30. ágú, 2019

Norðurlönd: Lífskjarasamanburður í hnotskurn

Mynd 1 sýnir kaupmátt landsframleiðslu á mann á Norðurlöndunum fimm í dollurum á ári. Þetta er sama mynd og sýnd er undir heitinu Eftirbátur Norðurlanda annars staðar á Krítartöflunni. Mynd 2 sýnir fjölda vinnustunda á mann á ári. Hún sýnir, að Íslendingar vinna miklu lengri vinnuviku — þ.e. þurfa að hafa miklu meira fyrir því að ná endum saman — en tíðkast annars staðar um Norðurlönd, auk þess sem mun hærra hlutfall mannaflans er starfandi hér en á öðrum Norðurlöndum. Mynd 3 sýnir hlutfallið milli talnanna á fyrri myndunum tveim, þar eð landsframleiðsla á mann (mynd 1) deilt með vinnustundum á mann (mynd 2) jafngildir landsframleiðslu á hverja vinnustund, og það er skásti hagræni lífskjarakvarðinn, sem völ er á. Mynd 3 sýnir, að Ísland byrjaði að dragast aftur úr öðrum Norðurlöndum löngu fyrir hrun. Íslendingar eru hálfdrættingar á við Norðmenn mælt í landsframleiðslu á mann, en þá er fyrirhöfnin á bak við tekjuöflunina af völdum heimabakaðrar, langvinnrar óhagkvæmni (fákeppni, sukk og spilling o.s.frv.) ekki tekin með í reikninginn. Mælt í landsframleiðslu á hverja vinnustund, sem er skárri lífskjarakvarði, eru Íslendingar ekki nema rösklega hálfdrættingar á við Dani líkt og var um aldamótin 1900. Kaupmáttur landsframleiðslu á hverja vinnustund á Íslandi er nú ekki nema röskur þriðjungur af kaupmætti á hverja vinnustund í Noregi. Engin furða, að Norðmenn flykkjast ekki til Íslands. Þess vegna m.a. birti ég bók með heitinu Síðustu forvöð 1995. Myndirnar að ofan eru úr ritgerð minni „Iceland: How Could This Happen?“, sem mun birtast í bók hjá Oxford University Press 2014. Þar eru margar aðrar myndir, sem fá hárin til að rísa á höfði lesandans. Farið ekki langt.

Heimildir: Alþjóðabankinn, World Development Indicators (mynd 1), The Conference Board Total Economy Database™, janúar 2013, http://www.conference-board.org/data/economydatabase/ (mynd 2). Mynd 3 er reist á fyrri tveim myndunum. Myndir 2 og 3 hefjast 1990, þar eð vinnustundatölurnar, eða réttar sagt vinnuþátttökutölurnar, sem þær styðjast við, ná ekki lengra aftur.