Fréttablaðið
25. okt, 2007

Nöfn segja sögu

Það var 1963, að jörðin byrjaði að skjálfa úti fyrir suðurströnd landsins, nálægt Vestmannaeyjum. Þetta leit ekki vel út í byrjun: sumir óttuðust, að risaöldur utan af hafi myndu drekkja allri byggð á Suðurlandsundirlendinu. Þetta fór þó betur en á horfðist. Ný eyja sótsvört hafði ekki fyrr skotið upp kollinum en ákafar umræður hófust um hvað hún ætti að heita. Eyjan hlaut nafnið Surtsey, en hún hefði heldur átt að heita Presley.

Nöfn skipta máli. Í höfuðborg Namibíu þar sem heitir Vindhögg eru helztu götur skírðar í höfuðið á evrópskum afburðamönnum frá fyrri tíð. Ein heitir eftir Shakespeare, önnur eftir Florence Nightingale, í stóru hverfi heita strætin eftir Bach og Beethoven og Brahms og Mozart og Schubert og Strauss. Verdi er á sínum stað, en Wagner fann ég ekki. Eðlisfræðingarnir fá sinn skammt: Max Planck og Niels Bohr liggja þarna hlið við hlið skammt frá sjálfum Werner von Braun fyrir nú utan Galileo Galilei og Isaac Newton. Namibía var þýzkt yfirráðasvæði, þaðan eru nafngiftirnar runnar, en heimamenn sýna engin merki þess, að þeir ætli að skipta þessari evrópsku arfleifð út. Það líkar mér. Hitt þykir mér lakara, að eitt lengsta breiðstræti borgarinnar er kennt við Róbert Múgabe, forseta Simbabve, og annað er kennt við Fídel Kastró: þeir eru boðflennur.

Við þekkjum þessa skírnarvenju. Göturnar í gamla austurbænum í Reykjavík heita í höfuðið á Njáli á Bergþórshvoli og Bergþóru, Gunnari á Hlíðarenda, Gretti Ásmundarsyni og Agli Skalla: þessi nöfn henta vel til heimabrúks, því að Íslendingum duga fornöfn þessa fólks; föðurnöfnin bæta engu við. Ingólfur Arnarson og Skúli fógeti, höfundar Reykjavíkur, eru hvor á sínum stað. Norrænu goðin Baldur, Bragi, Freyja, Nanna, Óðinn, Týr og Þór eru einnig til húsa í austurbænum. Ari fróði, Brynjólfur biskup Sveinsson og Sæmundur fróði búa í háskólahverfinu í vesturbænum. Snorrabraut heitir eftir Snorra Sturlusyni. Einarsnes í Skerjafirði heitir eftir Einari Benediktssyni. Halldór Laxness höfum við ekki enn á götuskiltum, ekki frekar en Jón Sigurðsson, Jónas Hallgrímsson, Matthías Jochumsson eða Jón Leifs, og þá ekki heldur Hannes Hafstein eða Valtý Guðmundsson. Halldór er enginn vandi: Suðurlandsbraut liggur til allra átta og ætti heldur að heita Laxnessbraut. Halldóri dygði að vísu fornafnið eitt, og einnig Matthíasi, Hannesi og Valtý, líkt og Njáli. Jón forseti er meiri vandi: menn gætu villzt á honum og til dæmis Jóni Arasyni eða Jóni Leifs.

Í Mapútó, höfuðborg Mósambíkur, heitir strandgatan meðfram blágrænu Indlandshafinu í höfuðið á Friedrich Engels, öðrum höfundi Kommúnistaávarpsins. Önnur gata þar heitir í höfuðið á hinum höfundinum, Karli Marx. Ekki nóg með það: ein breiðgatan heitir eftir Maó Tse Túng, einum umsvifamesta fjöldamorðingja sögunnar, og önnur heitir eftir Lenín, sem var litlu skárri. Sumar breiðgöturnar í Mapútó heita eftir Afríkuleiðtogum, sem lögðu löndin sín í rúst, og aðrar heita eftir sumum helztu skúrkum og skaðvöldum 20. aldar. Eitt torgið er meira að segja kennt við Róbert Múgabe. Frelsishetjurnar, sem leystu Mósambík undan nýlendukúgun Portúgala, kusu að marka sér stöðu við hlið misheppnaðra marxista með því að skíra götur og torg í höfuðið á þeim. Þegar Portúgalar hrökkluðust burt 1974, tóku marxistar völdin, og hófst þá blóðugt borgarastríð, og má vart á milli sjá, hvort fór verr með landið. Ég átti mér einskis ills von, þegar ég sveigði til vinstri af götunni, sem kennd er við Hó Sí Mín. Þá blasti við mér götuskilti með nafni Olofs Palme. Mér kom í hug sagan, sem Gordon Brown, forsætisráðherra Breta, hefur sagt af fundi sínum með Ronald Reagan í Hvíta húsinu fyrir mörgum árum. Talið barst að Palme, sem var þá nýfallinn fyrir morðingjahendi. Reagan sagði: I don‘t care for communists. Einn af mönnum Reagans hallaði sér að forsetanum og hvíslaði í eyra hans: Mr. President, Olof Palme was an anticommunist. Þá sagði Reagan: Well, I don‘t care what kind of a communist he was.

Götunöfn eru minningarmerki um liðna tíð. Fornafnahefðin gerir Íslendingum erfiðara um vik að skíra götur og torg eftir fólki en eftirnafnahefð annarra þjóða. Jónsforsetabraut væri ekki gott götunafn, ekki frekar en Helgamagrastræti. Við getum þó kennt fleiri götur og torg við fólk til að færa sögu landsins nær nútímanum, ef við viljum. Förum varlega. Byrjum á Laxnessbrautinni.