Fréttablaðið
17. jún, 2010

Minning Jóns forseta

Á þessum degi var fæðingar Jóns Sigurðssonar forseta fyrst minnzt opinberlega 1907. Það ár kom til landsins Jón forseti, fegursta og stærsta fiskiskip, sem Íslendingar höfðu þá eignazt, en Thor Jensen og félagar hans í Alliance létu smíða skipið á Englandi og héldu því úti til þorskveiða og létu salta fiskinn um borð. Eftir það héldu íþróttasamtök upp á afmælisdag Jóns.

Fyrst var haldinn almennur þjóðminningardagur á aldarafmæli Jóns Sigurðssonar 1911, og var Háskóli Íslands þá settur í fyrsta sinn. Veðrið var gott þennan dag, glatt sólskin og hægur blær af hafi. Hátíðin hófst að morgni á Sal Menntaskólans í Reykjavík. Rektor Menntaskólans, Steingrímur Thorsteinsson, skáldið, minntist þess, að Salur skólans var þingsalur alla alþingistíð Jóns Sigurðssonar, og var sungið kvæði eftir Steingrím. Kennarar og lærisveinar Menntaskólans færðu skólanum að gjöf málverk Þórarins B. Þorlákssonar af Jóni, og hangir það enn á sínum stað á Sal. Iðnsýning var opnuð í tilefni dagsins, og var þar sýndur heimilisiðnaður, smíðagripir og fleira.

Setning Háskólans hófst á hádegi í Alþingishúsinu. Klemens Jónsson landritari og Björn M. Ólsen, fyrsti rektor Háskólans, fluttu ræður, og var sungið Háskólaljóð Þorsteins Gíslasonar ritstjóra við lag Björns Kristjánssonar skósmiðs, alþingismanns, bankastjóra Landsbankans, söngfræðings og síðar ráðherra; um hann segir í Alþingismannatali: „Hafði síðan sérstök eftirlaun ævilangt.“ Síðan fór fjölmenn skrúðganga frá þinghúsinu að leiði Jóns í Hólavallarkirkjugarðinum við Suðurgötu, og var þar leikið lag Sveinbjörns Sveinbjörnssonar við lofsöng séra Matthíasar frá 1874, Ó guð vors lands. (Við fullveldistökuna 1918 var lagið leikið sem þjóðsöngur Íslendinga og æ síðan.) Skírnir, tímarit Hins íslenzka bókmenntafélags, kom út tvíefldur á afmælisdaginn, helgaður ævi og starfi Jóns. Á fæðingarstað Jóns á Hrafnseyri við Arnarfjörð var sungið Minningarljóð Hannesar Hafstein við lag Sigfúsar Einarssonar. Í september 1911 var afhjúpaður minnisvarði Jóns forseta fyrir framan stjórnarráðið eftir Einar Jónsson, og var varðinn síðan fluttur á Austurvöll 1931 og hefur staðið þar síðan. Frá stofnun lýðveldisins á Þingvöllum 17. júní 1944 hefur þessi dagur verið þjóðhátíðardagur Íslendinga.

Í formála að úrvali úr ræðum og ritgerðum Jóns forseta 1944 segir Vilhjálmur Þ. Gíslason síðar útvarpsstjóri: „Jón Sigurðsson var mestan hluta ævi sinnar kröfuharður andófsmaður. Hann sagði eitt sinn sjálfur, að hann ætti bezt heima „á oppositionsbekknum“ … Hann var óbilandi „agitator“. Um það eru bréf hans bezt vitni. Og merkasta einkenni bréfa hans er einmitt áróðurinn og fortölurnar, hinar látlausu brýningar og nudd. Bréf hans virðast flest vera hripuð í flýti. Þau eru oftast nær formlaus, að jafnaði ekki skemmtileg út af fyrir sig. … Ritgerðir hans eru mjög merkilegar. Þær eru vandaðar og fullar af fróðleik og af skarpri skynsemi, skrifaðar af skynsemi og fyrir skynsemi, en mjög sjaldan fyrir tilfinningarnar, og var það að vísu alveg í samræmi við alla stjórnmála- og lífsskoðun Jóns Sigurðssonar.“
Merkustu ritgerðir Jóns fjölluðu um verzlunarfrelsi og framfarir í menntamálum. Þær höfðu örvandi áhrif í dreifðu fásinni sveitanna. Upplag Nýrra félagsrita, sem Jón hélt úti 1841-73 og birti þar ritgerðir sínar, var um 400 seld eintök. Félagsmönnum Bókmenntafélagsins, þar sem Jón var forseti Hafnardeildarinnar frá 1851 til dauðadags, fjölgaði úr tæpum 200 í tæp 800 í forsetatíð hans.

Ritsmíðar Jóns voru einn lykillinn að lýðhylli hans. Rómaðir mannkostir hans lögðust auk annars á sömu sveif. Lúðvík Kristjánsson rithöfundur hefur kortlagt fyrirgreiðslu Jóns í Kaupmannahöfn við mikinn fjölda fólks úr öllum sveitum landsins. Til eru sex þúsund sendibréf til Jóns frá 870 bréfriturum. Mörg bréfanna eru frá bláókunnugu fólki, sem biður Jón að hjálpa sér við að kaupa plóg eða sjal eða brjóstnál eða eyrnalokka eða öngla eða koma úri í viðgerð eða ættingja á spítala og þannig áfram þindarlaust eins og Lúðvík Kristjánsson rekur í bók sinni Á slóðum Jóns Sigurðssonar (1961). Til þessara snúninga virðist Jón hafa varið ómældum tíma án þess að telja það eftir sér. Vilhjálmur Þ. Gíslason segir: „Hann var safnari og grúskari á þjóðlegan fróðleik. … Hefur það sennilega einmitt átt mikinn þátt í því, hversu vel hann var við alþýðuskap á ýmsa lund og átti ítök út um allar sveitir, þó að annars væri hann greinilegur fyrirmaður.“ Jón og Ingibjörg kona hans bjuggu alla tíð við óviss kjör. „Ég er vanur fátækt,“ skrifar hann 1874. Séra Matthías Jochumsson, ritstjóri Þjóðólfs, lýkur frásögn sinni um andlát Jóns Sigurðssonar 1879 og útför hans og Ingibjargar 1880 með þessum orðum: “Grát þú, fósturjörð, þinn mikla son, en vert þú vonglöð, þú ólst hann sjálf og áttir!” Við útförina var sungin sorgarkantata eftir Ólöfu Finsen landshöfðingjafrú við texta séra Matthíasar.