DV
11. nóv, 2013

Lög, vísindi og spilling

Tveir prófessorar í hagfræði í Moskvu, Leonid Polishchuk og Timur Natkhov, sendu nýlega frá sér ritgerð, sem vert er að segja frá utan háskólamúranna.

Prófessorarnir spyrja: Hverju sætir það, að í Úkraínu sækja miklu fleiri stúdentar í laganám en í Póllandi? Og hvers vegna sækja miklu fleiri stúdentar í Póllandi í vísindanám en í Úkraínu?

Tölurnar tala skýru máli. Í Úkraínu sækja 8% háskólastúdenta í laganám borið saman við 2% stúdenta í Póllandi. Í Póllandi sækja á hinn bóginn 8% stúdenta í vísindanám á móti 4% í Úkraínu. Með vísindanámi er átt við nám í raunvísindum, þ.m.t. líffræði, stærðfræði og tölvunarfræði. Tölurnar miðast við fjölda brautskráðra stúdenta og eru sóttar til Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO). Í Póllandi bjóða 16 háskólar upp á laganám, en í Úkraínu skipta lagadeildirnar hundruðum.

Spurningin skiptir máli m.a. vegna þess, að löndin tvö, Pólland og Úkraína, eru náskyld og nokkurn veginn jafnstór, liggja hvert að öðru og eru að ýmsu öðru leyti nauðalík.

Rússnesku prófessorarnir tveir reiða fram ýmis fræðirök og reynslurök, sem leiða þá að svari við spurningunni. Svar þeirra er í stuttu máli þetta:

Úkraína er gerspillt, þar bítast menn eins og hundar um yfirráð yfir auðlindum landsins, auðgast á stjórnmálaafskiptum og eitra fyrir andstæðingum sínum. Ungt fólk þar laðast að lögfræði, þar eð nóg er að gera í dómskerfinu við að greiða úr ágreiningi milli stríðandi afla. Pólland er ekki eins spillt. Þar eru engar teljandi auðlindir til að bítast um og því ekki eftir neinu sérstöku að slægjast í lögfræðibransanum. Pólskir stúdentar laðast heldur að vísindum.

Munurinn skiptir máli, segja prófessorarnir. Laganám býr menn m.a. undir þjónustu við rentusóknara, t.d. þá, sem hafa sölsað undir sig auðlindir í þjóðareigu og hagnast þannig á kostnað annarra. Vísindanám býður að námi loknu engan sérstakan aðgang að rentusóknurum, heldur býr það menn undir rannsókn á umhverfi mannsins og aðild að framleiðslu á vörum og þjónustu, sem bitnar yfirleitt ekki á öðrum. Rentusókn er óhagkvæm og óheilbrigð af sjónarhóli þjóðarheildarinnar skv. eðli máls. Rentusóknarar koma sér áfram á olnbogaskotum.

Gögnin, sem rússnesku prófessorarnir tveir reiða fram, ná yfir 95 lönd um allan heim. Mynstrið, sem birtist í talnaefninu, er býsna skýrt. Í löndum, sem virða lög og rétt, er jafnan mun minni aðsókn að laganámi en í löndum, þar sem lög og réttur standa höllum fæti. Í löndum, sem virða lög og rétt, er með líku lagi mun meiri aðsókn að vísindanámi en í löndum, þar sem réttarríkið haltrar. Mynstrið helzt óbreytt hvort sem styrkur réttarríkisins er mældur beint eða óbeint, t.d. með vísitölum Alþjóðabankans um gæði stjórnsýslunnar, viðnám gegn spillingu eða vernd einkaeignarréttar. Mynstrið birtist jafnt í ríkum löndum og fátækum og er sérlega áberandi í fv. kommúnistaríkjum.

Þig skal hafa grunað, lesandi góður, að þetta kæmi næst. Hvað er hægt að segja um Ísland?

Eldgamla Ísafold er meðal landanna 95 í úrtaki Rússanna. Þeir sýna, að aðsókn að laganámi á Íslandi er miklu meiri en ætla mætti miðað við þær einkunnir, sem Alþjóðabankinn gefur Íslandi sem réttarríki, og miklu meiri en í Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð. Aðsókn að vísindanámi á Íslandi er með líku lagi miklu minni en ætla mætti miðað við þær einkunnir, sem Alþjóðabankinn gefur Íslandi sem réttarríki, og miklu minni en í Finnlandi, en þó svipuð og í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Séu verkfræði og heilbrigðisvísindi talin með raunvísindum, stendur aðsókn að vísindanámi á Íslandi langt að baki Finnlands, Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar.

Niðurstöður rússnesku prófessoranna virðist mega túlka á þann veg, að Alþjóðabankinn hafi gefið Íslandi of háar einkunnir sem réttarríki, þar eð munurinn á aðsókn að laganámi og vísindanámi á Íslandi rímar vel við ýmis lönd, sem Alþjóðabankinn hefur gefið mun lakari einkunn fyrir ýmsar hliðar laga og réttar, en rímar ekki vel við önnur Norðurlönd.

Þessi túlkun kemur heim og saman við nýja rannsókn Gallups, sem sýnir, að 67% Íslendinga telja spillingu vera útbreidda í stjórnkerfinu borið saman við 14% Svía, 15% Dana, 25% Norðmanna, 30% Finna, 68% Pólverja og 77% Úkraínumanna.