DV
30. nóv, 2012

Ný viðhorf í Evrópu

Ég verð þess var á ferðum mínum, að Ísland nýtur nú minni hylli en áður í hugum þeirra, sem búast til að bjóða Íslendinga velkomna inn í ESB, ef þjóðin ákveður að ganga þangað inn, þegar þar að kemur. Slík Íslandsþreyta þarf ekki að koma neinum á óvart. Vanþóknun er venjulega gagnkvæm. Íslendingum finnst sumum, að verið sé að bjóða þeim inn í brennandi hús og ESB þurfi að slökkva eldana, áður en óhætt sé að ganga inn. ESB hugsar sitt á móti: Hver nennir að taka á móti nýju aðildarlandi, sem þurfti neyðarhjálp frá AGS og Norðurlöndum og þykist nú – með útbrunnar eldspýtur í höndunum – vera þess umkomið að setja sig á háan hest og tala um brennandi hús?

Vandinn er ekki bundinn við Ísland. ESB stendur frammi fyrir alvarlegasta fjárhagsvanda, sem sambandið hefur þurft að glíma við frá öndverðu. Hjón í fjárhagskröggum, sem þau sjá ekki fyrir endann á, láta það yfirleitt ekki hvarfla að sér að ættleiða börn. Vandi ESB nú er ekki bundinn við skuldakreppu Grikklands, Írlands og fleiri aðildarlanda, heldur snýr hann einnig t.d. að Búlgaríu og Rúmeníu, sem eiga enn sem komið er fátt sammerkt með öðrum ESB-löndum annað en landfræðilega legu. Umræðan innan ESB nú snýst um að hægja á útvíkkun sambandsins og verja heldur kröftunum í að treysta og tryggja samstarf þeirra landa, sem þegar eru gengin inn.

Víðtækt samkomulag ríkir innan ESB um nauðsyn þess að efla samstarfið á vettvangi ríkisfjármála, þannig að fjárhagsvandi í einu landi stofni öðrum aðildarlöndum ekki í voða. Landlægar kröggur Kaliforníu hafa aldrei kveikt þá hugmynd, að Kalifornía ætti að segja skilið við Bandaríkin eða Bandaríkjadollarann. ESB þarf að koma ríkisfjármálum aðildarlandanna svo fyrir, að sama gildi þar. Þessu þarf ekki endilega að fylgja samruni ESB-landanna í eitt ríki eins og vestra. Nú er unnið að því að kortleggja, hversu náið samstarf í ríkisfjármálum innan ESB þurfi til að ná settu marki. Nánara samstarf í bankamálum er einnig talið nauðsynlegt, þar með talið samevrópskt bankaeftirlit.

Þessi vinna hefði þurft að fara fram, áður en evran var tekin í notkun, því að fyrir lá strax í upphafi, að sameiginleg mynt útheimtir náið samstarf í ríkisfjármálum. ESB lét undir höfuð leggjast að vinna þessa heimavinnu í tæka tíða. Upptaka evrunnar var öðrum þræði pólitísk yfirlýsing ESB um ríkan samstarfsvilja. Hagfræðilegar forsendur evrunnar höfnuðu milli stafs og hurðar. Þessi vanræksla kemur ESB nú í koll.

Vanrækslusyndir ESB eru fleiri, ef að er gáð. Grikklandi var hleypt inn í ESB 1981, sjö árum eftir fall herforingjastjórnarinnar 1967-74. Ákvörðunin var í reyndinni pólitísk. Tilgangurinn var að treysta lýðræði í Grikklandi, vöggu lýðræðisins. Því þótti ekki fara vel á að leggja hart að Grikkjum að taka sér tak í efnahagsmálum og láta af ýmsum ósiðum. Þýzkir bankar mokuðu lánsfé inn í Grikkland. Þjóðverjar bera því hluta ábyrgðarinnar á skuldavanda Grikklands. Þýzka stjórnin hefði átt að beita hraðahindrunum til að hægja á útlánum þýzkra banka til að reyna að draga úr líkum þess, að þeir kæmu sjálfum sér og öðrum í vandræði. Því þykir mörgum eðlilegt, að þýzkir bankar og þýzkir skattgreiðendur beri hluta kostnaðarins við að koma Grikklandi aftur á réttan kjöl.

Svo er eitt enn. Brezka ríkisstjórnin sýnir nú merki þess, að hún kunni að sjá sér hag í að endurskoða aðildarsamning Breta við ESB eða taka jafnvel hatt sinn og staf og ganga út. Skoðanakannanir benda til, að Bretar kynnu að ákveða þetta milliliðalaust í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ekki er víst, að Skotar myndu láta bjóða sér slík málalok. Margir Skotar líta á Norðurlönd sem fyrirmynd ólíkt Englendingum, sem horfa heldur vestur um haf. Skotland sameinaðist Englandi 1707 til að öðlast aðgang að stærri markaði. Þessi forsenda sameiningarinnar 1707 á ekki lengur við, þar eð Skotland þarf ekki lengur á Englandi að halda í þessu skyni. Skotland í Evrópu hefur lengi verið helzta vígorð skozkra þjóðernissinna, sem hafa nú meiri hluta í skozka þinginu í Edinborg. Úrslit fyrirhugaðrar þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotlands 2014 gætu ráðizt af ákvörðun ríkisstjórnarinnar í London um Evrópumálið. Með því að ákveða að yfirgefa ESB gætu Englendingar knúið Skota til að lýsa yfir sjálfstæði 2014 til að geta haldið í aðild Skotlands að ESB. Það yrði saga til næsta bæjar, ef Englendingar, undir forustu íhaldsmanna, yrðu til þess að knýja Skota til að taka sér sjálfstæði.