DV
3. okt, 2014

Norðurland í ljóma

Um daginn fór ég ásamt konu minni akandi langt norður í land, og er skemmst frá því að segja, að fjórðungurinn skartaði sínu fegursta í skínandi veðri, svo að hvergi bar skugga á, hvorki á landið né fólkið. Ég hægi alltaf ferðina í Vatnsskarðinu, þar sem ég var sex löng og sælurík sumur í sveit hjá góðu frændfólki, þegar ég var strákur. Þar var kveðið við heyskapinn á daginn og einnig á kvöldin og mikið spilað og sungið, m.a.s. í fjósinu til að drýgja nytina í kúnum. Mér hefur æ síðan þótt Valadalshnúkur, sem blasir við bænum handan þjóðvegarins, vera afbragð annarra fjalla og engu síðri að allri fegurð en Borðfjall í Suður-Afríku eða Esjan eða píramítar Egyptalands.

Skammt frá Vatnsskarði stendur minnisvarðinn um Stephan G. Stephansson við þjóðveginn, og má það heita skylda góðra Skagfirðinga að á við styttuna og skála fyrir skáldinu, nema bílstjórinn er yfirleitt undanþeginn. Ættjarðarást Stephans G. dofnaði ekki við búferlaflutninginn til Vesturheims, þar sem hann eyddi mestum hluta ævinnar, öðru nær. Hann var þjóðrækinn umbótamaður í húð og hár. Þegar hann kom aftur til Íslands í stutta heimsókn 1917, leit hann við hjá afa mínum og skáldbróður sínum Þorsteini Gíslasyni ritstjóra í Þingholtsstræti 17. Afa mun hafa þótt Stephan G. helzt til umbótaglaður. Samt hafði djarfur umbótahugur afa míns frá yngri árum ekki dofnað meira en svo í viðstöðulausu vopnaskaki stjórnmálanna á heimastjórnarárunum, að hann skrifaði forsíðuleiðara í blað sitt Lögréttu 1919 og mælti fyrir innflutningi erlends vinnuafls í stórum stíl. Þar segir:

„Við höfum ráðin og stjórnina og gætum heft innflytjendastrauminn, hvenær sem okkur sýndist svo, ef okkur virtist hann ætla að vaxa okkur yfir höfuð. Við höfum yfirhöfuð öll skilyrði til að halda við máli okkar og menningu og gera þeim mönnum, sem til langdvala settust hér að, girnilegast að tileinka sér hvort tveggja. Í stað þess að óttast, að tunga okkar hlyti að týnast, ef útlendir verkamenn flyttust inn í landið, ættum við að hafa það traust á sjálfum okkur, að við einmitt með þessu gætum fjölgað mælendum hennar um þúsundir, ef ekki tugi þúsunda.“ Afi minn fæddist á Árskógsströndinni. Hann vildi virkja fossa líkt og Einar Benediktsson skáld, sem hefði orðið 150 ára síðar í haust.

Mér varð fyrir norðan einnig hugsað til langafa konu minnar, Sveins Gunnarssonar bónda og skálds frá Mælifellsá í Skagafirði, sem fór fótgangandi um hálft landið í öllum veðrum að selja bækur. Hann brá síðan búi, þar eð hann þoldi ekki allan barnamissinn, sem margar fjölskyldur máttu þola líkt og þau hjónin. Hann fluttist til Reykjavíkur, stundaði verzlun um tíma í söluturninum, sem stendur enn á Lækjartorgi, og bjó þar um skeið á efri hæðinni. Sjálfsævisaga hans, Veraldarsaga Sveins frá Mælifellsá, er glaðleg heimild um horfna tíð.

Ísland á enn í vök að verjast eins og við var að búast eftir allt, sem á undan er gengið, og landsbyggðin ekki sízt, því að borgirnar eru ævinlega burðarásinn í efnahagslífinu, þar eð þéttbýli fylgir hagræði, sem dreifðar byggðir eiga skv. eðli máls ekki völ á í sama mæli. Þeim mun gleðilegra var að sjá haustrjóðar sveitirnar norðan heiða baða sig í sólinni, heimsækja bændur og listamenn og Háskólann á Akureyri og kynnast gróskunni í starfinu þar. Þar heyrði ég Gissur Ó. Erlingsson dósent í Linköping í Svíþjóð flytja skínandi góðan fyrirlestur um spillingu í Svíþjóð og á Íslandi. Við heimsóttum bændur í Fnjóskadal í Dalsmynni, það er frekar fáfarinn dalur úr alfaraleið, en fagur með afbrigðum. Við heimsóttum einnig Aðalheiði Eysteinsdóttur myndlistarmann í Freyjulundi skammt frá Akureyri, en hún vinnur að tilkomumiklum tréverkum sínum ýmist þar eða á Siglufirði. Við hittum einnig æðarbændur á Akureyri, þau sækja dúninn í Skagafjörð, og hlýddum á Kristin Sigmundsson óperusöngvara, Bryndísi Höllu Gylfadóttur sellóleikara, Jónas Ingimundarson píanóleikara og Kristján Hreinsson skáld og heimspeking leika listir sínar fyrir fullu húsi í Bergi á Dalvík, einu þokkafyllsta menningarhúsi landsins. Við hittum lögregluna á Blönduósi á leiðinni heim.