Mannréttindi eru algild
Mannréttindi eru algild en ekki afstæð og geta því aldrei gengið kaupum og sölum. Íslendingar hafa yfirleitt skipað sér framarlega í sveit þeirra þjóða, sem bera mesta virðingu fyrir mannréttindum. Síðasta aftakan á Íslandi fór fram í Húnavatnssýslu 1830. Eftir það voru tíu Íslendingar að vísu dæmdir til dauða í Hæstarétti, en kóngurinn mildaði dómana, svo að enginn var tekinn af lífi. Dauðarefsing var afnumin í tveim áföngum, 1869 var felld úr lögum dauðarefsing fyrir blóðskömm og dulsmál, það er útburð til að leyna barnsfæðingu, og 1928 var dauðarefsing afnumin með öllu, mörgum áratugum á undan afnámi dauðadóma annars staðar um Norðurlönd. Tyrkir afnámu dauðarefsingu 2004 og Albanar 2007, því að öðrum kosti fengju lönd þeirra ekki inngöngu í Evrópusambandið. Gervöll Evrópa hefur nú hafnað dauðarefsingu. Bandaríkin eru eina iðnríkið utan Asíu, þar sem dauðadómar tíðkast enn – og nú einnig pyndingar, því að sjaldan er ein bára stök. Dauðarefsing er mannréttindabrot vegna þess, að hún er óafturkræf: sá, sem er tekinn af lífi og reynist saklaus, verður ekki vakinn aftur til lífsins.
Til eru lönd, þar sem stjórnvöld og almenningur líta mannréttindi og mannréttindabrot öðrum augum en flestir Íslendingar. Sleppum Kína, því það dæmi liggur í augum uppi: ríkisstjórn Kína brýtur mannréttindi í stórum stíl, enda liggja mannréttindabrot í eðli allra einræðisstjórna. Tökum heldur Síle, sem er nú lýðræðisland. Þar studdi um þriðjungur landsmanna herforingjastjórn Pinochets 1973-90 þrátt fyrir gróf mannréttindabrot, sem allir vissu um, en sumir heimamenn horfðu fram hjá eða vörðu með skírskotun til þess, að hagstjórnin hjá Pinochet og þeim væri svo skínandi skilvirk. Að baki þessarar afstöðu bjó sú hugmynd, að mannréttindabrotin – morðin, mannshvörfin, pyndingarnar – hafi verið nauðsynlegur liður í landsstjórninni og herforingjunum hefði ekki getað tekizt að bæta lífskjörin og lyfta þjóðarbúskapnum svo sem raun varð á nema með því að koma þúsundum stjórnarandstæðinga fyrir kattarnef. En þetta er rangt, og siðlaust. Engin áreiðanleg gögn styðja þá skoðun, að mannréttindabrot af nokkru tagi séu nauðsynlegur liður árangursríkrar hagstjórnar, hvorki í einstökum löndum né í heiminum í heild. Hitt virðist mun líklegra í ljósi tiltækra gagna, að lýðræði og full virðing fyrir óskoruðum mannréttindum stuðli að betri hagstjórnarháttum og betri lífskjörum.
Mannréttindabrot eru valdníðslutæki glæpamanna. Augusto Pinochet (1915-2006) varð sem betur fer svo langlífur, að sannleikurinn um hann kom í ljós í lifanda lífi. Hann reyndist vera stórtækur mútuþegi og þjófur auk annarra glæpa. Nú er allur vindur úr fyrrum stuðningsmönnum hans og herforingjanna, sem sitja nú margir á bak við lás og slá eða bíða dóms.
Mannréttindi og mannréttindabrot snúast ekki alltaf um líf og dauða, heldur einnig um jafnræði og réttlæti. Stjórnarskrá lýðveldisins geymir svofellt ákvæði í 65. grein: „Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.“ Þessi grein er tekin nær orðrétt upp úr 26. grein alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sem er angi af Mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna, og var leidd í lög 1995. Á grundvelli þessarar greinar auk atvinnufrelsisákvæðis 75. greinar stjórnarskrárinnar felldi Hæstiréttur þann dóm í máli Valdimars Jóhannessonar gegn ríkinu 1998, að fiskveiðilögin brytu í bága við stjórnarskrána. Alþingi brást við dóminum með því að breyta lögunum, en þó aðeins til málamynda. Þennan dóm Hæstaréttar hefur Mannréttindanefnd SÞ nú í reyndinni innsiglað og þá um leið ógilt dóm Hæstaréttar í Vatneyrarmálinu 2000, þar sem rétturinn sneri við blaðinu undir ódulbúnum þrýstingi frá formönnum beggja ríkisstjórnarflokkanna þá.
Úrskurður Mannréttindanefndar SÞ um daginn er áfellisdómur yfir mannréttindabrotum af hálfu Alþingis með fulltingi Hæstaréttar. Tvær vikur eru nú liðnar frá birtingu úrskurðarins, en Alþingi hefur samt ekki séð ástæðu til að lýsa því yfir, að fiskiveiðilögunum verði breytt til samræmis við stjórnarskrána og Mannréttindasáttmála SÞ. Alþingi virðist líta svo á líkt og herforingjarnir í Síle á sínum tíma, að þjóðarhagur útheimti mannréttindabrot. En það er firra. Hefði fiskveiðunum verið stjórnað með vel útfærðu veiðigjaldi, þar sem allir sætu við sama borð, eins og lagt var til strax í upphafi og við veiðigjaldsmenn höfum æ síðan haldið fram með fullbúið lagafrumvarp í höndunum, hefðu fiskveiðilögin ekki þurft að koma til kasta Mannréttindanefndarinnar. Boðið stendur.