Fréttablaðið
24. maí, 2007

Maðurinn eða flokkurinn?

Jimmy Carter, forseti Bandaríkjanna 1977-80, var góður og gegn forseti. Hann taldi kjark í bandarísku þjóðina eftir niðurlægingu Nixons forseta, sem hafði hrökklazt úr embætti 1974. Ég mun aldrei segja ykkur ósatt, sagði Carter við kjósendur, því að Richard Nixon og menn hans höfðu lifað og nærzt á lygum. Nixon hafði orðið uppvís að því að eiga aðild að innbroti í höfuðstöðvar demókrata í Watergate-byggingunni í Washington og hindra framgang réttvísinnar. Eftirmaður Nixons í embætti, Gerald Ford, forseti 1974-77, náðaði Nixon. Ella hefði Nixon næstum örugglega fengið fangelsisdóm. Þrír af nánustu samverkamönnum Nixons fengu dóma, þar á meðal dómsmálaráðherrann, allt að átta ára fangavist. Það var þó ekki dómskerfið, sem sneri Nixon niður eftir langt þóf, heldur þrautseigir blaðamenn. Tveir ungir blaðamenn á Washington Post, Robert Woodward og Carl Bernstein, öfluðu þeirra vitnisburða, sem þurfti til að sannfæra Bandaríkjaþing um nauðsyn þess að knýja Nixon til afsagnar. Þessi saga er sögð í bók þeirra og samnefndri bíómynd All the President‘s Men (1976) með Dustin Hoffman og Robert Redford í hlutverkum blaðamannanna.

Nixon sagðist vera saklaus. Margir félagar hans meðal repúblíkana tóku í sama streng og kunnu demókrötum litlar þakkir fyrir að hafa knúið á um afsögn Nixons og auðmýkingu. Þar var lagður grunnurinn að þeirri úlfúð, sem hefur markað samskipti flokkanna tveggja æ síðan og birtist meðal annars í ofsóknum repúblikana á hendur Bill Clinton forseta 1993-2001.

Annar blaðamaður gekk í það nokkru síðar að svipta hulunni af sekt Nixons og innsigla niðurlægingu hans. Það var enski sjónvarpsmaðurinn David Frost. Hann fékk Nixon til að tala við sig fjórum sinnum í sjónvarpi 1977 gegn ríflegri greiðslu; Frost lagði allt undir, jafnvel húsið sitt. Á þessi viðtöl horfði fleira fólk en áður hafði horft á slíkt sjónvarpsefni. Nixon lék sér að Frost í fyrstu þrjú skiptin og hleypti honum varla að með óþægilegar spurningar. Fyrir fjórða og síðasta einvígið tókst Frost að grafa upp nýtt skjal, sem kippti fótunum undan framburði Nixons. Frost tókst þannig í lokalotunni að snúa Nixon niður og fá hann til að játa á sig lögbrot frammi fyrir tugum milljóna áhorfenda, óvart að því er virtist. Eftir það gat engum dottið í hug að leggja trúnað á framburð forsetans fyrrverandi. Hann var gersigraður. Þessa sögu rekur enska leikskáldið Peter Morgan í nýju leikriti, Frost/Nixon, sem var frumsýnt í London í haust og er á fjölunum í New York sem stendur, mikið drama.

Jimmy Carter kallar George W. Bush, núverandi ábúanda í Hvíta húsinu, versta forseta landsins fyrr og síðar. Þegar maðurinn, sem hreinsaði til eftir Nixon og fékk friðarverðlaun Nóbels 2002, fellir slíkan dóm um eftirmann sinn í embætti, er vert að leggja við hlustir. Carter reisir skoðun sína meðal annars á því, að Bush fyrirskipaði innrásina í Írak á upplognum forsendum og sameinaði þannig svo að segja alla heimsbyggðina í megnri andúð á utanríkisstefnu Bandaríkjanna. Vandinn er þó meiri að vöxtum en svo. Stjórn Bush hefur innleitt pyntingar á stríðsföngum, hún hefur rekið saksóknara, sem þóttu ekki nógu hallir undir repúblikana, úr embætti og raðað óhæfum flokksmönnum í mikilvæg störf á vegum ríkisins. Bush forseti líkist Nixon að því leyti, að hann er ósannsögull, illskeyttur og óvandur að meðulum. Hann hefur sagt ósatt um margt annað en stríðið í Írak, þar á meðal um áhrif skattalækkana á afkomu ríkissjóðs og skiptingu tekna. Hann er ójafnaðarmaður og hælist um af því.

Hvert er vandamálið: maðurinn eða flokkurinn? Ef vandinn væri bundinn við Bush sem einstakling, myndi flokkur hans snúa við honum bakinu og gera upp sakirnar við hann. Þá gætu gagnrýnendur Bush og stjórnar hans auðveldlega tekið Repúblikanaflokkinn í sátt. Þá myndi stjórnmálalíf landsins færast í betra horf. Margt bendir til þess, að slíkt uppgjör sé ekki í vændum, að minnsta kosti ekki í bráð. Þá berast böndin að flokknum, sem fylkir sér um svo vondan forseta. Fyrir nokkru kom á daginn í kappræðum þeirra repúblikana, sem keppa nú um útnefningu flokksins til forsetaframboðs 2008, að flestir þeirra sjá ekkert athugavert við Bush forseta og embættisfærslu hans. Þeir eru flestir hlynntir pyntingum og lýsa þeim með sýnilegri velþóknun fyrir sjónvarpsáhorfendum. Vandi Bandaríkjanna nú virðist því ekki vera bundinn við Bush forseta og náhirðina kringum hann. Flokkur hans þarf að gera upp sakirnar við hann og stjórnartíð hans. Fullar sættir útheimta iðrun og yfirbót.