Viðskiptin efla alla dáð
4. jan, 1999

Náttúra, vald og vöxtur

Fjármagn er lykilstærð í hagstjórnarhugmyndasögu heimsins og í hagfræði yfirleitt. Nær alla þessa öld tókust tvær hagstjórnarstefnur á um hugi manna um heiminn og báðar kenndar við fjármagn. Miðstjórn og áætlunarbúskapur í Sovétríkjunum sálugu og í leppríkjum þeirra og víðar um veröldina hvíldu að miklu leyti á kenningum Karls Marx, sem hann setti fram m.a. í höfuðriti sínu og heitir Fjármagnið (á frummálinu: Das Kapital). Markaðsbúskapur er einnig kenndur við fjármagn, því að hann er útfærsla á fjármagnshyggju eða auðhyggju eins og það heitir á íslenzku (e. capitalism). Íslenzkir andstæðingar fjármagnshyggju og þeir, sem efast um hana, þótt þeir séu ekki endilega andvígir henni, kenna sig einnig óbeint við fjármagn, því að þeir höfða yfirleitt til félagshyggju. Fé skal það vera. Sem er ágætt, því að fjármagnshyggja og félagshyggja eru systur, þegar alls er gætt, og þeim getur komið saman eins og húsi í ljósum logum, ef menn kunna tökin á þeim báðum.