DV
1. jún, 2012

Náðun og sakaruppgjöf

Í 13. grein stjórnarskrárinnar frá 1944 segir svo: „Forsetinn lætur ráðherra framkvæma vald sitt.” Sú skoðun heyrðist í fjölmiðladeilunni 2004, að í þessum orðum fælist, að forsetinn gæti ekki neytt málskotsréttar síns skv. 26. grein stjórnarskrárinnar nema með undirskrift ráðherra, en þeirri skoðun var hafnað. Nær allir lögfræðingar og aðrir líta svo á, að forsetinn fari einn og óstuddur með málskotsréttinn. Ákvæðið um, að forsetinn láti ráðherra framkvæma vald sitt, felur eftir þessum skilningi í sér, að ráðherrann sér um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslunnar, ekki forsetinn.

Í 29. grein stjórnarskrárinnar frá 1944 segir svo: „Forsetinn getur ákveðið, að saksókn fyrir afbrot skuli niður falla, ef ríkar ástæður eru til. Hann náðar menn og veitir almenna uppgjöf saka.” Hvað þýðir það í þessu viðfangi ákvæði 13. greinar um, að forsetinn láti ráðherra framkvæma vald sitt? Þýðir það, að forsetinn þurfi samþykki ráðherra til að saksókn fyrir afbrot skuli falla niður og til að náða menn og veita þeim almenna uppgjöf saka? Flestir munu líta svo á þrátt fyrir orðanna hljóðan. Eða þýðir ákvæðið, að ráðherra skuli sjá til þess, að föngunum sé sleppt út, svo að forsetinn þurfi ekki að standa í því?

Reynslan af fjölmiðlamálinu 2004 sýnir, að hugsanlega gæti komið upp ágreiningur um þetta atriði, þar eð gildandi stjórnarskrá er óskýr. Sumir kynnu e.t.v. að túlka orð hennar svo, að forsetinn fari einn með náðunarvaldið líkt og málskotsréttinn. Aðrir munu segja, að forsetinn þurfi samþykki ráðherra til að náða menn. Árni Johnsen alþingismaður sótti um uppreist æru til dómsmálaráðherra, sem samþykkti hana ásamt þrem handhöfum forsetavalds í fjarveru forsetans. Samt er ekki hægt að útiloka þann möguleika, að forsetinn telji sig geta náðað menn og gefið þeim upp sakir upp á sitt eindæmi skv. orðanna hljóðan í gildandi stjórnarskrá. Þar er efinn.

Frumvarp Stjórnlagaráðs tekur af öll tvímæli um þetta atriði. Þar segir í 85. grein: „Forseti Íslands getur náðað menn og veitt almenna uppgjöf saka að tillögu ráðherra.” Forseti Íslands fer því ekki einn með náðunarvaldið. Ráðherra gerir tillögu að náðun og sakaruppgjöf, en tillaga ráðherra þarfnast staðfestingar forseta til að taka gildi. Hér er því engri óvissu til að dreifa og ekkert rúm fyrir ágreining.

Frumvarp Stjórnlagaráðs til nýrrar stjórnarskrár skýrir og afmarkar hlutverk forseta Íslands. Hlutverk forsetans er hættulega óljóst í gildandi stjórnarskrá. Þetta skiptir máli m.a. vegna þess, að vænta má dóma yfir bankamönnum og öðrum ábyrgðarmönnum hrunsins á næsta kjörtímabili forseta. Umboðsmaður forseta Íslands, Ólafs Ragnars Grímssonar, er enginn annar en Sigurður G. Guðjónsson hrl., sem hefur m.a. haft uppi harða gagnrýni á Fjármálaeftirlitið, sérstakan saksóknara og Evu Joly, sem kom fótunum undir embætti sérstaks saksóknara auk annars.

Frumvarp Stjórnlagaráðs miðar að því að treysta valdmörk og mótvægi og reisa eldveggi innan stjórnkerfisins. Í þessu felst, að þættir ríkisvaldsins þurfa að skarast til að efla gagnkvæmt aðhald og eftirlit og girða fyrir valdníðslu. Einmitt þess vegna getur forsetinn skv. frumvarpinu ekki „náðað menn og veitt þeim almenna uppgjöf saka“ upp á sitt eindæmi, heldur aðeins að tillögu ráðherra.

Öðru máli gegnir um málskotsréttinn, enda veitir hann forsetanum ekkert úrslitavald, heldur aðeins færi á að skjóta þingmálum til þjóðarinnar, sem hefur æðsta úrskurðarvald í öllum sínum málum og er því yfirboðari Alþingis. Enda segir í 2. grein frumvarps Stjórnlagaráðs: „Alþingi fer með löggjafarvaldið í umboði þjóðarinnar.” Til samanburðar segir í 2. grein gildandi stjórnarskrár: “Alþingi og forseti Íslands fara saman með löggjafarvaldið.” Takið eftir muninum.