DV
8. jún, 2012

Öllum ber að virða hana og vernda

Náttúruverndarákvæðunum í frumvarpi Stjórnlagaráðs til nýrrar stjórnarskrár er ætlað að marka þáttaskil í umhverfismálum eins og þjóðfundurinn 2010 og stjórnlaganefnd kölluðu eftir í samræmi við síaukna meðvitund almennings um náttúruvernd og nauðsyn hennar. Stjórnlagaráði bárust fjölmörg erindi frá einstaklingum og samtökum varðandi náttúruvernd. Sífellt ítarlegri og afdráttarlausari ákvæði um umhverfi og náttúru er nú smám saman að finna í stjórnarskrám æ fleiri erlendra ríkja, þar eð skilningur á mikilvægi umhverfis fyrir heilbrigði og afkomu mannkyns fer vaxandi. Ákvæðin fjalla yfirleitt um réttindi núlifandi og komandi kynslóða til óspilltrar náttúru, og hefur þeim sums staðar verið komið fyrir meðal mannréttindaákvæða í stjórnarskrám. Stjórnlagaráð kaus að fara þessa leið.

Frumvarp Stjórnlagaráðs geymir tvö ákvæði um náttúruvernd.

Fyrra ákvæðið (33. gr. Náttúra Íslands og umhverfi) hljóðar svo:

„Náttúra Íslands er undirstaða lífs í landinu. Öllum ber að virða hana og vernda.

Öllum skal með lögum tryggður réttur á heilnæmu umhverfi, fersku vatni, ómenguðu andrúmslofti og óspilltri náttúru. Í því felst að fjölbreytni lífs og lands sé viðhaldið og náttúruminjar, óbyggð víðerni, gróður og jarðvegur njóti verndar. Fyrri spjöll skulu bætt eftir föngum.

Nýtingu náttúrugæða skal haga þannig að þau skerðist sem minnst til langframa og réttur náttúrunnar og komandi kynslóða sé virtur.

Með lögum skal tryggja rétt almennings til að fara um landið í lögmætum tilgangi með virðingu fyrir náttúru og umhverfi.“

Ákvæðið tengir umhverfisrétt við mannréttindi. Í því felst viðurkenning á, að óspillt umhverfi heyrir til lífsgæða og mannréttinda. Ákvæðið setur Alþingi fyrir markmið lagasetningar um nýtingu náttúrunnar á þann veg, að hvorki verði gengið á rétt náttúrunnar né komandi kynslóða í landinu. Náttúrunni er veittur sjálfstæður réttur og vernd til mótvægis við gamlar hugmyndir um rétt mannsins til náttúrunnar. Þessi nýja hugsun helzt í hendur við alþjóðlega vitundarvakningu varðandi sjálfstæðan rétt náttúrunnar. Þjóðir Suður-Ameríku, einkum Bólivía og Ekvador, hafa riðið á vaðið og veitt náttúrunni víðtæka vernd til mótvægis við nýtingarmöguleika íbúanna. Ákvæðinu um, að fyrri spjöll skuli bætt eftir föngum er m.a. ætlað að laða löggjafann til að girða fyrir lausagöngu búfjár, svo sem ný kvikmynd Herdísar Þorvaldsdóttur leikkonu, Fjallkonan hrópar á vægð, kallar eftir með áhrifaríkum hætti.

Sambærileg ákvæði um náttúruvernd eru víða í erlendum stjórnarskrám. Norska stjórnarskráin kveður á um, að „sérhver maður eigi rétt til heilnæms umhverfis og náttúru þar sem gróska og fjölbreytni eru vernduð“. Sænska stjórnarskráin skyldar stjórnvöld til að stuðla að sjálfbærri þróun. Í Finnlandi segir: „Náttúran og fjölbreytileiki lífríkisins, umhverfið og þjóðararfurinn eru á ábyrgð allra.“ Svisslendingar segja, að stefnt skuli að langvinnu jafnvægi milli náttúrunnar, einkum varðandi getu hennar til endurnýjunar og nýtingar af hálfu mannsins. Franska stjórnarskráin kveður á um fortakslausan rétt sérhvers manns til að „lifa í heilsusamlegu umhverfi þar sem ríkir jafnvægi“. Í Frakklandi er jafnframt tekið fram, að hverjum manni beri að stuðla að því að bæta úr skaða, sem hann veldur umhverfinu.

Síðara ákvæðið (35. gr. Upplýsingar um umhverfi og málsaðild) hljóðar svo:

„Stjórnvöldum ber að upplýsa almenning um ástand umhverfis og náttúru og áhrif framkvæmda þar á. Stjórnvöld og aðrir skulu upplýsa um aðsteðjandi náttúruvá, svo sem umhverfismengun.

Með lögum skal tryggja almenningi aðgang að undirbúningi ákvarðana sem hafa áhrif á umhverfi og náttúru, svo og heimild til að leita til hlutlausra úrskurðaraðila.

Við töku ákvarðana um náttúru Íslands og umhverfi skulu stjórnvöld byggja á meginreglum umhverfisréttar.“

Þessu ákvæði er m.a. ætlað að gera almenningi og hagsmunasamtökum kleift að leita til dómstóla varðandi ákvarðanir stjórnvalda, sem áhrif hafa á umhverfi og náttúru. Ákvæðinu er ætlað að girða fyrir, að slíkum málum verði vísað frá dómi á grundvelli skorts á lögmætum hagsmunum.