Fréttablaðið
7. jún, 2007

Marshallhjálpin

Þegar Harry Truman sendi einkabréf af skrifstofu sinni í Hvíta húsinu, límdi hann utan á umslögin frímerki, sem hann hafði keypt sjálfur í næsta pósthúsi. Hann hafði verið kjörinn varaforseti 1944, tók við forsetaembættinu við fráfall Franklins Roosevelt vorið 1945 og fyrirskipaði nokkru síðar kjarnorkuárásirnar á Hírósíma og Nakasakí til að flýta stríðslokunum. Japanar gáfust upp, stríðinu lauk. Truman kvaddi þá George Marshall utanríkisráðherra á sinn fund og lagði fyrir hann áætlun um endurreisn Evrópu úr rústum stríðsins. Þegar Truman hafði lýst áætluninni, sagði hann við Marshall: Ég fel þér að hrinda Marshalláætluninni í framkvæmd. En herra forseti, sagði Marshall, nafngiftin er röng, þetta er þitt verk. Fundi slitið, sagði Truman. Því eru engin takmörk sett, sagði Truman síðar, hverju hægt er að koma til leiðar í stjórnmálum, standi manni á sama um hverjir fá þakkirnar.

Í fyrradag, 5. júní, voru sextíu ár síðan George Marshall lagði fram Marshalláætlunina í skólaslitaræðu í Harvardháskóla. Framleiðsla í evrópskum landbúnaði og iðnaði hafði stöðvazt eða því sem næst, svo að hungursneyð blasti við um alla álfuna. Hvað vakti fyrir Truman og þeim? – annað en að gera öðrum gott. Einkum fernt. Í fyrsta lagi þurftu Bandaríkin sjálf á því að halda, að Evrópa risi upp aftur, því að Evrópulöndin höfðu verið helzti markaður fyrir bandarískar afurðir. Og ekki bara það: Þar stóð vagga þeirrar menningar, sem er nú líftaug gjörvalls hins menntaða heims, svo að vitnað sé orðrétt í innlenda samtímaheimild um málið. Í annan stað hefðu Evrópuþjóðirnar á eigin spýtur ef til vill gripið til áætlunarbúskapar sem örþrifaráðs eftir stríðið og með því móti færzt nær sovézkum búskaparháttum, en Sovétríkin voru nú orðin helzti andstæðingur Bandaríkjanna á alþjóðavettvangi. Í þriðja lagi þótti Kananum brýnt að búa svo um hnútana, að Evrópa gæti af eigin rammleik staðizt ásælni Sovétríkjanna. Til þess þurfti einkum að endurreisa Þýzkaland, sem hafði áður verið hryggjarstykkið í atvinnulífi álfunnar og myndað mótvægi við Sovétríkin. Í fjórða lagi þótti brýnt að hamla gegn því, að almenningur snerist til kommúnisma. Marshallhjálpin var því ekki eingöngu góðverk, hún þjónaði einnig hagsmunum Bandaríkjanna. Þannig varð til mesta og árangursríkasta þróunaráætlun allra tíma.

Hjálparféð nam röskum 13 milljörðum Bandaríkjadollara í fjögur ár (1948-52). Mest voru þetta beinir styrkir, afgangurinn var ódýr lán. Fjárhæðin nam tæpum sex prósentum af landsframleiðslu Bandaríkjanna 1947 eða tæplega einni og hálfri prósentu af framleiðslu á ári þessi fjögur ár. Þetta er sjö sinnum meira fé miðað við landsframleiðslu en Bandaríkin veita nú til þróunarhjálpar, og eru Bandaríkjamenn þó þjóða örlátastir í dollurum talið, en ekki í hlutfalli við landsframleiðslu. Marshallfénu var dreift til sautján Evrópulanda til að reisa þau við, einkum iðnað, landbúnað og verzlun, og til að renna styrkum stoðum undir lýðræði og frelsi. Ella myndu fátækt, atvinnuleysi og örvænting meðal almennings veita kommúnistum byr undir báða vængi í Vestur-Evrópu: það var hugsunin. Í upphafi áttu einnig Austur-Evrópulöndin, þar sem Rauði herinn réð lögum og lofum eftir stríðið, að njóta góðs af Marshallhjálpinni, en Sovétríkin kærðu sig ekki um það. Þessi lönd þágu aðstoðina: Austurríki, Belgía, Bretland, Danmörk, Frakkland, Grikkland, Holland, Ísland, Írland, Ítalía, Lúxemborg, Noregur, Portúgal, Svíþjóð, Sviss, Tyrkland og Vestur-Þýzkaland. Bretar, Frakkar, Ítalar og Þjóðverjar fengu mest í dollurum talið, en Íslendingar fengu mest miðað við mannfjölda og notuðu féð til að reisa virkjanir og verksmiðjur og kaupa togara.

Marshalláætlunin bar mikinn árangur í bráð og lengd. Framleiðsla í Evrópu jókst um 15 til 25 prósent um hjálpartímann. Evrópskur iðnaður gekk í endurnýjun lífdaganna. Truman forseti lagði Marshalláætlunina til grundvallar, þegar Bandaríkin hófu þróunarhjálp í stórum stíl handa þriðjaheimslöndum 1949. Þegar Marshallhjálpinni lauk 1952, var hættan á valdatöku kommúnista í Vestur-Evrópu liðin hjá, iðnaðarframleiðsla álfunnar var orðin þriðjungi meiri en hún hafði verið fyrir stríð, og Vestur-Þýzkaland var í örum vexti. Helzti samstarfsvettvangur iðnríkjanna í efnahagsmálum, OECD, varð til í beinu framhaldi af Marshallhjálpinni, og einnig ESB.

Hvers vegna hefur þróunaraðstoð handa Afríku ekki skilað jafnmiklum árangri? Það er löng saga; hún bíður. Sumir telja, að Bandaríkjastjórn hefði átt að leggja fram nýja Marshalláætlun handa Rússum eftir 1991 til að beina þeim inn á réttar brautir. Hefði það verið gert, hefðu Bandaríkjamenn og Evrópuþjóðirnar kannski minni áhyggjur af Rússlandi núna og óöldinni þar. En Kaninn vildi ekki hjálpa Rússum, segja sumir: kannski kaus hann helzt, að Rússland kæmist ekki á fætur.