Fréttablaðið
7. ágú, 2008

Lokun Þjóðhagsstofnunar

Efnahagsvandinn nú er að miklu leyti heimatilbúinn, þótt upphafið megi rekja til erfiðleika á erlendum fjármálamörkuðum. Ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks 1995-2007 ber þunga ábyrgð. Hún gróf undan góðri hagstjórn og lét ítrekaðar viðvaranir um óheyrilega skuldasöfnun og aðsteðjandi gengisfall sem vind um eyru þjóta. Hún gróf undan góðri hagstjórn með því að tvístra og loka Þjóðhagsstofnun og veikja jafnframt Seðlabankann með því að setja öðru sinni óhæfan mann úr eigin röðum yfir bankann.

Tökum Þjóðhagsstofnun fyrst. Hún vann gott og gagnlegt starf um langt árabil undir hæfri forustu Jóns Sigurðssonar, Þórðar Friðjónssonar og Friðriks Más Baldurssonar. Stofnunin hafði á að skipa harðsnúinni sveit hagfræðinga og annarra, sem lögðu stjórnvöldum og stjórnarandstöðu til rækilegar upplýsingar um ástand og horfur í efnahagsmálum og gáfu góð ráð, þegar eftir þeim var leitað. Þegar hagstjórnarárangur undangenginna ára, verðbólga, atvinnutjón og yfirvofandi eignamissir blasa nú við augum landsmanna, hlýtur sú spurning að vakna, hvers vegna ríkisstjórnin kaus að loka helztu efnahagsstofnun ríkisins. Til þeirrar ákvörðunar lágu þrjár höfuðástæður, allar misráðnar.

Í fyrsta lagi virtist Þjóðhagsstofnun síðustu árin trufla ráðríka stjórnmálamenn og embættismenn, því að hún fór þá sínar eigin leiðir og lét ekki segja sér fyrir verkum. Einmitt þannig eiga ráðgjafarstofnanir að vera. Þjóðhagsstofnun var ekki ætlað að vera jábræðraband. Nú er mikill hluti skýrslugerðar um gang efnahagsmála í höndum Hagstofu Íslands og fjármálaráðuneytisins. Pólitískt fjármálaráðuneyti getur ekki notið trausts til jafns við sjálfstæða ráðgjafarstofnun, þótt hún heyri að forminu til undir forsætisráðuneytið. Stjórnmálaflokkar, aðrir en þeir, sem hafa fjármálaráðuneytið á sinni könnu, eiga ekki gott með að leita þangað eftir upplýsingum og ráðgjöf. Sama á við um verklýðsfélög, vinnuveitendur og önnur samtök. Þjóðhagsstofnun veitti heilbrigt aðhald að hagstjórninni. Þess vegna var henni lokað.

Í annan stað var sagt, að greiningardeildum viðskiptabankanna hefði vaxið svo fiskur um hrygg, að þær gætu að einhverju marki leyst Þjóðhagsstofnun af hólmi. Þessi skoðun er varhugaverð vegna þess, að höfuðhlutverk greiningardeildanna er að flytja góðar fréttir af afkomu bankanna og verðbréfasviðskiptum til hagsbóta fyrir hluthafa. Hlutverk greiningardeildanna stangast á við hlutverk Þjóðhagsstofnunar, sem var að flytja réttar fréttir af þjóðarbúskapnum, góðar eða slæmar eftir atvikum, og leggja út af þeim. Stjórnmálastéttin hefði trúlega áttað sig fyrr á eðli og umfangi efnahagsvandans nú, ef Þjóðhagsstofnunar hefði notið við og síbylja gleðifrétta greiningardeildanna hefði ekki ruglað grunlausa stjórnmálamenn og aðra í ríminu.

Í þriðja lagi var því haldið fram, að Hagfræðistofnun Háskóla Íslands gæti sinnt hluta þeirra verkefna, sem Þjóðhagsstofnun hafði með höndum. Háskólastofnanir mega gjarnan eiga gott samstarf við stjórnvöld, en þær mega ekki ganga erinda þeirra eða annarra, því að fólkið í landinu þarf að geta treyst því, að háskólar séu hafnir yfir ágreining milli stjórnmálaflokka og hagsmunahópa. Einstakir háskólamenn mega vitaskuld lýsa skoðunum sínar opinberlega á eigin ábyrgð, ég er að því núna, en háskólarnir sjálfir og stofnanir þeirra mega það helzt ekki, nema mikið liggi við. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands hefur á liðnum árum gert ýmislegt gagn, en hún hefur einnig birt skýrslur, sem báru þess skýr merki, að þeim virtist ætlað að þóknast stjórnvöldum eða öðrum verkbeiðendum.

Lokun Þjóðhagsstofnunar var reist á röngum forsendum. Ríkisstjórnin skynjaði ekki hættuna, sem stafaði af stríðu innstreymi erlends fjár til landsins. Seðlabankinn gerði illt verra með því að lækka bindiskyldu bankanna að ósk þeirra eins og aðalhagfræðingur Seðlabankans lýsti á opnum fundi í Háskóla Íslands 2. júní síðast liðinn. Seðlabankinn viðurkenndi ekki heldur fyrr en eftir dúk og disk, að gengi krónunnar væri of hátt skráð og þyrfti því að falla. Hefði Þjóðhagsstofnun verið að störfum, hefði hún ásamt öðrum getað bent á nauðsyn þess að beita bindiskyldunni ásamt stýrivöxtum til að halda útlánaþenslu bankanna í skefjum og reka ríkisbúskapinn með myndarlegum afgangi í uppsveiflunni. Þá hefði Seðlabankinn ekki þurft að hækka stýrivextina upp úr öllu valdi og stefna eignum og atvinnu fjölda fólks í voða. Aðhalds að hagstjórninni af hálfu Þjóðhagsstofnunar var þörf, úr því að stjórnmálamenn hafa heljartök á Seðlabankanum og ráðgjöf hennar fæst ekki annars staðar. Þess vegna var rödd hennar kæfð. Hún þarf að heyrast aftur.