DV
2. apr, 2012

Munu Skotar taka sér sjálfstæði?

Skotar íhuga nú að lýsa yfir fullu sjálfstæði og snúa af þeirri braut, sem þeir mörkuðu 1707, þegar England og Skotland sameinuðust undir einum kóngi í einu ríki, Stóra Bretlandi. Markmið Skota með sameiningunni 1707 var að tryggja Skotum aðgang að mörkuðum Englands og nýlendum Englendinga og einnig að efla frið, en löndin tvö höfðu eldað grátt silfur á fyrri tíð allar götur fram yfir aldamótin 1600.

En nú er öldin önnur. Bretland er í Evrópusambandinu. Skotar þurfa ekki lengur á Englendingum að halda til að tryggja sér aðgang að mörkuðum Englands eða annarra Evrópulanda, þar eð ESB-aðildin tryggir þann aðgang. „Skotland í Evrópu“ hefur lengi verið kjörorð skozkra þjóðernissinna. Skozki þjóðarflokkurinn hefur nú ríflegan meiri hluta í skozka þinginu, sem var endurreist 1999 sem liður í aukinni heimastjórn Skotlands. Flokkurinn hefur sjálfstætt Skotland efst á stefnuskrá sinni og stefnir að þjóðaratkvæði um málið 2014.

Skozka þjóðin er klofin í sjálfstæðismálinu líkt og Færeyingar. Margir Skotar óttast, að þeir muni ekki eiga auðvelt með að fóta sig á eigin spýtur, fimm milljóna þjóð á næsta bæ við 52 milljónir Englendinga. Sjálfstæðissinnar spyrja á móti: Hví skyldu Skotar ekki geta staðið á eigin fótum líkt og t.d. Danir, Finnar og Norðmenn, álíka fjölmennar þjóðir? Spurningin svarar sér sjálf.

Skotar hugsa að ýmsu leyti öðruvísi en Englendingar. Muninn má t.d. ráða af því, að brezki Íhaldsflokkurinn hefur lengi haft miklu minna fylgi í Skotlandi en á Englandi. Skotar taka t.a.m. ekki í mál að leyfa skozkum háskólum að innheimta skólagjöld af stúdentum, en háskólagjöld hafa rutt sér til rúms í Englandi síðustu ár. Margir Skotar líta í ríkari mæli en Englendingar til Norðurlanda um fyrirmyndir í ýmsum greinum. Þess vegna m.a. finnst mörgum Skotum eðlilegt að stíga skrefið til fulls og lýsa yfir óskoruðu sjálfstæði og setja sér um leið skriflega stjórnarskrá til að undirstrika sjálfstæðisyfirlýsingu sína og lýsa þar fyrir sjálfum sér og umheiminum, hvers konar samfélag þeir vilja byggja.

Bretland er eitt örfárra landa heimsins, sem hefur ekki sett sér skriflega stjórnarskrá. Sumir segja, að Bretar séu svo reglufastir, að þeir þurfi ekki stjórnarskrá, og vísa þá í þjóðaríþróttina, krikket. Þeir eiga við, að það séu ekki úrslit leiksins, sem skipta höfuðmáli, heldur gangur leiksins, leikreglurnar og virðingin fyrir þeim.

Hvernig færi með olíulindir Bretlands, ef Skotar tækju sér sjálfstæði? Í grófum dráttum má segja, að fjórðungur allrar olíu og jarðgass innan lögsögu Bretlands tilheyri Hjaltlandseyjum (Shetland Islands), 15% tilheyri Englendingum og 60% Skotum. Hjaltlendingar eru aðeins um 20.000 að tölu, svo að olíuauður þeirra er mikill á hvert mannsbarn. Olíusjóður eyjarskeggja er nú um 300 milljónir punda eða um 60 milljarðar króna. Það gerir næstum 12 mkr. á hverja fjögurra manna fjölskyldu á Hjaltlandseyjum. Arðinum af olíunni hefur verið varið til margvíslegrar uppbyggingar á eyjunum fyrir tilstilli almannavaldsins. Úr því að Skotar eiga fjórum sinnum drýgri hlutdeild í olíuauðnum en Englendingar, er olíuauður Skota á hvern íbúa fertugfaldur á við olíuauð Englendinga, sem eru tíu sinnum fleiri en Skotar.

Olíulindirnar skipta ekki sköpum. Ákvörðun Skota um sjálfstæðismálið mun ekki ráðast af olíuauðnum nema að litlu leyti. Hitt skiptir meira máli, að Skotum hefur að ýmsu leyti vegnað vel að undanförnu. Þeir hafa byggt upp nýja atvinnuvegi og standa nú framarlega í hátækni á heimsvísu. Skotland er ekki lengur bara viskí, vefnaðarvara og misheppnaður þungaiðnaður. Menningin blómstrar. Edinborg, höfuðborg Skotlands, er ein fegursta borg álfunnar og þykir jafnan vera bezti staður Bretlands að búa á. Glasgow er annar handleggur. Þar í borg eru þrjú fátækustu kjördæmi Bretlands, og þar er mannsævin að meðaltali styttri en víðast hvar annars staðar í Evrópu.