DV
17. okt, 2014

Nóbelsverðlaun í hagfræði

Nú eru 45 ár liðin síðan Nóbelsverðlaun voru fyrst veitt fyrir rannsóknir í hagfræði. Það var 1969. Þá hlutu verðlaunin Norðmaðurinn Ragnar Frisch og Hollendingurinn Jan Tinbergen, tímamótamenn báðir tveir, frumkvöðlar í tölfræðilegri hagfræði. Það er sá hluti hagfræðinnar, sem ber fræðin við raunveruleikann eins og hann birtist í hagtölum til að greina rangar tilgátur frá réttum líkt og tíðkast t.d. í eðlisfræði og líffræði. Ragnar Frisch hafði komið til Íslands upp úr 1960 til að vara Íslendinga við Efnahagsbandalagi Evrópu eins og það hét þá. Hann hafði trú á Sovétríkjunum og taldi þau mundu sigla fram úr Bandaríkjunum, en þess sá þó hvergi stað í hagrannsóknum hans. Frisch fór síðar eins og eldibrandur um Noreg, nýbakaður Nóbelsverðlaunahafi, til að vara Norðmenn við aðild að ESB fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna um málið 1972. Aðildin var felld. Sumum samferðamönnum hans þóttu ráð hans rýrari en rannsóknirnar (það var einnig sagt t.d. um Albert Einstein og marga aðra afburðamenn í vísindum), en Frisch var ekki verr að Nóbelsverðlaununum kominn fyrir því. Hagfræðingum leyfist ekki síður en t.a.m. eðlisfræðingum að hafa ólíkar skoðanir á stjórnmálum.

Árið eftir, 1970, hlaut verðlaunin frægasti hagfræðingur heimsins þá, Bandaríkjamaðurinn Paul Samuelson, prófessor á MIT, 55 ára að aldri. Hann hafði skrifað merkar ritgerðir á mörgum ólíkum sviðum hagfræðinnar og var jafnframt höfundur áhrifaríkustu hagfræðikennslubókar, sem þá hafði litið dagsins ljós. Bókin kom fyrst út 1948 og hefur æ síðan verið fyrirmynd annarra kennslubóka handa byrjendum í hagfræði. Ég hóf nám í hagfræði þetta sama haust, 1970, og las bók Samuelsons spjaldanna á milli og dálka hans og annarra í Newsweek í hverri viku. Samuelson hafði í doktorsritgerð sinni lagt grunninn að nálgun eðlisfræðinga að hagfræði, þ.e. að líkönum af frekar vélrænu samhengi hagstærða líkt og um tannhjól í vélasamstæðu væri að tefla. Sumir töldu þessa nálgun vafasama og töldu vænlegra fyrir hagfræðinga að sækja sér heldur fyrirmyndir til líffræðinga, þar eð þeir búa sér til líkön af lifandi verum, sem þróast með tímanum ýmist af sjálfsdáðum eða fyrir utanaðkomandi tilstilli. Þessi líffræðilega nálgun – að líta á markaði, stofnanir og aðra innviði samfélagsins líkt og lífverur – hefur ekki enn náð að skjóta rótum í meginstraumi nútímahagfræði. En Samuelson tók aðfinnslurnar alvarlega og varði síðustu árum ævinnar m.a. í líffræðirannsóknir. Hann andaðist í hárri elli 2009. Ég hitti þau hjónin fáeinum árum fyrr í New York. Konan hans hafði þá orð á því, að þegar þau lentu á flugvellinum, var flugstöðin sneisafull af ungu fagnandi fólki með hrossabresti og blikandi fána – ekki til að fagna honum, heldur Madonnu, sem lenti á vellinum um líkt leyti. Hann kímdi.

Samuelson hafði á yngri árum gert sér ferð til Oslóar að hitta Ragnar Frisch, og Frisch hafði boðið honum að koma að hitta sig í hagfræðideildinni að loknum vinnudegi. Samuelson kom á staðinn á tilskildum tíma fullur eftirvæntingar. Frisch bauð honum að taka sporvagninn með sér heim til að spjalla við hann og kvaddi hann síðan með virktum, þegar heim kom, og skildi hann eftir í sporvagninum.

Þessir menn voru meðal frumherja nútímans í hagfræði. Alls hafa 75 hagfræðingar verið sæmdir Nóbelsverðlaunum fyrir rannsóknir á flestum sviðum hagfræði frá 1969, flestir í þjóðhagfræði. Meðal þeirra eru 52 Bandaríkjamenn – Bandaríkin eru heimavöllur hagfræðinnar – og átta Bretar, þrír Frakkar, þrír Norðmenn, tveir Hollendingar, tveir Svíar, einn Indverji, einn Ísraeli, einn Kanadamaður, einn Rússi og einn Þjóðverji. Hér eru verðlaunahafarnir flokkaðir að mestu eftir háskólum, sem þeir vinna við, ekki fæðingarlöndum. Langflestir eru verðlaunahafarnir alls óþekktir meðal almennings, en sumir eru þó vel kunnir og þá aðallega fyrir aukastörf, einkum blaðaskrif, eins og t.d. Milton Friedman í Chicago og Paul Krugman á MIT, síðar í Princeton.

Fyrir nokkrum dögum tilkynnti Nóbelsnefndin í Stokkhólmi, að hagfræðiverðlaunin í ár hljóti Jean Tirole prófessor í Toulouse í Frakklandi fyrir rannsóknir á fákeppni og einokun og á eftirliti með fákeppnis- og einokunarfyrirtækjum. Rannsóknir Tiroles hafa drjúgt notagildi eins og hagfræðirannsóknir þurfa helzt að hafa. Þær hafa t.d. auðveldað stjórnvöldum í Evrópu að styrkja stöðu neytenda gagnvart kapalsjónvarpsfyrirtækjum, koma böndum á einokunarfyrirtæki og skerða getu krítarkortafyrirtækja til svimandi gjaldheimtu. Nóbelsnefndin sendir skýr skilaboð: Vel útfært eftirlit gerir gagn. Það er holl lexía nú, þegar bankar og önnur fjármálafyrirtæki hafa undangengin ár gengið berserksgang á kostnað skattgreiðenda og annarra saklausra vegfarenda án nægs aðhalds og eftirlits.

Það er einnig holl lexía og áminning handa ungu fólki og öðrum, að árvissar fréttir skuli berast frá Nóbelsnefndum af frækilegum árangri í fræðum og vísindum ekki síður en t.d. í íþróttum.