Fréttablaðið
2. ágú, 2007

Mandela og Tútú

Bílstjórinn okkar í Suður-Afríku á rætur að rekja til Malasíu, Indlands og Rússlands. Hann sleit barnsskónum á Svæði sex í Höfðaborg. Svæði sex var líf og sál borgarinnar. Þarna bjó fólk af ýmsum uppruna tugþúsundum saman í sátt og samlyndi: blökkumenn og hvítir og asískir, kristnir menn og múslímar og hindúar. Aðskilnaðarstjórn Þjóðarflokksins hafði náð völdum í landinu fyrir tilstilli örlítils nasistaflokks í þingkosningum 1948. Hún lýsti Svæði sex „hvítt“ 1966, rak íbúana burt eins og búfénað og jafnaði byggðina við jörðu með stórvirkum vinnuvélum. Þegar Desmond Tútú varð erkibiskup í Höfðaborg 1986, þurfti hann sem blökkumaður samkvæmt lögum að sækja um leyfi til að búa í borginni, en hann lét sér ekki detta það í hug, og lögreglan lagði ekki í hann.

Fjölskylda bílstjórans þurfti eftir 1966 að byrja upp á nýtt með tvær hendur tómar. Löngu síðar fékk hann augastað á húsi til að koma sér fyrir í með konu sinni og tveim börnum. Hann lagði nótt við dag og keypti húsið. Þá fékk hann bréf frá yfirvöldum. Hann hafði keypt húsið af ólögmætum eiganda. Nú var Afríska þjóðarráðið (ANC) komið til valda og veitti fyrrverandi eigendum kost á að endurheimta að einhverju leyti þær eigur, sem aðskilnaðarstjórnin hafði haft af þeim með ofbeldi. Bílstjórinn var virkur í hreyfingunni, en bar ekki vopn. Hann skildi, að nauðsyn bar til að skila þýfi Þjóðarflokksins aftur til réttra eigenda, en nú var hann aftur húsnæðislaus og allslaus. Þegar fjölskyldan hafði fundið sér leiguhúsnæði, sagði dóttir hans fimm ára við föður sinn: pabbi, við skulum hlekkja okkur við þetta hús. Þá féll ég saman, sagði bílstjórinn, þrjátíu árum eftir að þeir jöfnuðu Svæði sex við jörðu – fyrir það eitt að þar bjuggu ólíkir kynþættir saman í friði og spekt, og það rímaði ekki við hugmyndafræði aðskilnaðarstefnunnar. Við sigruðum á endanum, bætti hann við, en ég verð nú að láta mér duga að lifa lífinu fyrir börnin mín og brýna fyrir þeim, að þau láti söguna ekki endurtaka sig, aldrei. Baráttu minni er lokið: nú vinn ég fyrir hvíta manninn. Mig dreymir um að eignast eigin bíl. Við hlustuðum á söguna með kökkinn í hálsinum.

Aðskilnaðarstefnan snerist ekki um sambúð svartra og hvítra. Lögmaður Nelsons Mandela og náinn vinur og samherji allar götur síðan árin eftir 1950 er hvítur. Hægri hönd Mandelas síðan 1994, þegar hann var kjörinn forseti, er hvít kona. Hvítum og svörtum semur jafnan vel í Suður-Afríku eins og á Svæði sex. Aðskilnaðarstefnan spratt í öndverðu af ofstæki og illvilja tiltölulega þröngs hóps hvítra manna, sem töldu sig verðskulda sjálfteknar sárabætur eftir ósigurinn fyrir Bretum í Búastríðinu 1899-1902. Upprisa aðskilnaðarstefnunnar í Suður-Afríku 1948 var þannig náskyld og nauðalík valdatöku nasista í Þýzkalandi fimmtán árum fyrr. Þjóðarflokkurinn fór hægar í sakirnar en Hitler og félagar og entist því lengur, en hugsjónin var sömu ættar.

Nelson Mandela og félagar hans í ANC urðu smám saman fráhverfir friðsamlegum mótmælum einum saman í anda Gandís og töldu sig þurfa á harkalegri aðferðum – hryðjuverkum! – að halda til að hnekkja aðskilnaðarstjórninni. Nafn Mandelas var ekki numið burt af hryðjuverkamannalista Bandaríkjastjórnar fyrr en 2003 – og þá til bráðabirgða. Hryðjuverkin skiptu þó ekki sköpum, heldur friðsamlegu mótmælin, sem kölluðu hyldjúpa andúð og fyrirlitningu svo að segja allrar heimsbyggðarinnar yfir aðskilnaðarstjórnina, svo að hún hlaut um síðir að falla. Eftir á að hyggja var hryðjuverkunum trúlega ofaukið, en Mandela segist samt ekki iðrast þeirra.

Þegar Mandela var sleppt úr haldi 1990, hvatti hann félaga sína í ANC til að leggja niður vopnin og boðaði frið, sátt og fyrirgefningu. Hann hafnaði fyrirmyndinni frá Nürnberg 1945-49, þar sem stríðsglæpamenn nasista voru margir dæmdir til dauða eða fangavistar. Einhliða réttlæti sigurvegara í stríðslok tryggir hvorki iðrun né fyrirgefningu og þá ekki heldur uppgjör við liðna tíð. Mandela og samherjar hans afréðu að gera heldur upp fortíðina í tvennu lagi: fyrst skyldi bjóða mönnum að játa sakir sínar fyrir Sannleiks- og sáttanefndinni, sem Desmond Tútú stýrði 1995-98, gegn sakaruppgjöf, og síðan mætti höfða mál gegn þeim, sem ekki þekktust boðið. Vitnisburðirnir fyrir nefndinni fengu hárin til að rísa á höfðum viðstaddra, aðrir grétu. Eitt fórnarlambið sagði: Við viljum fyrirgefa, en við vitum ekki, hverjum við eigum að fyrirgefa.

Fyrirgefningin hefur líklega aldrei átt öflugri og tilkomumeiri bandamenn í stjórnmálum en þá Nelson Mandela og Desmond Tútú – nema kannski Gandí.