern eins og t.d. Gandí, þá hefðu Pakistanar e.t.v. eignazt kost á lýðræði, frelsi og friði, og þá væru lífskjör þar nú e.t.v. engu lakari en á Indlandi. Indlandi hefur fleygt fram í krafti frjálslegra umbóta síðan 1990, en Pakistan hefur hjakkað í sama hjólfarinu. Ef landsfaðirinn er einstrengingslegur ofstækismaður eins og Jinnah var, þá er ekki góðs að vænta um framsókn lands og lýðs. En Gandí lofaði góðu. Hvað ætli Grími Thomsen hefði fundizt um Gandí?