DV
15. feb, 2013

Löng samleið frá Feneyjum

Bráðabirgðaálit Feneyjanefndarinnar, samið af Frakka, Norðmanni, Þjóðverja, Belga og Dana, liggur nú fyrir. Ábendingar nefndarinnar um stjórnarskrárfrumvarpið geta komið að góðu gagni á lokastigi málsins líkt og ábendingar lögræðingateymisins, sem Alþingi fól að fara yfir frumvarpið á undan Feneyjanefndinni. Ábendingarnar frá Feneyjum eru ekki veigameiri en svo, að Alþingi er fullfært um að taka tillit til þeirra fyrir þriðju umræðu og afgreiðslu frumvarpsins fyrir þinglok. Alþingi brást skjótt og vel við athugasemdum lögfræðingateymisins og hefur nú sýnt og sannað, að það kann að láta hendur standa fram úr ermum, þegar mikið liggur við. Ferill málsins allur hefur nú tekið fjögur ár. Það er í ljósi reynslunnar utan úr heimi nægur tími til að ganga frá nýrri stjórnarskrá, þegar vel er vandað til verka svo sem gert hefur verið hér að flestu leyti.

Álitinu frá Feneyjum má skipta í þrjá kafla.

1. Ókunnugleiki
Höfundar álitsins viðurkenna, að þeir eru ekki gerkunnugir íslenzkum staðháttum. Vangaveltur þeirra um afnám málskotsréttar forseta Íslands og um afnám þjóðkjörs forsetans vitna um ókunnugleika og um skort á því, sem Þjóðverjar kalla Situationsgefühl. Íslendingar ákváðu 1944 undir forustu Sveins Björnssonar ríkisstjóra gegn vilja þriggja stjórnmálaflokka að stofna fyrstir Evrópuþjóða embætti þjóðkjörins forseta. Í ljósi sögunnar er tómt mál að tala um afnám þjóðkjörs forsetans, enda hvarflaði sú hugsun t.d. ekki að nokkrum manni í Stjórnlagaráði. Saga málskotsréttarins og beiting hans í þrígang frá 2004 benda til, að kjósendur myndu ekki heldur taka afnám málskotsréttar forsetans í mál. Frumvarpið mælir fyrir um, að forsetinn deili málskotsrétti sínum með þjóðinni.

2. Gagnrýni
Gagnrýni Feneyjanefndarinnar á ýmis atriði frumvarpsins er hjálpleg, þótt ekki sé hún stórvægileg í mínum augum. Nefndin lýsir eftir nákvæmari fyrirmælum til dómstóla um mannréttindi. Ég tel mannréttindaákvæðin þvert á móti þurfa að vera sveigjanleg og opin að vissu marki fyrir túlkun dómstóla. Stjórnarskrár þurfa að vera sveigjanlegar til að standast tímans tönn. Sumt í gagnrýninni snýr að breytingum, sem Alþingi gerði á frumvarpi Stjórnlagaráðs í ljósi tillagna lögfræðingateymisins. Alþingi er í lófa lagið að hverfa aftur til fyrra orðalags, þar sem við á. Nefndin leggur til ýmsar breytingar á orðalagi, sem auðvelt er að fallast á. Hún varar við afleiðingum þess fyrir stöðugleika í stjórnmálum, að kosningaákvæði frumvarpsins mælir ekki fyrir um, að framboð til Alþingis þurfi að ná tilteknu lágmarksfylgi til að fá mann kjörinn á þing. Þröskuldurinn, 5% lágmarksfylgi skv. gildandi stjórnarskrá, var numinn brott í samræmi við aðrar umbætur frumvarpsins í lýðræðisátt, m.a. til að fækka dauðum atkvæðum.

Feneyjanefndin hælir frumvarpinu fyrir „frumlegar lausnir“ í Alþingiskaflanum. Veigamesta ábending nefndarinnar af mínum sjónarhóli beinist þó að þeim kafla og er áhugaverð m.a. fyrir þá sök, að innlendir gagnrýnendur frumvarpsins hafa ekki haldið henni á loft að heitið geti. Nefndin telur frumvarpið e.t.v. ganga of langt til að styrkja stöðu Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu og lýsir áhyggjum af því, að frumvarpið veiki stöðu forsætisráðherra í stjórnskipaninni. Nefndin kannast við, að þessi breyting á valdahlutföllum Alþingis og ríkisstjórnar er lögð til að gefnu tilefni, m.a. til að girða fyrir landlægt ofríki framkvæmdarvaldsins gagnvart Alþingi. Ég leyfi mér að minna á ráðherrana tvo, sem drógu Ísland í stríð í Írak upp á sitt eindæmi, án þess að Alþingi fengi rönd við reist. Ég tel þessa ábendingu nefndarinnar ekki gefa tilefni til lagfæringar á frumvarpinu. Ég kímdi öðru sinni, þegar ég sá, að nefndin finnur að því, að stjórnmálamenn skuli yfirhöfuð fá að koma nálægt skipun dómara, en frumvarpið kveður á um, að skipun dómara þurfi annaðhvort staðfestingu forseta Íslands eða 2/3 hluta þings.

3. Fögnuður
Feneyjanefndin lýsir ánægju sinni með mörg ákvæði frumvarpsins. Hún fagnar jöfnu vægi atkvæða, persónukjöri, beinu lýðræði, upplýsingafrelsi og auðlindum í þjóðareigu. Hún rekur rökin með og á móti sumum þessara ákvæða, en öll þau rök voru vegin og metin í Stjórnlagaráði og einnig í nefndum Alþingis og koma því ekki á óvart. Nefndin fagnar aðkomu forseta Íslands að skipun embættismanna til aðhalds og eftirlits. Nefndin varar við hættu á þrátefli, en sú hætta fylgir ævinlega virku lýðræði með heilbrigðum valdmörkum og mótvægi. Hættan á, að mótvægi snúist í einhverjum tilvikum upp í þrátefli, er hampaminni en ofríki framkvæmdarvaldsins gagnvart Alþingi og dómstólum.

Það er ánægjulegt, að Feneyjanefndin skuli leggja lagatæknilega blessun sína yfir frumvarpið með því að benda eingöngu á atriði, sem auðvelt er fyrir Alþingi að bregðast við. Það er ekki á hennar færi að segja þingi og þjóð fyrir verkum. Þjóðin hefur sagt skoðun sína. Ekki færri en 73.408 kjósendur lýstu stuðningi við nýja stjórnarskrá í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október. „Allt ríkisvald sprettur frá þjóðinni“ stendur skýrum stöfum í frumvarpinu.