DV
25. okt, 2013

Lögfræðingur af lífi og sál

Mig langar að minnast með fáeinum fátæklegum orðum Magnúsar Thoroddsen, vinar míns, fv. forseta Hæstaréttar, eins merkasta og virðingarverðasta lögfræðings Íslands um sína daga frá mínum bæjardyrum séð. Hann er nú fallinn frá, 79 ára að aldri. Útför hans fór fram í gær.

Ég kynntist Magnúsi Thoroddsen og fjölskyldu hans barn að aldri og fylgdist æ síðan með Magnúsi og störfum hans, fyrst sem lögmanns og síðan sem hæstaréttardómara. Dómar hans þóttu óvenjulega vel skrifaðir, skýrir og hnitmiðaðir. Magnús markaði sér þá sérstöðu, að hann starfaði sem lögfræðingur hjá Mannréttindanefnd Evrópu í nokkur ár, áður en hann tók til starfa sem dómari í Hæstarétti Íslands 1982. Ég þykist vita, að reynslan af starfi hans að mannréttindamálum úti í Evrópu hafi víkkað sjóndeildarhring hans. Ég kynntist því af mörgum fróðlegum samtölum við Magnús um lögfræði, að heimur laganna snerist í huga hans ekki um tæknileg atriði einvörðungu, heldur einnig um réttlæti, á evrópska vísu, um lög og rétt – og lýðræði.

Eftir að hann hætti störfum í Hæstarétti 1989, markaði Magnús Thoroddsen sér að auki þá mikilvægu og sjaldgæfu sérstöðu meðal fv. hæstaréttardómara og annarra fyrrum hátt settra embættismanna, að hann lét meðfram lögmannsstörfum sínum brýn þjóðmál á sínu sviði til sín taka líkt og t.d. Ólafur Ólafsson fv. landlæknir hefur gert.

Merkasta framlag Magnúsar að þessu leyti varðaði fiskveiðistjórnarlöggjöfina og fiskveiðistjórnarkerfið, sem hann taldi hvorki standast stjórnarskrá Íslands né skuldbindingar Íslands skv. alþjóðlegum mannréttindasáttmálum. Magnús birti margar prýðilegar ritgerðir m.a. í Morgunblaðinu, þar sem hann gerði grein fyrir lögfræðihlið kvótamálsins og skýrði mannréttindabrotin, sem óbreytt ástand felur í sér.

Magnús gerði meira. Hann lagði ásamt öðrum grunninn að örlagaríkri málsókn tveggja sjómanna, Erlings Sveins Haraldssonar og Arnar Snævars Sveinssonar, gegn íslenzka ríkinu. Þeirri málsókn lyktaði með frækilegum sigri sjómannanna fyrir mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna 2007. Íslenzka ríkið á eftir að bregðast til fulls við bindandi áliti mannréttindanefndarinnar, því ríkið hefur hvorki numið mannréttindabrotaþáttinn burt úr löggjöfinni né greitt sjómönnunum bætur svo sem mannréttindanefndin mælti fyrir um. Magnús Thoroddsen stóð með fólkinu í landinu gegn forréttindum handa fámennum hópi manna. Svona eiga sýslumenn að vera.

Mannréttindanefndin lét málið gegn íslenzka ríkinu niður falla 2012 með fyrirvara og skírskotun m.a. til þess, að ríkið hefði lofað nýrri stjórnarskrá með ákvæði um auðlindir í þjóðareigu. Alþingi sýnir þó ennþá engin merki um að ætla sér að standa við loforð ríkisins. Mannréttindanefnd SÞ gæti því þurft að taka málið upp aftur.

Sérstaða Magnúsar Thoroddsen lýsti sér einnig vel í því, að hann bauð sig fram til setu á stjórnlagaþingi 2010, einn fv. hæstaréttardómara. Litlu munaði, að Magnús næði kjöri. Magnús reyndist ráðhollur, þegar frumvarp Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá var í smíðum, ekki bara um efni og orðalag ákvæðisins um auðlindir í þjóðareigu, heldur einnig um önnur ákvæði frumvarpsins og verkið í heild.

Minningin um Magnús Thoroddsen lifir, mikinn lögfræðing af lífi og sál.

Ég sendi Sólveigu Kristinsdóttur konu hans og börnum þeirra, Sigurði, Gerði og Þóru Björgu og fjölskyldum þeirra, hjartans kveðjur mínar, óskir og þakkir og okkar Önnu beggja.