DV
27. mar, 2013

Lýðræðisveizluspjöll

Þjóðaratkvæðagreiðslan 20. október 2012 snerist um annað og miklu meira en nýja stjórnarskrá. Atkvæðagreiðslan var langmarkverðasta kosning í sögu landsins. Aldrei áður hefur Alþingi boðið kjósendum að kjörborði til að fjalla á einu bretti beint og milliliðalaust um nokkur helztu álitamál stjórnmálanna, þar á meðal jafnt vægi atkvæða og auðlindir í þjóðareigu. Ekki bara það: í þjóðaratkvæðagreiðslunni sátu kjósendur allir við sama borð, vægi atkvæða var jafnt. Misvægi atkvæðisréttar hefur verið ágreiningsefni allar götur frá 1849, þegar Fjölnismaðurinn Gísli Brynjólfsson lagði fyrstur manna fram tillögu um jafnan atkvæðisrétt. Auðlindamálin hafa verið deilumál frá því um 1970. Vegna lýðræðishallans á Alþingi hefur minni hluti kjósenda alla tíða fengið að ráða för í báðum þessum málum.

Í Alþingiskosningum hafa kjósendur hingað til aðeins getað kosið óbeint um einstök mál með því að velja milli stjórnmálaflokka upp á von og óvon. Atkvæði vega enn misþungt eftir búsetu. Ólíkt alþingiskosningum var þjóðaratkvæðagreiðslan 20. október sannkölluð lýðræðisveizla. Þar sátum við öll við sama borð og gátum kosið beint um auðlindir í þjóðareigu (83% kjósenda sögðu já), persónukjör (78% sögðu já), beint lýðræði með tíðari þjóðaratkvæðagreiðslum (73% sögðu já) og jafnt vægi atkvæða (67% sögðu já). Nýja stjórnarskráin, sem 67% kjósenda sögðu já við, tryggir allt þetta og ýmsar aðrar mikilvægar réttarbætur handa fólkinu í landinu, t.d. upplýsingafrelsi, óspilltar embættaveitingar, viðfeðmari mannréttindi, meiri umhverfisvernd, traustari stjórnskipan og margt fleira. Frumvarpið liggur nú fullbúið frammi á Alþingi og bíður afgreiðslu fyrir þinglok í samræmi við opinberar yfirlýsingar 32ja alþingismanna af 63. Með því að daðra nú opinskátt við hugmyndina um að hafa þjóðaratkvæðagreiðsluna að engu brýtur Alþingi blað. Alþingi ögrar lýðræðinu með því hóta því að hafa að engu vilja kjósenda, sem birtist í skýrum svörum þeirra við þeim brýnu spurningum, sem þingið sjálft bað kjósendur um að svara. Lýðræðið í landinu er ekki lengur í öruggum höndum á Alþingi.

Hvað fyndist mönnum, ef alþingismenn leyfðu sér að umgangast úrslit alþingiskosninga af sama virðingarleysi og þeir sýna nú margir úrslitum þjóðaratkvæðagreiðslunnar 20. október? Hvað fyndist mönnum, ef stjórnmálaflokkur með 30% fylgi slægi eign sinni á þau 21%, sem sátu heima, segðist í raun og veru hafa 51% fylgi og ætti því rétt á að fá að ráða för? Hvað fyndist mönnum, ef alþingiskosningar væru kallaðar marklaus skoðanakönnun? Hvað fyndist mönnum, ef þingmenn segðust líta svo á, að nauðsynlegt væri að bera úrslit alþingiskosninga undir sérfræðinga? Hvað fyndist mönnum, ef þingmenn segðu, að í ljós myndi koma í næstu kosningum, hvort raunverulegur vilji hefði búið að baki úrslitum síðustu kosninga? Allt þetta og enn meira hafa alþingismenn leyft sér að segja um þjóðaratkvæðagreiðsluna 20. október. Þeir reyna þannig að skjóta sér undan skýrum dómi kjósenda. Þeir svífast einskis.

Hvers virði er nú loforð Alþingis um þjóðaratkvæðagreiðslu um inngöngu Íslands í ESB, þegar þingmenn velkjast fyrir allra augum í vafa um, hvort þeir þurfi að virða úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar 20. október? Þingmenn, sem reyna nú að standa í vegi fyrir framgangi þjóðarviljans í stjórnarskrármálinu,virðast taka eigin hag fram yfir almannahag. Þeir sjá í hendi sér sumir hverjir, að jafnt vægi atkvæða myndi rýra möguleika þeirra til að ná endurkjöri til Alþingis. Þeir sjá í hendi sér, að nýting auðlinda í þjóðareigu á jafnréttisgrundvelli myndi skera á togvírinn, sem bindur suma þeirra við útvegsmenn eins og Styrmir Gunnarsson fv. ritstjóri Morgunblaðsins hefur lýst öðrum mönnum betur á prenti. Þeir sjá í hendi sér, að upplýsingafrelsi myndi gegnumlýsa leyndarhjúpinn, sem sumir þeirra hafa legið undir óáreittir og farið sínu fram. Þeir sjá í hendi sér, að óspilltar embættaveitingar munu valda þeim raski og vinum þeirra. Þeim má ekki líðast að standa í vegi fyrir framgangi þjóðarviljans eins og hann birtist í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október. Úrslit hennar standa.