11. sep, 2019

OECD: Framleiðsla á mann og vinnustund 2018

(Kaupmáttur landsframleiðslu á mann og vinnustund 2018 í Bandaríkjadollurum)

Samtök atvinnulífsins birtu furðufrétt 4. september 2019 sem hefst svona: „Meðallaun á Íslandi voru hæst meðal OECD-ríkjanna árið 2018. Meðallaunin voru 66.500 Bandaríkjadollarar en næst komu Lúxemborg með tæplega 65.500 og síðan Sviss með rúmlega 64.000 dollara. Meðallaun á öðrum Norðurlöndum voru allmiklu lægri eða rúmlega 55.000 í Danmörku, 51.000 í Noregi og 44.000 í Svíþjóð og Finnlandi.“ Samtökin tilgreina OECD sem heimild. Þau virðast trúa því — eins og Viðskiptaráð gerði 2008! — að Íslendingar hafi nú aftur stungið Bandaríkin, Lúxemborg og Sviss af í efnahagslegu tilliti, a.m.k. á þennan nýstárlega meðallaunakvarðaað ekki sé talað um Norðurlönd. Samtökin virðast nú, eins og Viðskiptaráð 2008, telja Ísland standa „þeim framar á flestum sviðum„.

Réttar upplýsingar frá OECD birtast á myndunum tveim að ofan. Myndin t.v. sýnir landsframleiðslu á hverja vinnustund og sýnir Ísland í miðjum hlíðum. Staða Íslands er þó veikari en myndin sýnir vegna þess að gengi krónunnar er nú einu sinni enn of hátt og á því eftir að lækka með minnkandi útflutningstekjum og draga Ísland niður eftir listanum auk þess sem nýtt og mun lægra mat Hagstofu Íslands á vinnutíma Íslendinga virðist tortryggilegt. Hagstofan heldur því nú fram að Íslendingar vinni engu lengri vinnuviku að jafnaði en aðrar Norðurlandaþjóðir yfirleitt, en það stangast á við fyrri upplýsingar og það sem augað sér eða þykist sjá á vettvangi. Myndin t.h. sýnir landsframleiðslu á mann þar sem Ísland er ofan við Danmörku, Svíþjóð og Finnland en auðvitað langt fyrir neðan Lúxemborg, Írland, Sviss, Noreg og Bandaríkin. Staða Íslands er einnig ofmetin á myndinni t.h. þar eð gengi krónunnar er of hátt. Gengisfall á eftir að draga Ísland niður eftir þessum lista líka. Við höfum séð þetta allt saman áður, síðast með miklum hvelli 2008. En Samtök atvinnulífsins sitja föst við sinn keip.