DV
14. mar, 2012

Mánudagur í Reykjavík

Stjórnlagaráð hélt fjögurra daga fund á dögunum að ósk Alþingis og skilaði að honum loknum svari sínu við spurningum og ábendingum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis. Bréf þingnefndarinnar dró saman fáein álitamál, sem viðmælendur nefndarinnar í sjö mánuði höfðu reifað á fundum nefndarinnar, og var þeim auðsvarað. Stjórnlagaráð stendur við frumvarpið, sem ráðið samþykkti einum rómi og skilaði Alþingi í lok júlí 2011, en ráðið ljær einnig fyrir sitt leyti máls á öðrum útfærslum tiltekinna ákvæða frumvarpsins án þess að raska meginefni þess eða innbyrðis samhengi. Nú stendur það upp á Alþingi að halda um mitt sumar þjóðaratkvæðagreiðslu um frumvarpið í samræmi við þingsályktun, sem samþykkt var á Alþingi í lok febrúar sl. með 31 atkvæði gegn 15.

Af þessu ánægjulega tilefni blésu sjálfstæðismenn til mánudagsfundar nú í vikunni í húsi sínu Valhöll, þar sem Birgir Ármannsson alþingismaður hafði framsögu um stjórnarskrármálið. Birgir situr við annan mann fyrir hönd síns flokks í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis. Birgir er íhaldsmaður að eigin sögn, heflaður íhaldsmaður og kurteis öndvert óhefluðum íhaldsmönnum.

Á fundinum líkti Ómar Ragnarsson stjórnarskránni frá 1944 við gamlan bíl, sem fullnægir ekki lengur kröfum nútímans um öryggi og annan búnað, svo að eigandinn fær sér þá nýjan bíl frekar en að gera endalaust við gömlu drusluna. Birgir vildi heldur líkja stjórnarskránni við hús, sem hægt er að endurbæta og ekki þarf að rífa. Í mínum huga er Gamla Grána torfbær. Forfeður okkar og mæður endurbyggðu ekki torfbæina, heldur reistu ný steinhús, sem munu standa lengi. Í þeim anda ákvað Stjórnlagaráð að semja nýja stjórnarskrá frá grunni og halda ýmsum innanstokksmunum frekar en að bjóða upp á bætta flík.

Birgir lýsti áhyggjum af ákvæðinu um auðlindir í þjóðareigu. Hann virðist líta svo á, að slíkt ákvæði eigi að vera í stjórnarskránni upp á punt og eigi engu að breyta. Ég er á öðru máli. Auðlindaákvæðinu í frumvarpi Stjórnlagaráðs er ætlað að skipta máli. Þar segir: „Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda eða annarra takmarkaðra almannagæða, gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn. Slík leyfi skal veita á jafnræðisgrundvelli og þau leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.“ Takið eftir, að í textanum stendur „gegn fullu gjaldi“. Væri „gegn fullu gjaldi“ breytt í t.d. „gegn sanngjörnu gjaldi“, gæti breytingin skilizt sem tillaga um stjórnarskárvarinn afslátt handa þeim, sem nýta auðlindirnar. Í slíkri breytingu á auðlindaákvæðinu fælist innbyrðis ósamræmi, þar eð eignarrétti væri þá gert mishátt undir höfði eftir því hver í hlut á, og myndi slík mismunun ganga gegn jafnræðisákvæði frumvarpsins. Eignarréttarákvæðið kveður á um, að „fullt verð“ komi fyrir eignarnám. Því hlýtur réttur eigandi auðlinda í þjóðareigu, ríkið fyrir hönd þjóðarinnar, að gera skv. auðlindaákvæði frumvarpsins sama tilkall til að „leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda eða annarra takmarkaðra almannagæða [séu veitt] gegn fullu gjaldi“.

Ákvæði frumvarpsins um jafnt vægi atkvæða var einnig rætt í Valhöll. Fundarstjórinn nefndi til sögunnar fátækan bónda í Þistilfirði, sem hefði svo lítinn aðgang að Alþingi (og Seðlabankanum! – fundarstjórinn var formaður bankaráðsins í hruninu), að hann þyrfti að hafa margfaldan atkvæðisrétt á við okkur hin, sem búum í Reykjavík og nágrenni. Ég fann til með Þistilfjarðarbóndanum, því að fundarstjórinn og félagar hans hafa notfært sér margfaldan atkvæðisrétt bóndans til að mylja undir sjálfa sig margföld sjálftekin eftirlaun, og skora ég nú á Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, opinberan sjóð, að birta allar lífeyrisgreiðslur til alþingismanna og embættismanna, svo sem sjóðnum verður skylt að gera, ef frumvarp Stjórnlagaráðs nær fram að ganga. Leyndinni þarf að linna.

Að loknum fundi í Valhöll eyddi ég mánudagseftirmiðdeginum á áhorfendabekkjunum í Landsdómi. Ég ætlaði bara að líta inn í gamla lestrarsal Landsbókasafnsins í stutta stund, en sat áfram til loka dags. Stemningin minnti mig á einvígi Fishers og Spasskís í Laugardalshöllinni fyrir 40 árum: lítið gerðist, en spenna lá í loftinu. Vitnin gengu í salinn, heilsuðu upp á sakborninginn, tóku sér sæti og svöruðu spurningum saksóknara, verjanda og dómenda. Síðasta vitni dagsins var Björgólfur Guðmundsson. Hann gekk beint að sæti sínu án þess að heilsa sakborningnum, reyndur maður í réttarsal.