Fréttablaðið
3. maí, 2007

Misheppnuð sameining

Sameining stjórnmálaflokka tekst stundum vel, stundum ekki. Renni flokkar saman vegna þess, að breyttar aðstæður bjóða þeim að leggja gamlan ágreining til hliðar, getur hún tekizt vel, nema gamlir andstæðingar búi sér til nýjan ágreining eins og af gömlum vana. En renni ólíkir flokkar saman til þess eins að sameina krafta sína gegn sameiginlegum andstæðingum þrátt fyrir djúpstæðan innbyrðis ágreining um mikilvæg mál, þá er yfirleitt ekki góðs að vænta. Stjórnmálasaga Íslands á 20. öld og fram á þessa ber vitni.

Um hvaða flokk er ég að tala? Samfylkinguna? Nei. Það er of snemmt að fella dóm um hana. Hún hefur ekki enn átt aðild að ríkisstjórn. Hún er óskrifað blað. Ég á við Sjálfstæðisflokkinn. Sameining Frjálslynda flokksins, sem var að vísu rammur þjóðernisflokkur og reis ekki undir nafni nema til hálfs, og Íhaldsflokksins með stofnun Sjálfstæðisflokksins 1929 virðist í ljósi sögunnar hafa tekizt verr en vonir stóðu til. Þessi sameining dró dilk á eftir sér, svo að ekki sér enn fyrir endann á því ástandi, sem af henni leiddi. Þetta á ekki að þurfa að koma neinum á óvart. Frjálslynd öfl og íhaldsöfl eiga yfirleitt ekki heima í einum flokki. Það er enda algengast í nálægum löndum, svo sem Bretlandi, Danmörku, Svíþjóð og Þýzkalandi, að frjálslyndir hafi um sig sérstakan flokk og takist á við íhaldsmenn. Það er eðlileg skipan. Frjálslyndir flokkar horfa fram á við og aðhyllast markaðsbúskap og fríverzlun með sem fæstum hömlum, lýðræði og lítil ríkisafskipti. Þeir standa vörð um almannahag gegn þröngum sérhagsmunum. Þeir taka hag neytenda jafnan fram yfir hagsmuni framleiðenda. Íhaldsflokkar eru á hinn bóginn yfirleitt hallir undir ríkisafskipti og sérhagsmuni, einkum hagsmuni vinnuveitenda. Þeir standa vörð um óbreytt ástand og reyna yfirleitt ekki að leyna því, eins og íhaldsnafngiftin vitnar um.

Sameining Frjálslynda flokksins og Íhaldsflokksins í Sjálfstæðisflokknum 1929 varð til þess, að rödd frjálslynda armsins í flokknum kafnaði í faðmi íhaldsins. Óvíða í Vestur-Evrópu hafa sígild frjálslynd sjónarmið átt jafnörðugt uppdráttar og á Íslandi. Það var meðal annars fyrir máttleysi frjálslyndra, að erindrekum óprúttinna sérhagsmuna tókst að njörva Ísland í fjötra viðskiptahafta, markaðsfirringar og einangrunar frá 1930 til 1960. Það mátti vart á milli sjá, hvor stærstu flokkanna tveggja átti meiri þátt í því fráleita búskaparlagi, sem lagt var á fólkið í landinu öll þessi ár með illum afleiðingum, Sjálfstæðisflokkurinn eða Framsóknarflokkurinn. Aðrir flokkar voru þá að vísu litlu skárri. Hefði Frjálslyndi flokkurinn áfram verið sjálfstæður flokkur, hefði hann væntanlega streitzt gegn þessari óáran og eflzt af því. En sem visinn armur Sjálfstæðisflokksins máttu frjálslyndir sín lítils gegn haftastefnu helmingaskiptaflokkanna. Að vísu rofaði til í Sjálfstæðisflokknum á viðreisnarárunum 1959-71, þegar það rann upp fyrir Ólafi Thors, Bjarna Bendiktssyni og helztu samherjum þeirra, að nauðsynlegt væri að snúa frá haftapólitík fyrri ára. Þíðan stóð þó ekki lengi. Í forsætisráðherratíð sjálfstæðismannanna Geirs Hallgrímssonar 1974-78 og Gunnars Thoroddsen 1980-83 lék efnahagslífið allt á reiðiskjálfi. Verðbólgan lék á bilinu 30 til 60 prósent á ári. Það var ekki fyrr en í síðara ráðuneyti framsóknarmannsins Steingríms Hermannssonar 1988-91, að verðbólgan hjaðnaði niður fyrir 10 prósent á ári. Hún hefur síðan haldizt undir því marki, að vísu með hiksti og herkjum, enda hefur ríkisstjórnin síðustu ár beinlínis kynt undir verðbólgunni með gamla laginu.

Ætla má, að betri árangur hefði náðst í glímunni við verðbólguna og í hagstjórn yfirhöfuð, hefðu frjálslyndir menn haft um sig sérstakan flokk frá fyrstu tíð og aflað markaðsbúskapar- og viðskiptafrelsissjónarmiðum sínum fylgis á eigin spýtur frekar en sem vanburðug og vanrækt deild í Sjálfstæðisflokknum. Þá þyrftu Íslendingar varla enn að búa við okur og vinna lengstu vinnuviku í Vestur-Evrópu og safna miklum skuldum að auki til að halda þeim lífskjörum, sem þeir sækjast eftir. Þá ættu íhaldsöflin í Sjálfstæðisflokknum óhægt um vik að halda Íslandi utan Evrópusambandsins í óþökk meiri hluta þjóðarinnar, því að þá væri Sjálfstæðisflokkurinn miklu veikari en hann er nú. Frjálslyndi flokkurinn nýi var stofnaður 1998 til að mynda borgaralegt mótvægi við íhaldsöflin í Sjálfstæðisflokknum, þar eð Sjálfstæðisflokkurinn tók sérhagsmuni útvegsmanna fram yfir almannahag í deilunni um fiskveiðistjórnina. Ætlunarverk Frjálslynda flokksins getur því aðeins tekizt til fulls, að flokkurinn beri nafn sitt með rentu og styðji inngöngu Íslands í Evrópusambandið og önnur helztu óskamál frjálslynds fólks.