9. sep, 2019

Lýðræði í Afríku 1960-2016

Þegar Berlínarmúrinn var brotinn niður 1989 voru 37 einræðisríki í Afríku, þrjú lýðræðisríki og fjögur fáræðisríki sem svo eru nefnd af því að þau fylla hvorugan flokkinn. Myndin sýnir fjölda Afríkuríkja á lóðréttum ás og rás tímans á láréttum ás. Fáræðisríki flokkast hvorki til lýðræðisríkja né einræðisríkja heldur liggja einhvers staðar þar á milli. Um aldamótin 2000, ellefu árum eftir fall múrsins, var landslagið gerbreytt. Þá hafði afrískum lýðræðisríkjum fjölgað úr þrem í 10, einræðisríkjunum hafði fækkað úr 37 í sex, og fáræðisríkjum hafði fjölgað úr fjórum í 30. Eftir það hélt framsókn lýðræðisins í Afríku áfram ólíkt því sem gerzt hefur um heiminn í heild. Lýðræðisríkjum í Afríku hefur frá aldamótunum 2000 fjölgað úr 10 í 20 og einræðisríkjum hefur fækkað úr sex í þrjú. Fáræðisríkjum hefur fækkað úr 30 í 24. Kínverjar hafa aukið umsvif sín í Afríku undangengin ár. Þá vanhagar um ýmsar auðlindir sem Afríkulönd hafa upp á að bjóða og þeir reiða fram fjárhagsaðstoð, byggja vegi, hús og brýr o.fl. og veita lán, svo stór lán stundum að áhöld eru um hvort lántakendum auðnist nokkurn tímann að standa í skilum. «Sjáið okkur», segja Kínverjar. «Við horfum langt fram í tímann. Við höfum lyft hundruðum milljóna okkar fólks upp úr sárri fátækt á fáeinum ártugum. Við þurftum ekki á vestrænu lýðræði að halda – og þið ekki heldur.» Framsókn lýðræðis í Afríku virðist benda til að boðskapur Kínverja um lítilvægi lýðræðis virðist ekki hafa hrifið.