DV
23. mar, 2012

Ný stjórnarskrá þokast nær

Meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis hefur lagt fyrir þingið tillögu til þingsályktunar um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur Stjórnlagaráðs að frumvarpi til nýrrar stjórnarskrár og tiltekin álitaefni þeim tengd. Þingályktunartillagan hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að tillögur að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga sem stjórnlagaráð afhenti forseta Alþingis 29. júlí 2011 og álitaefni þeim tengd skuli borin upp í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu …

Þjóðaratkvæðagreiðslan fari fram samhliða forsetakosningum 30. júní 2012.

Eftirfarandi spurningar verði bornar upp í þjóðaratkvæðagreiðslunni:

1. Vilt þú að tillaga stjórnlagaráðs verði lögð fram sem frumvarp að nýrri stjórnarskrá eftir að hún hefur verið yfirfarin með tilliti til laga og alþjóðasamninga?

Merktu í reitinn fyrir framan þann valmöguleika sem þú kýst.

* Já, ég vil að tillaga stjórnlagaráðs verði lögð fram sem frumvarp að nýrri stjórnarskrá eftir að hún hefur verið yfirfarin með tilliti til laga og alþjóðasamninga.

* Nei, ég vil ekki að tillaga stjórnlagaráðs verði lögð fram sem frumvarp að nýrri stjórnarskrá.

* Tek ekki afstöðu.

2. Einnig ertu beðin(n) um að svara nokkrum efnislegum spurningum um nýja stjórnarskrá.

 Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá Íslands verði Nei Tek ekki
afstöðu
    1. náttúruauðlindir lýstar þjóðareign?
    2. ákvæði um þjóðkirkju Íslendinga óbreytt frá því sem nú er ?
    3. persónukjör í kosningum til Alþingis heimilað í meira mæli en nú er?
    4. ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt?
    5. ákvæði um að tiltekið hlutfall kosningabærra manna geti krafist

þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu?
Ef já, hve hátt finnst þér að þetta hlutfall ætti að vera?

 

 

* 10%
* 15%
* 20%

Sex spurningar, sex svör

Ég greiddi í Stjórnlagaráði atkvæði með frumvarpi ráðsins í heild eins og allir aðrir ráðsfulltrúar og einnig með öllum einstökum greinum frumvarpsins lið fyrir lið, og ég ætla að ráðstafa atkvæði mínu í þjóðaratkvæðagreiðslunni 30. júní í samræmi við það. Ég ætla því efst á kjörseðlinum að merkja við „Já, ég vil að tillaga stjórnlagaráðs verði lögð fram sem frumvarp að nýrri stjórnarskrá …“

Spurningunum fimm á neðri hluta seðilsins ætla ég að svara svo.

Vilt þú, að í nýrri stjórnarskrá verði náttúruauðlindir lýstar þjóðareign? Já, þetta er eitt mikilvægasta ákvæði frumvarpsins og svarar kalli þjóðfundarins 2010 og stefnu allra stjórnmálaflokka á Alþingi.

Vilt þú, að ákvæði um þjóðkirkju Íslendinga verði óbreytt frá því sem nú er? Nei, ég tel ákvæðið í frumvarpi Stjórnlagaráðs betra. Óbreytt skipan myndi þó ekki raska frumvarpinu að öðru leyti.

Vilt þú, að persónukjör í kosningum til Alþingis verði heimilað í meira mæli en nú er? Já, þetta er snar þáttur í kosningaákvæðinu í frumvarpi Stjórnlagaráðs og svarar kalli þjóðfundarins 2010.

Vilt þú, að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt? Já, þetta er ásamt auðlindaákvæðinu eitt mikilvægasta ákvæði frumvarpsins.

Vilt þú, að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að tiltekið hlutfall kosningabærra manna geti krafizt þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu? Já, og mér finnst, að hlutfallið eigi að vera 10% eins og frumvarp Stjórnlagaráðs kveður á um. Hærra hlutfall, 15% eða 20%, myndi leiða til færri þjóðaratkvæðagreiðslna eða engra fyrir frumkvæði kjósenda, ef marka má reynsluna utan úr heimi, en það myndi þó ekki raska frumvarpi Stjórnlagaráðs að öðru leyti.