Lýðræði á undir högg að sækja
Fram yfir miðja 19. öld mátti telja lýðræðisríki heimsins á fingrum annarrar handar. Einræði var reglan eða fáræði, lýðræði var sjaldgæf undantekning. Mannréttindi voru fótum troðin eins og ekkert væri sjálfsagðara. Um aldamótin 1900 voru lýðræðisríkin orðin nokkurn veginn jafnmörg einræðisríkjunum, en fáræði einhvers staðar á bilinu milli einræðis og lýðræðis var algengasta stjórnskipanin. Eftir síðari heimsstyrjöldina fjölgaði einræðisríkjum mun örar en lýðræðisríkjum. Þetta voru þau ár, þegar Sovétríkin sálugu og kommúnistaríkin í kringum þau köstuðu löngum skugga t.d. yfir Afríku, þar sem löndin tóku sér sjálfstæði eitt af öðru án þess að skeyta um lýðræði.
Taflið snerist við eftir 1970, þegar einræðisríkjum tók að fækka í Evrópu (Grikkland, Portúgal, Spánn) og víða í þróunarlöndum, og síðan enn frekar við fall kommúnismans um 1990, þegar 25 ný lýðræðisríki komu til skjalanna. Nú eru aðeins 20 einræðisríki í heiminum á móti tæplega 100 lýðræðisríkjum og rösklega 50 fáræðisríkjum (hér er miðað við lönd með 500.000 íbúa eða fleiri). Lýðræðið heldur áfram sigurgöngu sinni í krafti skýrra yfirburða umfram einræði og fáræði, þar sem fámennar klíkur ráða för án fulls tillits til almannahags. Höfuðkostur lýðræðisins er sá, að lýðræðislegum ákvörðunum þurfa allir að una, hvort sem þeir telja þær réttar eða rangar.
Því er þessi saga rifjuð upp, að skugga ber nú á framsókn lýðræðisins. Frá lokum síðari heimstyrjaldarinnar hafa margir skoðað Bandaríkin sem tryggan bakhjarl og framvörð lýðræðisins. Bandarískt einkaframtak var dáð fyrirmynd heimsins, þar til í ljós kom 2008, að bankakerfið þar vestra stóð á brauðfótum og þurfti gríðarlega meðgjöf frá skattgreiðendum til að girða fyrir algert hrun. Ekki bara það: alríkisstjórnin í Washington neyddist til að þjóðnýta General Motors, stærsta bílafyrirtækið, höfuðdjásnið í kórónu bandarísks einkaframtaks. Og nú fara repúblikanar á Bandaríkjaþingi fram á afturköllun lýðræðislegrar ákvörðunar þingsins og forsetans um heilbrigðistryggingar handa fátæku fólki með hótun um að knýja ríkistjórnina öðrum kosti í greiðsluþrot með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir efnahagslíf landsins og heimsins. Þeir svífast einskis. Bandaríkin standa nú eins og reyttur kjúklingur frammi fyrir gömlum vinum sínum og aðdáendum víða um heim og heima fyrir – kjúklingur með kjarnavopn.
Hvenær tók að halla undan fæti? Sumir telja, að afsögn Nixons forseta 1974 í kjölfar uppljóstrana um aðild hans að innbroti í höfuðstöðvar demókrata í Watergate-bygginguna í Washington hafi fyllt marga repúblikana hefndarhug og til þess megi rekja upphaf þeirrar úlfúðar, sem markar samskipti flokkanna tveggja á Bandaríkjaþingi. Aðrir telja, að ákvörðun Hæstaréttar Bandaríkjanna um að stöðva endurtalningu atkvæða í Flórída í forsetakjörinu 2000 og skipa George W. Bush forseta með fimm atkvæðum gegn fjórum eftir flokkspólitískum línum hafi rofið friðinn. Spilltasta ákvörðun Hæstaréttar frá öndverðu, sagði Alan Dershowitz lagaprófessor í Harvardháskóla í bók um málið 2001.
Þessi nýliðna hörmungarsaga Bandaríkjanna, sem enginn veit enn hvernig endar, bregður birtu hingað heim. Sjálfstæðismenn á Alþingi og sumir framsóknarmenn hegðuðu sér eins bandarískir repúblikanar á Alþingi síðasta kjörtímabil. Þeir virtust friðlausir nema allt logaði í ófriði í kringum þá.
Alvarlegasta brot þeirra var að koma í veg fyrir, að úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar 20. október 2012 um nýja stjórnarskrá væru virt. Með þeim gerningi var brotið blað. Alþingi lýsti lýðræðinu stríð á hendur með afleiðingum, sem engin leið er að svo stöddu að sjá fyrir endann á.
Í þjóðaratkvæðagreiðslunni lýstu 67% kjósenda stuðningi við jafnt vægi atkvæða og 78% lýstu stuðningi við persónukjör. Samt voru haldnar alþingiskosningar í apríl 2013 með gamla laginu eins og ekkert hefði í skorizt. Rétt hefði verið að halda þær kosningar með því fororði, að þær yrðu síðustu þingkosningarnar með ójöfnu vægi atkvæða og án persónukjörs, að því tilskildu að nýtt þing staðfesti nýja stjórnarskrá í samræmi við úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Þingkosningarnar í apríl 2013 skortir lögmæti í þeim skilningi, að meiri hluti kjósenda hafði þá þegar hafnað gildandi kosningalögum.
Þetta er samt ekki allt. Með því að staðfesta ekki úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar 2012 eyðilagði Alþingi möguleikann á að halda aðrar þjóðaratkvæðagreiðslur, þ.m.t. þjóðaratkvæðagreiðsluna, sem Alþingi lofaði að halda um væntanlegan aðildarsamning við ESB. Ef Alþingi vanvirðir eina þjóðaratkvæðagreiðslu, eru þær allar marklausar. Skaðinn er verulegur, þar eð 73% kjósenda lýstu fylgi við aukið vægi þjóðaratkvæðagreiðslna að frumkvæði almennings í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012.
Sjálfstæðisflokkurinn og meðreiðarsveinar hans hafa greitt lýðræðinu í landinu þungt högg. Eina færa leiðin til að bæta skaðann er, að Alþingi snúi við blaðinu og virði vafningalaust úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar 2012.