25. sep, 2019

Meðaltekjur og langlífi í 50 fylkjum Bandaríkjanna 2017-2018

Hér sjáum við meðaltekjur heimilanna í öllum fylkjum Bandaríkjanna 2018 á láréttum ás, mældar í dollurum, og ævilengd nýfæddra barna við fæðingu 2017 sem er mæld í árum upp eftir lóðréttum ás. Hver punktur á myndinni auðkennir eitt fylki; þau eru 51 að meðtalinni höfuðborginni Washington, DC. Fátækasta fylkið, suðurríkið Mississippi, sést í suðvesturhorni myndarinnar. Þar eru meðaltekjur heimilanna 42,800 dalir á ári og þar lifir fólkið stytzt eða 74,5 ár að jafnaði. Ríkasta fylkið er Massachusetts þar sem meðaltekjurnar eru 86.300 dalir og fólkið þar lifir 80 ár áð jafnaði. Mest er langlífið á Havaí eða 81,5 ár og meðaltekjurnar þar eru  80.000 dalir. Myndin sýnir sterkt samband milli langlífis og tekna. Hækkun meðalárstekna heimilanna um 10.000 dali frá einu fylki til annars helzt í hendur við lengingu meðalævinnar um eitt ár. Meðaltekjur heimilanna í Bandaríkjunum 2018 voru 63.200 dalir, eða 650.000 íslenzka krónur á mánuði, og meðalævi Bandaríkjamanna var 78,7 ár.

Heimild: Hagstofa Bandaríkjanna (Census Bureau).