Fréttablaðið
13. okt, 2005

Lög án landamæra

Heimurinn er alltaf að minnka. Það stafar af því, að menn sjá sér hag í sífellt nánari samskiptum sín í milli innan lands og utan. Greiðari viðskiptum fylgja bæði kostir og gallar. Kostirnir eru þeir, að menn geta þá með léttara lagi en ella flutt til sín og tileinkað sér margt af því bezta, sem aðrar þjóðir hafa upp á að bjóða. Vandinn er sá, að mönnum tekst þá e.t.v. ekki til fulls að stemma stigu við innstreymi ýmislegs ófagnaðar, t.d. eiturlyfja. Hitt vegur þó miklu þyngra, eða svo mun flestum finnast með rök og reynslu að leiðarljósi, að frjálsum viðskiptum fylgja drjúgar lífskjarabætur, sem gengju mönnum ella úr greipum. Menn loka ekki löndum til að girða fyrir eiturlyf. Frívæðing íslenzks efnahagslífs í krafti EES-samningsins síðan 1994 hefur skipt sköpum: enginn annar einstakur atburður hefur á undanförnum árum valdið viðmóta straumhvörfum í þjóðlífinu.

Gagnið af EES-samningnum er ekki bundið við grósku í efnahagslífinu. Hann hefur einnig gert Íslendingum kleift að dreifa dómsvaldinu að nokkru leyti út fyrir landsteinana og deila því í auknum mæli með öðrum. Viðskipti eru valddreifingartæki. Íslendingar hafa hag af því, að þeir geta nú í ríkari mæli en áður leitað réttar síns í útlöndum, t.d. fyrir Eftirlitsstofnun EFTA og EFTA-dómstólnum, telji þeir innlenda dómstóla hafa brotið á sér. Aðhaldið, sem í þessu felst, hlýtur með tímanum að bæta og efla dómskerfið líkt og aukin samkeppni á öðrum sviðum. Í krafti næmari skilnings á nauðsyn þess, að lög nái yfir landamæri, eftir því sem hægt er og þurfa þykir, hika menn síður nú en áður við að áfrýja eða vísa málum út, svo sem til Mannréttindadómstólsins í Strassborg í Frakklandi, en þar hafa Íslendingar unnið ýmis mál, sem þeir höfðu áður tapað heima fyrir.

Af þeim málarekstri hefur leitt ýmis tímabær nýmæli í íslenzkri löggjöf og réttarfari, t.d. eftir frækilegan sigur Þorgeirs Þorgeirsonar rithöfundar gegn íslenzka ríkinu fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu 1992. Mannréttindadómstóllinn er alþjóðadómstóll og hefur enga lögsögu á Íslandi, þar eð löggjafarvaldið hér er í höndum Alþingis. Hann getur því ekki sagt annað en það, að tilteknir dómar brjóti í bága við Mannréttindasáttmálann, sem Íslendingar hafa undirritað. Þann úrskurð felldi dómstóllinn um dóm Hæstaréttar gegn Þorgeiri fyrir að hafa brotið gegn svohljóðandi ákvæði þágildandi hegningarlaga: “Aðdróttun [um ríkisstarfsmann], þótt sönnuð sé, varðar sektum ef hún er borin fram á ótilhlýðilegan hátt,” en Þorgeir hafði skrifað tvær hvassar blaðagreinar um harðræði lögreglunnar gegn saklausum manni. Sigur Þorgeirs í Strassborg varð til þess, að greinin, sem hann hafði verið dæmdur eftir í Hæstarétti, var felld úr lögum. Ósigur ríkisins í öðru óskyldu máli í Strassborg varð til þess, að ákæruvald var loksins skilið frá dómsvaldi.

Flestum nema sakamönnum þykir það sjálfsagt og eðlilegt, að löggæzla nái yfir landamæri, svo að lögbrjótar geti ekki skotið sér undan refsingu með því að flýja land. Til þess höfum við alþjóðalögregluna Interpol. Þess vegna gerði íslenzka lögreglan húsleit á Íslandi um daginn að frumkvæði brezku lögreglunnar. Er það þá ekki með líku lagi eðlilegt, að lögsaga dómstóla nái einnig yfir landamæri, eftir því sem við á? – svo að fórnarlömb glæpa hafi sem bezt skilyrði til að leita réttar síns. Svarið blasir við, þegar um er að ræða lögbrot, sem teygja sig yfir landamæri – t.d. atvinnuróg og illmælgi um menn í öðrum löndum. Sama á einnig við um önnur innlend lögbrot, sem bitna á fólki í öðrum löndum og hægt er í sumum tilvikum að sækja menn til saka fyrir erlendis. Tökum dæmi.

Dómskerfið heima fyrir megnaði ekki að taka á kærum á hendur Augusto Pinochet, einræðisherranum fyrrverandi, fyrir mannréttindabrot í stjórnartíð hans í Síle. Síleanska þjóðin var klofin í afstöðu sinni til Pinochets, og dómskerfið skorti þrek og þor. Það var ekki fyrr en brezka lögreglan handtók og kyrrsetti Pinochet í London að kröfu spænsks saksóknara, Baltasars Garzon, að Sílebúum óx kjarkur til að takast á við vandann. Aðkoma Spánverjans að málinu helgaðist af því, að meðal fórnarlamba Pinochets voru nokkrir Spánverjar. Þannig gerðist það, að Pinochet var að endingu sóttur til saka í Síle fyrir mannréttindabrotin, sem voru á allra vitorði. Við rannsóknina varð hann einnig uppvís að mikils háttar mútuþægni. Þungu fargi var létt af þjóðinni. Pinochet bíður nú dóms.