Fréttablaðið
6. sep, 2007

Lögregla á sjó og landi

Morgunblaðið á þakkir skildar og þá ekki sízt Agnes Bragadóttir blaðamaður fyrir vaskleg skrif að undanförnu um meint svindl í kringum kvótakerfið. Brottkast og löndun fram hjá vikt hafa verið á allra vitorði frá árdögum kvótakerfisins að heita má eins og liggur í hlutarins eðli. Fáir hafa þó viljað við málið kannast, enda varðar kvótasvindl við lög. Í staðinn hefur verið reistur varnarmúr í kringum meint svindl: lygamúr. Slíkir múrar rofna ævinlega á endanum, ýmist innan frá eða utan að, og nú hefur Morgunblaðið blásið í flautuna. Uppljóstranir Moggans snúa meðal annars að slakri löggæzlu. Margir sjómenn hafa lýst svindlinu fyrir mér og öðrum langt aftur í tímann, jafnvel í útvarpi. Dómsmálayfirvöld og lögregla virðast þó hafa látið sér fátt um finnast.

Gagnrýni Morgunblaðsins hefur reyndar ekki beinzt í fyrsta lagi að lögreglunni, heldur að Fiskistofu, sem annast framkvæmd laga um stjórn fiskveiða, hefur eftirlit með fiskveiðum og sér um álagningu gjalds vegna ólögmæts sjávarafla. Vandinn hér er sá, að Fiskistofa heyrir undir sjávarútvegsráðuneytið og hefur því beinan hag af því ásamt umbjóðanda sínum, ráðuneytinu, að gjafakvótakerfið líti sem bezt út í augum almennings, sem á fiskinn í sjónum samkvæmt lögum. Ef upp kæmist um stórfellt kvótasvindl, myndi uppljóstranin trúlega þykja þungur áfellisdómur yfir kvótakerfinu, sem kallar á svindlið. Hún gæti jafnvel kippt fótunum undan fiskveiðistefnunni, sem hefur verið aðalsmerki sjávarútvegsráðuneytisins í bráðum aldarfjórðung. Það fer ekki vel á því, að stofnun, sem heyrir beint undir sjávarútvegsráðuneytið, hafi eftirlit með árangri af störfum ráðuneytisins. Sjálfseftirlit gerir ekki fullt gagn. Það þarf að færa eftirlitið frá framkvæmdinni.

Þessi saga er angi á miklum meiði í okkar litla landi. Kannski er ekki við öðru að búast, úr því að þrískiptingu valdsins er svo mjög ábótavant sem raun ber vitni. Framkvæmdarvaldið ræður lögum og lofum. Dómsvaldið nýtur líkt og löggjafarvaldið trausts innan við þriðjungs þjóðarinnar samkvæmt ítrekuðum könnunum Gallups. Ekki er þó mikið um það vitað, hvers vegna fólkið í landinu vantreystir dómskerfinu svo mjög; Gallup spyr ekki um það. Ein sennileg skýring er, að stjórnmálaflokkarnir – einkum þeir tveir, sem hafa varla fengizt til að sleppa hendinni af dómsmálaráðuneytinu allan lýðveldistímann – hafa ekki vandað nóg til mannvalsins í dómskerfinu, svo sem Lögmannafélag Íslands hefur fundið að og margir kannast við.

Lögbrot eru alvörumál í réttarríki, einkum þegar lögreglan ræður ekki við þau og virðist jafnvel láta þau óátalin. Hér er sameign þjóðarinnar í húfi, en svindlið heldur samt áfram samkvæmt mörgum vitnisburðum og færist jafnvel í vöxt, þar eð hvatinn til að svindla á kvótakerfinu eykst með niðurskurði aflaheimilda. Stjórnvöld halda því fram, að frásagnir af kvótasvindlinu séu ýktar. Þau bera því við, að fáir dómar hafi gengið um meint svindl. Þennan hnút þarf að leysa. Það er hægt með því að veita þeim, sem stíga fram og ljóstra upp um brottkast og löndun fram hjá vikt, skilyrðislausa sakaruppgjöf í skiptum fyrir framburð sinn. Til þess þarf stoð í lögum. Þá myndi létta til. Þessi hugmynd er náskyld annarri, sem nú er í skoðun: að þeir, sem hafa gert sig seka um ólöglegt verðsamráð, geti komið sér undan refsingu með því að hjálpa fáliðaðri lögreglu og samkeppniseftirliti við að upplýsa brotin. Einnig mætti hugsa sér aðra og kannski heppilegri umgerð um þessa einföldu lausn: rannsóknarnefnd Alþingis. Nokkrir stjórnarandstæðingar úr röðum Samfylkingarinnar fluttu frumvarp í þá veru í fyrra, en það náði ekki fram að ganga. Ekki virðist heldur líklegt, að Alþingi setji lög til að heimila sértæka sakaruppgjöf til að draga úr lögbrotum og styrkja réttarríkið í sessi. Alþingi hefur reynzt ófúst til að upplýsa hlerunarmál frá fyrri tíð líkt og gert var í Noregi. Þessi afstaða þingsins er óheppileg, þar eð Sjálfstæðisflokkurinn liggur undir grun um að hafa látið hlera andstæðinga sína og stendur í vegi fyrir fullnaðarathugun á málinu. Óbreytt ástand ber keim af sjálftekinni sakaruppgjöf.

Ef lögreglan stendur máttvana frammi fyrir meintum lögbrotum til sjós, hvaða von er þá til þess, að hún standi í stykkinu á landi? Allir sjá, hverjir hafa mestan hag af veikri löggæzlu og meðfylgjandi óvissu og öryggisleysi. En enginn þykist bera ábyrgð á vanmætti lögreglunnar og öryggi borgaranna, allra sízt dómsmálaráðherrann. Löggur vantar til starfa í tugatali. Þessu þarf að kippa í lag án frekari undanbragða. Láglaunabaslinu verður að linna. Og lögleysinu.