Fréttablaðið
17. mar, 2011

Olíuspjallakenningin

Nígería, langfjölmennasta ríki Afríku, lýsti yfir sjálfstæði 1960. Fyrsta áratuginn eftir sjálfstæðistökuna jókst landsframleiðsla á mann í Nígeríu meira en helmingi hraðar en hún gerði eftir það. Vöxturinn hægði á sér þrátt fyrir mikla aukningu útflutningstekna eftir 1970, þegar olía varð langhelzta útflutningsafurð landsins og olíuverð margfaldaðist á heimsmarkaði. Hvers vegna hægði hagvöxturinn á sér? Olían gerði okkur að letingjum, sagði fjármálaráðherra landsins í blaðaviðtali. Ráðherrann var ekki að tala um bændur, bílstjóra, sjómenn og verkamenn. Hún var að tala um herforingjana og stjórnmálamennina, sem margir hafa skarað eld að eigin köku og staðið framsókn landsins fyrir þrifum.

Nígeríu hefur ekki haldizt vel á olíuauðinum. Fólkið í landinu – 150 milljónir manns – er því litlu betur sett nú en fyrir olíufundina. Það lifir að vísu tíu árum lengur að jafnaði og hefur nú 500 Bandaríkjadali í árstekjur að jafnaði borið saman við 300 dollara 1960. Ekki getur það kallazt ríkulegur afrakstur af olíulindunum. Meðalævi fólksins í grannlöndunum Benín og Tógó hefur lengzt um 18 til 21 ár á sama tíma. Þar geta nýfædd börn nú vænzt þess að komast á sjötugsaldur, en meðalævin í Nígeríu er enn ekki nema 48 ár á móti 57 í öðru grannlandi, Gönu. Mörg önnur olíulönd hafa svipaða sögu að segja og Nígería af ófriði, spillingu og stöðnun, þar á meðal Alsír, Angóla, Gabon, Írak, Íran, Líbía, Mexíkó, Miðbaugs-Gínea, Sádi-Arabía, Súdan og Venesúela. Hvers vegna? Um það fjallar olíuspjallakenningin.

Því hefur verið haldið fram, að tekjum Nígeríu af olíulindunum þurfi að koma úr höndum spilltra stjórnvalda í traustar einkahendur. Ekki er sú lausn lokkandi í ljósi gamallar og nýrrar reynslu af ófyrirleitnu einkaframtaki í Nígeríu og víða annars staðar. Vandinn hér er sá, að einkaframtakið er ekki óskeikult frekar en almannavaldið. Hugleiðum einfalda líkingu til skýringar. Ef dómarar reynast spilltir, ráðumst við þá gegn vandanum með því að einkavæða dómskerfið? Nei, auðvitað ekki. Lausnin hlýtur að felast í að ýta spilltum dómurum til hliðar og hreinsa til í dómskerfinu innan ramma réttarríkisins til að tryggja óhlutdrægni dómstólanna.

Verði einkaframtaksleiðin eigi að síður fyrir valinu í olíubúskap Nígeríu, skiptir miklu, hverjum í einkageiranum er veittur aðgangur að olíutekjunum og á hvaða kjörum. Sé olíutekjunum líkt og í Alaska skipt jafnt á milli fólksins í landinu, réttmæts eiganda olíulindanna samkvæmt alþjóðlegum mannréttindasáttmálum, getur sú ráðstöfun talizt réttlát, þótt ekki sé hún endilega hagkvæm. En sé aðgangur að olíulindunum skammtaður útvöldum hópi manna líkt og gert var við kvótann hér heima, er sú málsmeðferð hvorki réttlát né hagkvæm. Fiskiveiðistjórnarkerfið hér heima brýtur gegn stjórnarskránni samkvæmt dómi Hæstaréttar frá 1998 og gegn sáttmála Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi samkvæmt úrskurði mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna 2007. Ríkisstjórnin stendur enn gneyp frammi fyrir úrskurði mannréttindanefndarinnar og á við honum ekkert svar.

Í hverju felast spjöllin, sem glannaleg umgengni við olíulindir hefur leitt yfir svo mörg lönd? Í fyrsta lagi hneigist uppsveifla í útflutningstekjum í kjölfar olíufunda til að hækka gengi gjaldmiðilsins og bitnar þannig á öðrum útflutningsatvinnuvegum. Þetta er hollenzka veikin í hnotskurn, en hún ætti kannski heldur að kallast íslenzka veikin í ljósi þess, hversu fá íslenzk iðnfyrirtæki hafa náð fótfestu á erlendum mörkuðum við hlið sjávarútvegsins, sem þolir mun hærra gengi krónunnar en aðrir atvinnuvegir í krafti nær ókeypis aðgangs að fiskimiðunum. Hátt gengi hamlar hagvexti alveg eins og lágt gengi örvar hagvöxt líkt og í Kína síðustu ár. Í annan stað stuðlar mikill olíuútflutningur að sveiflum í útflutningstekjum og í efnahagslífinu yfirleitt, og sveiflugangur bitnar á hagvexti. Í þriðja lagi laða olíulindir að stjórnmálastörfum menn, sem oftlega hafa meiri áhuga á að maka krókinn en láta gott af sér leiða. Lýðræði er sjaldgæft í olíulöndum. Farsælasta olíuríki heims er Noregur, enda stóð lýðræðisskipanin þar föstum fótum löngu áður en olían fannst. Í fjórða lagi hneigjast olíulönd til að fyllast falskri öryggiskennd og slá slöku við menntun.

Við Íslendingar hefðum átt að stjórna fiskveiðum okkar líkt og Norðmenn stýrðu olíulindunum með því að virða þjóðareignarákvæði alþjóðlegra mannréttindasáttmála og byggja upp auðlindasjóð. Þess í stað þess var tekinn sá kostur að mylja undir útvegsmenn og gera þeim kleift að kaupa stjórnmálamenn í kippum líkt og Styrmir Gunnarsson fyrrum ritstjóri Morgunblaðsins lýsti með þessum orðum í bók sinni Umsátrið (2009, bls. 206): „Handhafar kvótans … höfðu líf plássanna í hendi sér. … Það jafngilti pólitísku sjálfsmorði að rísa upp gegn handhafa kvóta á landsbyggðinni.“ Samkvæmt lýsingu Styrmis stafar lýðræðinu ógn af útvegsmönnum.

Gana býst nú til að flytja út olíu í stórum stíl. Ríkisstjórn Gönu er áfram um að sækja sér fyrirmyndir til Noregs frekar en Nígeríu. Íslendingar hefðu þurft að fara eins að. Yfirráð gönsku þjóðarinnar yfir auðlindum sínum eru tryggð í stjórnarskrá til frekari staðfestingar á alþjóðlegum mannréttindaákvæðum.