Fréttablaðið
22. feb, 2007

Óttaslegnir ójafnaðarmenn

Upplýsingar fjármálaráðuneytisins og ríkisskattstjóra um aukinn ójöfnuð á Íslandi virðast hafa skotið sumum málsvörum ríkisstjórnarinnar skelk í bringu, enda er skammt til kosninga 12. maí. Ótta þeirra skil ég vel. Einn lykillinn að veldi Sjálfstæðisflokksins allan lýðveldistímann var mannúðleg jafnaðarstefna flokksins, sem birtist m.a. í kjörorðinu stétt með stétt. Þetta vígorð hafði lengi sannfærandi hljóm. Tiltækar staðtölur um tekjuskiptingu á Íslandi sýndu, að hún var löngum svipuð hér og annars staðar um Norðurlönd. Þar átti Ísland heima. Íslendingar töldu sig ekki þurfa á stórum jafnaðarflokki að halda eins og Danir, Finnar, Norðmenn og Svíar. Sjálfstæðisflokkurinn gerði í grófum dráttum svipað gagn. Hann var ekki aðeins flokkur útgerðarauðvalds og annarra atvinnurekenda, heldur einnig flokkur launþega og bænda. Þetta var sérstaða og styrkur Sjálfstæðisflokksins umfram aðra flokka, sem höfðu þrengri skírskotun. Sjálfstæðisflokkurinn neytti ekki aflsmunar í samsteypustjórnum til að knýja á um aukinn ójöfnuð, svo sem honum hefði verið í lófa lagið og ýmsir auðmenn í flokknum – heildsalar, útvegsmenn og aðrir – hefðu ugglaust kosið. Auðvaldið varð að beygja sig fyrir jafnaðarkröfum fjöldans. Réttsýnir formenn flokksins – Ólafur Thors, Bjarni Benediktsson, Jóhann Hafstein, Geir Hallgrímsson – hefðu ekki liðið stóraukinn ójöfnuð, og var Ólafur Thors þó útvegsmaður og Geir Hallgrímsson heildsalasonur.

Nú er öldin önnur. Í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins síðan löngu fyrir aldamót hefur ójöfnuður í tekjuskiptingu hér innan lands aukizt meira og hraðar en nokkur þekkt dæmi eru um frá öðrum löndum. Þjóðhagsstofnun birti um sína daga vandaðar skýrslur um tekjuskiptingu, en stofnuninni var lokað að kröfu Sjálfstæðisflokksins, þar eð hún þótti of treg í taumi. Eftir það birtu yfirvöld engar tekjuskiptingartölur í nokkur ár. Við svo búið mátti ekki standa. Sigurjón Þórðarson alþingismaður spurðist fyrir um málið 2004. Þáverandi fjármálaráðherra, Geir Haarde, lagði þá fram á Alþingi nýjar upplýsingar, sem staðfestu grun fyrirspyrjandans um stóraukinn ójöfnuð. Tölur ráðherrans spönnuðu árin 1995-2003 og náðu yfir bæði launatekjur og fjármagnstekjur að greiddum skatti og þegnum bótum, svo sem tíðkast, þegar þróun tekjuskiptingar er lýst gegnum tímann. Þær sýndu, að Gini-stuðullinn, sem svo er nefndur, hafði hækkað um níu stig þessi níu ár, eitt stig á ári að jafnaði. Gini-stuðullinn er algengur mælikvarði á misskiptingu tekna. Hann er í minnsta lagi núll, ef allir hafa sömu tekjur (fullur jöfnuður), og í mesta lagi 100, ef allar tekjur falla einum manni í skaut (fullkominn ójöfnuður). Ef Gini er 26 eins og í Noregi, hefur ríkasti fimmtungur heimilanna gróft reiknað þrisvar sinnum hærri ráðstöfunartekjur en fátækasti fimmtungurinn. Ef Gini er 36 eins og á Bretlandi, hefur ríkasti fimmtungur heimilanna um sex sinnum hærri ráðstöfunartekjur en hinn fátækasti. Tíu stiga hækkun Gini-stuðulsins frá einu landi eða einum tíma til annars vitnar því um tvöföldun tekjugapsins, sem skilur ríkasta fimmtung heimilanna frá hinum fátækasta, eða þar um bil. Engum datt í hug að rengja fjármálaráðherra, þegar hann kynnti þessar upplýsingar á Alþingi.

Til að halda málinu lifandi óskaði ég eftir því við ríkisskattstjóraembættið, að það reiddi fram nýjar upplýsingar um þróun tekjuskiptingar 1993-2005. Tölum ríkisskattstjóra ber saman við tölur fjármálaráðherra upp á hár fyrir öll árin 1995-2003. Nú bættust við þær upplýsingar, að Gini stóð í stað 1993-95, en hækkaði um sex stig 2003-2005, úr 30 í 36. Gini-stuðullinn hefur því hækkað um 15 stig þessi 13 ár, eða rösklega eitt stig á ári að jafnaði. Ný skýrsla Hagstofunnar nær að vísu aðeins til áranna 2003-2004 og sýnir eins stigs hækkun milli ára, svo að allt ber að einum og sama brunni, einnig rannsóknir Stefáns Ólafssonar prófessors, sem öðrum fremur hefur athugað málið. Jóakim Palme prófessor í Stokkhólmi hefur rannsakað þróun tekjuskiptingar í Svíþjóð. Hann tekur allar tekjur heimilanna með í reikninginn, einnig fjármagnstekjur eins og vera ber. Tölur hans sýna, að Gini-stuðullinn í Svíþjóð 1993 var 22 á móti 21 hér heima. Tíu árum síðar var Gini 25 í Svíþjóð og 30 hér. Misskipting tekna hefur því ágerzt mun frekar á Íslandi en í Svíþjóð. Aukning ójafnaðar í Svíþjóð hefur haldizt innan hóflegra marka og vekur ekki deilur þar. Hér heima tekur ójafnaðaraukningin út yfir allan þjófabálk. Sjálfstæðisflokkurinn hefur í reyndinni sagt sjálfum sér og sögu sinni stríð á hendur. Hann hefur breytzt í harðskeyttan ójafnaðarflokk og sækir fyrirmyndir til Bush forseta og bandarískra repúblikana, svo sem hugmyndina að auknum álögum á almenning og stórfelldri skattalækkun handa auðmönnum – og þrætir í þokkabót fyrir aukinn ójöfnuð af þessum völdum og hrópar: öfund, öfund. Repúblikanar fóru í útreiðartúr á tígrisdýri og biðu afhroð í kosningum vestra í nóvember 2006. Sjálfstæðisflokkurinn verðskuldar sömu ráðningu 12. maí.